© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
Lög Körfuknattleikssambands Íslands
Heiti og tilgangur:
1. grein
Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) er æðsti aðili um öll körfuknattleiksmál innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Aðsetur sambandsins skal vera í Reykjavík.
2. grein
Körfuknattleikssamband Íslands er samband körfuknattleiksráða, héraðssambanda og íþróttabandalaga og eiga öll þau félög innan ÍSÍ er iðka og keppa í körfuknattleik rétt á aðild að KKÍ.
3. grein
Starf KKÍ er í meginatriðum:

a) Að hafa yfirstjórn allra íslenskra körfuknattleiksmála.

b) Að vinna að eflingu körfuknattleiks á Íslandi.

c) Að vera fulltrúi Íslands í Alþjóðakörfuknattleikssambandinu (FIBA) og Körfuknattleikssambandi Evrópu (FIBA Europe).
Skipulag:
4. grein
Málefnum KKÍ stjórna:

a) Körfuknattleiksþingið.
b) Stjórn KKÍ.
c) Formannafundir.
5. grein
Körfuknattleiksþingið fer með æðsta vald á málefnum KKÍ. Þingið sitja fulltrúar frá þeim aðilum sem mynda KKÍ.

Fulltrúafjöldi þeirra ákvarðast af þátttöku félaga í Íslandsmóti á því keppnistímabili sem Körfuknattleiksþing er haldið sem hér segir:

a) Fyrir félag, sem spilar í úrvalsdeild karla eða 1. deild karla komi 2 fulltrúar
b) Fyrir félag, sem spilar í úrvalsdeild kvenna eða 1. deild kvenna komi 2 fulltrúar
c) Fyrir félag, sem spilar í 2. eða 3. deild komi 1 fulltrúi
d) Fyrir félag sem skráir yngriflokka komi 1 fulltrúi
e) Fyrir félag sem skráir 10 eða fleiri yngriflokka kemur 1 fulltrúi til viðbótar (2 fulltrúar fyrir yngriflokka)

Héraðssambönd og Íþróttabandalög sem hafa körfuknattleik iðkaðan innan sinna vébanda skulu eiga rétt á einum (1) fulltrúa á körfuknattleiksþing. Ekki er heimilt að framselja atkvæðisrétt þeirra.

Aðilardarfélög sem eru í skuld við KKÍ viku fyrir upphaf þings, missa atkvæðarétt á þingi. Kjörbréfanefnd ber að ganga úr skugga um, að þessu ákvæði sé framfylgt. Aðildarfélög sem eru í skuld við KKÍ við upphaf formannafundar missir atkvæðarétt á fundinum. Stjórn KKÍ ber að ganga úr skugga um, að þessu ákvæði sé framfylgt.

Þingið skal halda á tímabilinu mars-maí annað hvert ár. Stjórn KKÍ skal boða bréflega til þingsins með minnst sex (6) vikna fyrirvara. Málefni, sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn KKÍ minnst þrem (3) vikum fyrir þing. Þá skal stjórn KKÍ kynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt ársskýrslu stjórnar í síðasta lagi einni viku fyrir þing.

Körfuknattleiksþingið er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað.

Heimilt er að körfuknattleiksþing sé pappírslaust þing sé hægt að koma því við.

Þingboð og annað sem senda þarf sambandsaðilum vegna Körfuknattleiksþings má senda með rafrænum pósti.

Stjórn KKÍ skal skipa kjörnefnd eigi síðar en þremur (3) vikum fyrir körfuknattleiksþing og skal nefndin leggja fram tillögur til körfuknattleiksþing um nýja stjórnarmenn eins og lög gera ráð fyrir.
6. grein
Allir þingfulltrúar skulu hafa kjörbréf og hafa fulltrúar atkvæðisrétt samkvæmt kjörbréfum er þingið hefur samþykkt þau. Kjörbréf skulu send til aðildarfélaga þremur (3) vikum fyrir þing og skuliu aðildarfélög skila inn kjörbréfum útfylltum til skrifstofu KKÍ viku fyrir þing.

Félögum er heimilt að skila kjörbréfum með rafrænum pósti.

Auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:
a) Stjórn og starfsmenn KKÍ
b) Endurskoðendur KKÍ
c) Framkvæmdastjórn ÍSÍ
d) Framkvæmdastjórar KKÍ og ÍSÍ
e) Allir nefndarmenn fastanefnda KKÍ
f) Dómarar dómstóla áfrýjunardómstóls KKÍ
g) Fulltrúi ráðherra íþróttamála
h) Einn fulltrúi Körfuknattleiksdómarafélags Íslands
i) Einn fulltrúi Körfuknattleiksþjálfarafélags Íslands

Auk þess getur stjórn KKÍ boðið aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til.

Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði, en auk þess getur hann farið með eitt annað atkvæði samkvæmt skriflegu umboði. Þingfulltrúi getur ekki farið með atkvæði tveggja félaga, hvorki sem fulltrúi né með umboði. Þó er fulltrúa héraðssambands heimilt að hafa umboð frá félagi innan síns sambands.
7. grein
Aukaþing má halda ef nauðsyn krefur, ef 2/3 hlutar formannafundar sem mæta til löglega boðaðs formannafundar eða helmingur sambandsaðila óskar þess.

Alla boðunar- og tilkynningafresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa, sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraðinu, eða er forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef helmingur kjörinnar stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum, eða stjórnin að eigin dómi orðin óstarfhæf. Á aukaþingi boðuðu af formannafundi er heimilt að gera reglugerðabreytingar sem þegar hafa verið lagðar fram til umræðu á formannafundi.

Að öðru leyti gilda um aukaþing sömu reglur og um reglulegt körfukattleiksþing.
8. grein
1. Þingsetning.
2. Kosning starfsmanna:
a) Kosning kjörbréfanefndar.
b) Kosning fyrsta og annars þingforseta.
c) Kosning fyrsta og annars þingritara.
3. Kosning fastra nefnda:
a) Fjárhagsnefnd.
b) Laga- og leikreglnanefnd.
c) Allsherjarnefnd.
Nefndir þessar eru skipaðar þremur mönnum hver og kjósa þær sér formann.
4. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu.
5. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.
6. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár.
7. Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar þær, sem borist hafa til stjórnarinnar.
8. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál, sem borist hafa til stjórnarinnar.

- ÞINGHLÉ -

9. Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðslur um þær.
10. Önnur mál.
11. Kosning formanns.
12. Kosning níu meðstjórnenda.
13. Kosning sex manna í aga og úrskurðarnefnd KKÍ.
14. Kosning þriggja manna í Áfrýjunardómstól KKÍ og þriggja til vara.
15. Kosning tveggja endurskoðenda.
16. Kosning fulltrúa á Íþróttaþing.
17. Þingforseta og þingritara falið að ganga frá þinggerð.
18. Þingslit.

Allir aðilar eru kosnir til tveggja ára.

Fái þeir sem um er kosið, jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þingið getur með 2/3 hluta atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál, sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum.

Ársskýrslu KKÍ, sem stjórnin skal leggja fyrir þingið og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum KKÍ innan tveggja mánaða frá þingslitum.
9. grein
Stjórn KKÍ fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli þinga. Stjórn KKÍ skipa tíu menn., formaður og níu meðstjórnendur. Til að ná kjöri sem formaður þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný um þá tvo menn sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum.

Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti en ákveðið er í þessum lögum. Formaður KKÍ boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim.

Þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn KKÍ skulu tilkynna það til kjörnefndar KKÍ ekki síðar en 10 dögum fyrir Körfuknattleiksþing. Berist ekki framboð fyrir þann tíma skal kjörnefnd hlutast til um tilnefningu aðila til stjórnarkjörs á ársþingi.

Stjórn KKÍ er heimilt að ráða launað starfsfólk, m.a. framkvæmdastjóra og skal stjórnin setja honum erindisbréf.

Reikningsár KKÍ skal vera almanaksárið.
10. grein
Stjórn KKÍ skal strax að loknu körfuknattleiksþingi skipa eftirtaldar nefndir:

Mótanefnd
Dómaranefnd
Afreksnefnd
Fjárhagsnefnd
Fræðslunefnd
Siðanefnd

Hver nefnd skal skipuð minnst þremur mönnum, nema annað sé ákveðið í reglugerð.

Stjórn KKÍ skal setja öllum nefndum skipunarbréf. Í upphafi starfsárs skulu nefndir gera starfsáætlun og skal hún lögð fyrir stjórn KKÍ til staðfestingar. Nefndir KKÍ hafa ekki sjálfstæðan fjárhag, nema stjórn KKÍ ákveði annað í skipunarbréfi. Stjórn KKÍ skal boða formenn nefnda og fulltrúa dómara eða þjálfara á stjórnarfundi þegar þurfa þykir eða þeir óska þess.
11. grein
Öll aðildarfélög KKÍ eiga rétt á að tilnefna einn fulltrúa á formannafund KKÍ. Þar eiga einnig sæti stjórnarmenn KKÍ. Formannafundur skal boðaður minnst einu sinni á keppnistímabili. Formaður KKÍ boðar til fundar og stjórnar fundum. Formannafundur er vettvangur umræðu um körfuknattleiksmál. Hann er stjórn KKÍ einnig ráðgefandi um lausn ýmissa mála, sem koma upp milli körfuknattleiksþinga. Stjórn KKÍ verður að leggja endurskoðaða ársreikninga og fjárhagsáætlun KKÍ fyrir formannafund það ár sem körfuknattleiksþing er ekki haldið. Þegar ný gjaldskrá er gefin út vegna kostnaðar við dómara skal bera gjaldskrána upp á formannafundi til samþykktar.
12. grein
Starfssvið stjórnar KKÍ er m.a.:

1. Að framkvæma ályktanir körfuknattleiksþingsins.
2. Að vinna að stofnun nýrra sérráða í samráði við hlutaðeigandi héraðssambönd.
3. Að vinna að eflingu körfuknattleiks í landinu.
4. Að hafa eftirlit með, að leikreglur og reglugerðir fyrir körfuknattleik séu jafnan í nauðsynlegu samræmi við alþjóðareglur.
5. Að taka ákvarðanir um veitingu heiðursmerkja og viðurkenninga.
6. Að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur.
7. Að líta eftir því, að lög og reglur KKÍ séu haldnar.
8. Að hafa yfirumsjón með körfuknattleiksmótum.
9. Að samþykkja alþjóðamót, sem haldin eru á Íslandi.
10. Að samþykkja þátttöku íslenskra körfuknattleiksliða í alþjóðamótum erlendis.
11. Að koma fram innanlands og erlendis f.h. körfuknattleikshreyfingarinnar í landinu.
12. Að skera úr ágreiningi eða taka ákvarðanir um málefni sem lög þessi eða/og reglugerðir KKÍ ná ekki yfir
13. Að ákveða þátttökugjöld fyrir hvert tímabil.
14. Stjórn KKÍ er heimilt að banna körfuknattleiksviðburði sem fara fram á sama tíma og stórleikir á vegum sambandsins.

Stjórn og/eða framkvæmdastjóri KKÍ líta eftir því að lög og reglugerðir KKÍ og leikreglur séu haldin og geta vísað brotum aðila til aga og úrskurðarnefndar KKÍ eftir atvikum til úrskurðar. Í sérstökum tilfellum þegar lög þessi eða reglugerðir KKÍ eru ekki fullnægjandi geta þau tekið til skoðunar sjálfstætt brot aðila og beitt þeim viðurlögum er getur í lögum þessum.

Stjórn KKÍ hefur frjálsan aðgang að öllum körfuknattleiksmótum og sýningum, sem fram fara innan vébanda KKÍ.
13. grein
Stjórn KKÍ setur nauðsynlegar reglugerðir um þau málefni, sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða.

Nýjar reglugerðir og breytingar á gildandi reglugerðum skulu kynntar aðildarfélögum með rafrænum pósti og taka þær gildi þá þegar. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi heldur er nægjanlegt að þær séu kynntar með rafrænum pósti.

Óski aðildarfélög eftir setningu nýrra reglugerða eða breytinga á gildandi reglugerðum skal slíkum óskum beint til stjórnar KKÍ.
14. grein
Dómstig KKÍ eru:
a) Aga og úrskurðarnefnd KKÍ
b) Áfrýjunardómstóll KKÍ
15. grein
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ skal skipuð formanni og tveimur varaformönnum, sem skulu allir löglærðir, og auk þeirra þremur mönnum. Skulu þeir kosnir á körfuknattleiksþingi til tveggja ára í senn.

Nefndin starfar skv. aga- og úrskurðarreglum KKÍ og skulu a. m. k. þrír taka þátt í ákvörðun nefndarinnar og skal a. m. k. einn þeirra vera formaður eða varaformaður.

Nefndin getur tekið ákvörðun um viðurlög skv. lögum þessum, reglugerðum KKÍ og aga- og úrskurðarreglum KKÍ gegn aðildarfélögum, forráðamönnum, leikmönnum, þjálfurum, starfsmönnum og öðrum þeim, sem eru innan vébanda aðildarfélaga KKÍ.
16. grein
Áfrýjunardómstóll KKÍ starfar skv. lögum þessum og reglugerð KKÍ um áfrýjunardómstól.
17. grein
Áfrýjunardómstóll KKÍ skal skipaður 3 löglærðum dómurum og 3 löglærðum til vara.

Dómarar skulu kosnir á reglulegu körfuknattleiksþingi til setu fram að næsta reglulega körfuknattleiksþingi og kýs dómstóllinn sér forseta.

Dómstóllinn starfar skv. lögum þessum og reglugerð KKÍ um áfrýjunardómstól KKÍ og skulu a. m. k. þrír fara með mál og skipar forseti í dóminn í hverju máli fyrir sig.
18. grein
Dómstóllinn tekur fyrir áfrýjanir vegna úrskurða aga- og úrskurðarnefndar sem ekki eru endanlegir samkvæmt reglugerð KKÍ um aga- og úrskurðarnefnd.

Ákvarðanir dómstólsins eru endanlegar og bindandi fyrir málsaðila. Þó er heimilt að áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ þeim málum, sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild.
19. grein
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ og áfrýjunardómstóll KKÍ hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan vébanda Körfuknattleikssambands Íslands, sem varða lög og reglugerðir KKÍ eftir því sem við á.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ og áfrýjunardómstóll KKÍ skulu lúta lögum þessum og reglugerðum og skulu öll ágreiningsmál gagnvart aðildarfélögum KKÍ, forráðamönnum félaganna, leikmönnum, þjálfurum, liðsstjórum og öðrum þeim sem eru innan vébanda aðildarfélaga KKÍ rekin fyrir aga- og úrskurðarnefnd KKÍ og áfrýjunardómstól KKÍ nema það sé sérstaklega heimilað í lögum eða reglugerðum KKÍ að reka málið fyrir nefndum innan KKÍ en aldrei skal heimilt að reka ágreiningsmál fyrir almennum dómstólum

Ágreiningsmál aðila innan vébanda KKÍ gagnvart aðila innan vébanda erlends körfuknattleikssambands skal fara með samkvæmt reglum FIBA World eða FIBA Europe og hefur FIBA World eða FIBA Europe lögsögu í slíkum málum. Ákvarðanir FIBA World eða FIBA Europe í slíkum málum eru endanlegar og bindandi fyrir alla aðila en ákvörðunum FIBA World eða FIBA Europe er hægt að skjóta til Íþróttadómstólsins (Court of Arbitration for Sport, skammstafað CAS) í Lausanne í Sviss sem leysir þá endanlega úr ágreiningsmálinu í samræmi við reglur um gerðardómsmeðferð mála á íþróttasviði (Code of Sports-related Arbitration). Er sú niðurstaða endanleg og bindandi fyrir aðila.
20. grein
Aðildarfélög KKÍ skulu tilkynna skrifstofu KKÍ tímasetningu aðalfundar sé hann haldinn með minnst viku fyrirvara. Einnig skulu ársskýrsla og fundargerð aðalfundar send skrifstofu KKÍ.

Þegar mynduð er ný stjórn skal senda þær breytingar til KKÍ í síðasta lagi tveim vikum eftir að stjórn er mynduð.

21. grein
Lög þessi öðlast gildi þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur samþykkt þau.
22. grein
Tillögur um að leggja KKÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu körfuknattleiksþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til reglulegs þings. Með fulltrúakjöri sínu til þess þings taka aðilar afstöðu til tillögunnar. Verði tillagan samþykkt öðru sinni, er það fullgild ákvörðun um að leggja KKÍ niður. Ákveður það þing síðan hvernig skuli ráðstafa eignum KKÍ, en þeim má aðeins verja til eflingar körfuknattleiksíþróttinni í landinu.
Samþykkt á Körfuknattleiksþingi í Skagafirði 6.-7. maí 2011
Leikir í beinni
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Úr myndasafni KKÍ
Valsarinn Matthías E. Matthíasson í leik með Marquette háskóla á níunda áratug síðustu aldar.
Lesningin
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið