© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
10.9.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ÍÞRÓTTIR OG KIRKJAN
Eflaust finnst mörgum fyrirsögn pistils þessa fjarstæðukennd og langsótt. Þetta eru stofnanir sem sjaldan eru nefndar í sömu setningu, og samstarf þeirra verið af skornum skammti – e.t.v. of lítið. Íþróttahreyfingin og kirkjan eiga þó meira sameiginlegt en virðist í fyrstu.

Áhuga á stórum íþróttagreinum hefur stundum verið líkt við trúarbrögð. Þar er þó vitaskuld um myndlíkingu að ræða, og höfðar til þeirrar múgsefjunar sem fylgir vilja stuðningsmanna til árangurs. Lengra nær myndlíkingin ekki, en þó mætti rita langar greinar um hagnýtingu múgsefjunar í þágu valds yfir fólki. Því valdi fylgja gjarnan miklir fjármunir, og hygg ég að margir geti leikið sér með áhrifamiklar samlíkingar afreksíþrótta nútímans við sögu kirkjunnar og trúarbragða í gegnum aldirnar. Það er þó ekki til umfjöllunar hér.

Því miður hafa flestar styrjaldir undanfarinna alda snúist um trúarbrögð og vandamál við samruna mismunandi trúarbragða í sama þjóðfélagi. Mismunandi trú hefur sundrað fólki, jafnvel vinveittum nágrönnum eins og nýleg dæmi frá fyrrum ríkjum Júgóslavíu gerðu okkur svo áþreifanlega vör við. Íþróttir á hinn bóginn hafa verið eitt af þeim fáu öflum í heiminum sem hafa ávallt fremur sameinað en sundrað – þrátt fyrir styrjaldir og deilur þá hafa þjóðir áfram átt samstarf á sviði íþrótta. Hafa íþróttir án efa stuðlað meira að friði í heiminum en nokkuð annað einstakt afl.

Íþróttahreyfingin og kirkjan byggja hinsvegar sameiginlega á gildum hins góða, trú á mannlegt eðli og sterkri réttlætiskennd. Sameiginlega vinna þessar stofnanir að því að útrýma kynþáttafordómum og boða umburðarlyndi og virðingu gagnvart samherjum jafnt sem andstæðingum. Þegar harm ber að garði standa menn saman, og bæði íþróttahreyfingin og kirkjan eru skjól og huggun fyrir þegna sína. Báðar stofnanirnar bera mikla ábyrgð á uppeldi ungdómsins sem erfa skal landið og rekast hagsmunir íþróttahreyfingarinnar og kirkjunnar síður en svo á varðandi þau markmið.

Báðar stofnanir reka sína „leikvelli“ samhliða aðstöðu fyrir félagsstarf. Báðar stofnanir byggja félagsstarfið á sjálfboðaliðum og frjálsum fjárframlögum að stóru leyti. Munurinn að þessu leyti er þó fólginn í því að kirkjurnar hafa fasta tekjupósta í formi sóknargjalda frá hinu opinbera á meðan íþróttahreyfingin þarf að afla fjár til reksturs. Munurinn er ennfremur fólginn í því að kirkjan hefur á sínum snærum launaða “þjálfara” á kostnað hins opinbera – presta – til þess að stýra starfinu. Ekki ber að misskilja framangreindar líkingar eða leggja út af þeim með röngum hætti.

Það er síður en svo ætlunin hér að setja út á rekstur ríkisvaldsins á þjóðkirkjunni, og enn síður er ætlunin hér að blandast inn í umræður um aðskilnað ríkis og kirkju eða uppgjör íslensku þjóðkirkjunnar við önnur trúarbrögð. Á hinn bóginn er athyglisvert að velta fyrir sér árangri þessara stofnana gagnvart ungdómi landsins miðað við þessar ólíku fjárhagsforsendur.

Slíkt á e.t.v. rætur sínar að rekja til sögulegrar hefðar og hæfni til aðlögunar – en líklega hefur íþróttahreyfingin aðlagað sig betur að nútíma samfélagi en kirkjan, sem byggir gildi sín á aldagömlum hefðum sem ekki verður breytt svo auðveldlega. Frá þessu eru auðvitað ánægjulegar undantekningar – og má sem dæmi nefna starf ýmissa yngri presta landsins sem náð hafa vel til æskunnar.

Pistli þessum er fremur ætlað að vekja lesendur til umhugsunar annarsvegar um þá aðstöðu sem íþróttahreyfingin væri í ef hún nyti sóknargjalda frá hinu opinbera fyrir hvern þátttakanda í starfinu – og hinsvegar er pistli þessum ætlað að opna umræðu um það hvernig íþróttahreyfingin getur aukið samstarf sitt við kirkjuna og trúarbrögð almennt.

Ég legg til að menn hugleiði og ræði aukið samstarf íþrótta og kirkjunnar.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Leikmann A-landsliðs karla og kvenna stilla sér upp í myndatöku.  Aftari röð f.v.; Brenton Birmingham, Jón Arnór Stefánsson og Logi Gunnarsson. Fremri röð f.v.: Birna Valgarðsdóttir og Helena Sverrisdóttir.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið