© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
         
6.9.2006 | Óskar Ófeigur Jónsson
Sigurður Ingimundarson: Þetta verður alvöru stríð
Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ingimundarson ætlar sér að koma Íslandi upp í A-deild. KKÍ.is tók viðtal við manninn sem stjórnar atlögu íslenska karlalandsliðsins að A-deildinni.

"Það verður líf og fjör hjá okkur næstu vikurnar," segir landsliðsþjálfarinn Sigurður Ingimundarson en framundan eru fjórir leikir hjá íslenska körfuboltalandsliðinu í b-deild Evrópukeppninnar. Í boði er sæti meðal þeirra bestu og Sigurður hefur ekki farið leynt með það að hann hefur alltaf stefnt að því að koma íslenska karlalandsliðinu upp í A-deild. "Við setum þá kröfu á okkur að við getum þetta. Okkur finnst við vera nægilega góðir og ætlum að setja fullt gas í það að reyna að koma okkur upp úr þessum riðli. Það er stórt skref að komast upp í hóp þeirra 24 bestu en við teljum að við séum á réttri leið og að við eigum heima þar," segir Sigurður sem hefur þjálfað íslenska landsliðið síðan sumarið 2004.

Samheldið og skemmtilegt lið
"Við ætlumst til mikils af okkar liði og vorum svekktir þegar þetta tókst ekki síðast. Við áttum að okkar mati að gera betur. Við vorum með mjög ungt lið í síðustu keppni. Nú eru þessir strákar tveimur árum eldri og komnir á betri aldur," segir Sigurður og hann er ánægður með samsetningu liðsins nú. "Þetta er samheldið og skemmtilegt lið og við erum líka með marga góða einstaklinga. Þegar við náum þessum rétt dampi í okkar leikjum og þegar menn eru að spila saman í vörninni þá lítum við vel út. Það koma hinsvegar enn of margir kaflar í leikina þar sem við dettum niður. Við erum því alltaf að leitast eftir því að ná meiri jafnvægi og stöðugleika í okkar lið," segir Sigurður en bætir strax við.

Betra hugarfar
"Hugarfarið er samt að lagast hjá okkur. Við erum farnir að koma inn í leiki með það að við eigum að vinna. Við erum komnir á hærri stall andlega og það er það sem við erum að reyna að búa til og vinna með daglega. Þessir strákar eru kannski flestir rétt að byrja sinn atvinnumannaferil en eru allir komnir þegar með töluverða reynslu. Þeir eru allir búnir að keppa hér og þar, hafa spilað mikið og eru orðnir vanir því að vinna. Við erum með rosalegan skemmtilegan hóp í höndunum sem á aðeins eftir að verða betri."

Fjórir leikir á aðeins tíu dögum
Evrópukeppnin verður spiluð á skömmum tíma, fjórir leikir á tíu dögum og Sigurður hefur undirbúið liðið samkvæmt því. "Við erum einbeittir á þessa fjóra leiki sem við spilum á þessu ári. Þeir eru allir spilaði á fjórum dögum ásamt tveimur ferðalögum í útileiki. þetta er eigilega spilað í einum hvelli. Við spiluðum síðustu fimm æfingaleiki okkar á fimm dögum og það var liður í því að venja liðið við að spila marga leiki og ná þeim öllum góðum. Við höfum lagt áherslu á að koma liðinu í betri gír og á þann stall sem við ætlum okkur að vera í undankeppninni."

Finnland og Georgía talin vera sterkustu liðin
Sigurður hefur mikla trú á sínu liði en körfuboltaspekingarnir í Evrópu eru þó ekki að spá Íslandi upp úr riðlinum. "Fyrirfram eru Finnland og Georgía talin vera sterkustu liðin í riðlinum og að flestra mati þau tvö lið sem koma til með að berjast um að komast upp. Í Evrópu er menn að metast um hvort það verði Finnland eða Georgía sem vinni riðilinn en við erum harðir á því að það verði hvorugt þessara liða," segir Sigurður sem leggur mikla áherslu á mikilvægi fyrsta leiksins gegn Finnum í kvöld.

Ósáttir með því að vera í B-deildinni
"Finnar eru mjög sterkir og hafa líka mikla hefð því þeir hafa verið meirihlutann af sinni tíð í A-deildinni. Þeir eru mjög ósáttir með að vera í b-deildinni og finnst þeir eiga heima ofar. Þeir eru með hörkulið og mikið af góðum leikmönnum. Við erum harðir á því að við getum unnið Finnland. Þetta er mjög mikilvægur leikur, bæði er þetta fyrsti leikurinn í keppninni sem við þurfum að byrja vel og svo er þetta á móti Finnum á okkar heimavelli. Við höfum því verið að miða okkar undirbúning svolítið við þennan leik. Næsti leikur er síðan út í Georgíu sem er ekki síður erfiður leikur. Þar er eitt af þessu gömlu körfuboltaveldum í gömlu Sovétríkjunum. Þeir eru með mjög marga góða og stóra leikmenn og hafa verið að standa sig nokkuð vel."

Þurfum að spila af meiri ákafa en hin liðin
Sigurður veit vel að íslenska liðið þarf að spila sína bestu leiki ætli það sér að komast upp úr riðlinum. "Það sem þarf að takast hjá okkur er að ná að halda jafnvægi í vörn og sókn í 40 mínútur. Við höfum stundum átt í basli með að skora en þá hefur vörnin smollið og síðan öfugt. Við þurfum að spila af meiri ákafa en hin liðin, þannig spilum við vel og það hentar vel fyrir okkar leikstíl. Við þurfum ekkert að treysta á það að við þurfum að hitta fyrir utan eða þurfum að gera eitthvað ákveðið heldur erum við með menn í liðinu til þess að gera allt inn á vellinum. Við höfum ágætis jafnvægi á því að skora undir körfunum eða að skora fyrir utan og við þurfum að nýta okkur það," segir Sigurður sem ætlar að dreifa álaginu á íslenska hópinn.

Ekki hætta á því að menn lendi í álagi
"Við höfum mjög marga góða leikmenn og það er engin hætta á því að menn lendi í miklu álagi vegna þess að þeir eru að spila of mikið. Við munum nýta okkur það sem styrk liðsins að við höfum mikla breidd. Í tólf manna hópnum er allt menn sem hjálpa liðinu við að spila og við eigum líka orðið fleiri en menn en þessa tólf sem koma til með að spila þessa leiki. Það segir okkur það og liðið ætti að vera sterkt."

Enginn svikinn af því að fara á þennan leik
Sigurður lofar mikill skemmtun og vonast eftir að körfubolta-áhugafólk fjölmenni á leikinn við Finna í kvöld. "Það myndi hjálpa strákunum alveg gríðarlega ef að við fengjum mikinn mannfjölda í Höllina. Ég held að það verði enginn svikinn af því að fara á þennan leik. Strákarnir eru búnir að leggja mikið á sig fyrir þetta og ættu alveg það skilið að fá að spila fyrir fulla Höll. Þetta verður leikur í háum gæðaflokki, Finnar eru með mjög gott lið, þeir eru metnaðarfullir eins og við og eru að leggja gríðarlega mikið í sitt dæmi. Þannig að þetta verður alvöru stríð."
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Sumarið 2009 skrifaði KKÍ og Marka hef. umboðsaðili Spalding undir þriggja ára samning þess efnis að leikið verður með Spalding bolta í Iceland Express-deild karla og kvenna. Á myndinni sjást Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Björn Leifur Þórisson frá Marka ehf. skrifa undir samninginn.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið