© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
27.12.2006 | Bjarni Gaukur Þórmundsson
Stefnir í óefni í dómaramálum
Eins og flestum ætti að vera kunnugt um er staðan í dómaramálum alls ekki góð. Dómarar eru allt of fáir til að anna með góðu móti þeim leikjum sem í boði eru.

Staðan er einna verst á Suðurnesjum, en þar eru einungis þrír dómarar starfandi, allir A-dómarar. Á Suðurnesjum fara fram 45 leikir í 2. deild karla og unglingaflokki karla. Þá eru ótaldir mögulegir bikarleikir á svæðinu.

Á höfuðborgarsvæðinu fara fram 158 leikir í 2. deild karla, 2. deild kvenna og unglingaflokki karla. Á höfuðborgarsvæðinu eru ekki nema sex C-dómarar og þrír B-dómarar. Það þarf ekki að rýna lengi í þessar tölur til að sjá að þetta gengur ekki upp til lengdar, og athugið að þarna er ekki verið að taka með í dæmið þá staðreynd að dómaranefnd ætti með réttu að raða dómurum á leiki í unglingaflokki kvenna og drengjaflokki.

Ekki er endalaust hægt að láta A-dómara dæma í þessum umræddu deildum, álagið verður fljótt allt of mikið. Á tímabilinu 19. október til og með 20. nóvember voru sex dómarar að dæma 15 eða fleiri leiki. Átta aðrir dæmdu 10 leiki eða fleiri. Í þessum hópi voru ellefu A-dómarar og þrír B-dómarar. Leikjahæsti dómarinn var með 20 leiki, einn var með 18, einn með 17 og tveir með 16.

Álagið á starfandi dómara er allt of mikið, það er deginum ljósara. Og það má ekki mikið út af bregða til að staðan versni enn frekar. Það mega ekki margir dómarar lenda í meiðslum, en hættan á því er því miður töluverð vegna álagsins. Staðan er raunar þannig núna að sjaldan eða aldrei hafa dómara kvartað jafn mikið undan hinum ýmsu eymslum, einna helst í hnjám (sem er rannsóknarefni út af fyrir sig), og hlýtur það að vera nokkuð áhyggjuefni fyrir körfuknattleikshreyfinguna.

Fyrir nokkrum vikum var haldið dómaranámskeið á Flúðum og má gera ráð fyrir að 2-4 dómarar af því námskeiði bætist í hóp virkra dómara á næstu vikum. Þá er sú staða komin upp að til að manna leiki í tveimur neðstu deildum meistaraflokks og í unglingaflokki karla, mun þurfa að kalla oftar í dómara utan af landi en nú ert gert, með tilheyrandi kostnaði.

Hingað til hefur dómaranefnd reynt að raða þannig á leiki að kostnaður sé sem minnstur, en það hefur því miður ekki alltaf verið hægt. Nú stefnir í að kostnaðurinn hækki enn frekar. Það er engum til góðs.

Á ársþingi KKÍ, í maí síðastliðnum, var samþykkt tillaga þess efnis að þátttökugjöld hækkuðu í öllum mótum en á móti kæmi að félög gætu fengið afslátt af gjöldunum með því að útvega KKÍ dómara. Fyrir hvern virkan dómara er því hægt að fá 30.000 króna afslátt af þátttökugjöldunum. Þetta kemur fram í 9. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót:

"Hvert félag skal tilnefna dómara til KKÍ eigi síðar en 25. september.
Fyrir hvern dómara sem félögin tilnefna eru bakfærðar kr. 30.000 af þátttökugjöldum þess. Bakfærslan getur ekki orðið meiri en heildarþátttökugjöld félagsins og fer fram 20. september ár hvert.
Upphæð á bakfærslu vegna dómara skal breytt á körfuknattleiksþingi en haldist ella óbreyttar.
Dómarar þessir skulu vera orðnir 18 ára og hafa lokið dómaraprófi á vegum KKÍ og vera samþykktir af dómaranefnd KKÍ. Dómarar þessir verða jafnframt að vera reiðubúnir til þess að dæma fyrir KKÍ."

Nú þegar hafa a.m.k. þrjú fyrirhuguð dómaranámskeið fallið niður þetta haustið vegna ónógrar þátttöku, víðsvegar um land. Eitt þeirra var fyrirhugað að halda í Kópavogi, en á það námskeið barst ekki ein einasta skráning.

Því skorum við nú á öll félög, sérstaklega þau sem eru á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, að leita uppi fólk innan sinna raða sem tilbúið er að dæma leiki fyrir KKÍ og senda það á dómaranámskeið sem fyrirhugað er að halda í janúar næstkomandi. Staðan eins og hún er núna er ekki viðunandi, hvorki fyrir félögin né þá fáu dómara sem eru starfandi í dag.

f.h. dómaranefndar KKÍ
Bjarni Gaukur Þórmundsson
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
A-landslið karla stillir sér upp fyrir leik í æfingaferð í Ungverjalandi sumarið 2004.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið