© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
           
18.7.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ATB. HJÁ FIBA – 6. HLUTI-Barátta um sjálfstæði atv.mannadeilda
Undanfarnar vikur hefur undirritaður reifað þróun atburðarrásar hjá FIBA í Evrópu, og hefur verið fjallað um stjórnskipulag, mótahald og þróun sem leiddi til stofnunar sérstaks Evrópusambands í körfuknattleik. Eftirfarandi pistill telst hinn síðasti í þessari röð – og fjallar um baráttu um sjálfstæðar atvinnumannadeildir í Evrópu.

Í upphafi árs 2000 tilkynnti Borislav Stankovic framkvæmdastjóri FIBA um að gerður hafi verið stærsti sjónvarpssamningur í sögu FIBA um Euro League, sem fól í sér 20 milljóna dollara árlega greiðslu næstu 5 árin. Samningsaðilinn var alþjóðlega umboðsfyrirtækið ISL (“International Sport and Leisure”).

Á ársþingi FIBA í Antalya í Tyrklandi vorið 2000 tilkynnti stjórn FIBA um skiptingu fjárins, þannig að félagsliðin fengju rúmlega 90% til að skipta sín á milli í hlutföllum eftir árangri, en 9-10% færu til FIBA, sem jafnframt myndi annast alla framkvæmd við mótahaldið s.s. varðandi dómgæslu og tæknimálefni, markaðssetningu og skipulagningu. Þótti ýmsum þingfulltrúum vel boðið fyrir þátttökuliðin.

Á sama tíma kynnti kynningar- og fjölmiðladeild FIBA nýtt nafn, logo og ímynd Evrópudeildarinnar, sem nú skyldi heita Supro League. Var stofnað sérstakt fyrirtæki til markaðssetningar deildarinnar og sjálfstæði skrifstofu deildarinnar varð að veruleika – sérstök heimasíða sett á laggirnar o.s.frv.

Segja má að tvennt hafi gerst sem breytti þessari mynd verulega. Í fyrsta lagi þá unnu fyrirsvarsmenn ULEB að því bak við tjöldin að stofna sína eigin sjálfstæðu atvinnumannadeild, og var það gert á grundvelli þess að gerður hafi verið samningur um fjármögnun við spænska fjölmiðlarisann Telefonica. Í öðru lagi gerðist það að samningsaðili FIBA, fjölmiðlafyrirtækið ISL, varð gjaldþrota (hefur þetta t.a.m. einnig haft veruleg áhrif á knattspyrnuna þar sem FIFA tapaði gríðarlegum fjármunum á gjaldþroti ISL).

ULEB hafði á þessu stigi tekist að gera bindandi samninga við marga af stærstu klúbbum álfunnar, fyrst með spænsku risunum Barcelona og Real Madrid, sem í senn tryggir félögunum meiri fjármuni en FIBA hefur getað boðið þeim, en einnig þá er félögunum tryggð þátttaka í deildinni án tillits til árangurs – en í Supro League deild FIBA þurfa félögin að ná tilteknum árangri til þess að fá aðgang í deildina. Með slíkri tryggingu gátu ULEB liðin bæði gert stærri fjármögnunarsamninga hvert fyrir sig, en auk þess fengið til sín betri leikmenn, sem þar með væru tryggir með að leika næstu árin í atvinnumannadeild á borð við Euro League ULEB.

Öllum má ljóst vera að vegna þessara breytinga varð staða FIBA erfið og enn verri samningsstaða gagnvart ULEB. Hugmyndir komu fram um að mæta þessu með fullri hörku s.s. að banna leikmönnum, þjálfurum, dómurum o.fl. aðilum sem koma að félögum innan ULEB að taka þátt í nokkrum öðrum viðburðum á vegum FIBA, hvort heldur um væri að ræða landskeppni eða alþjóðlegir viðburðir. Slíkt yrði án efa mjög áhrifaríkt (og studdi Ísland t.a.m. slíkar tillögur) en þegar var ljóst að slíkt hefði ekki nægan stuðning þar sem menn voru hræddir um að viðkomandi aðilum stæði á sama, og þá væri tilvist landskeppna og alþjóðlegra móta FIBA í verulegri hættu einnig.

Á ársþinginu í Antalya í Tyrklandi í maí 2000 kom þessi ágreiningur í fyrsta skipti upp á yfirborðið. Þingfulltrúar vissu lítið sem ekkert um málið þegar fulltrúar Grikkja báru upp harða fyrirspurn um málið og gengu eftir upplýsingum af hörku frá hinum spænska fulltrúa ULEB á fundinum. Var fyrirspurn Grikkjanna grundvölluð á því að ULEB hafði haft samband við stærstu félagsliðin í Grikklandi algerlega án nokkurs samráðs við gríska körfuknattleikssambandið. Segja má að þar með hafi boltanum verið rúllað af stað. Hér að framan var minnst á að þegar hafði verið búið að leggja talsverða fjármuni af hálfu FIBA í að breyta nafni og ímynd hinnar nýju Supro League deildar – en ekki lá fyrir á þeim tíma gjaldþrot ISL.

Fáir gera sér e.t.v. grein fyrir þeirri ógn sem stafar af því að aðilar utan skipulagðrar íþróttahreyfingar stofni sérstaka atvinnumannadeild, en með þessu skapast hætta á því að allt uppbyggingar- og unglingastarf leggist af á tilteknum árum – hæfustu leikmennirnir leiti þangað sem peningarnir eru mestir. Fjárhagslegur hagnaður sem skapast kann af t.d. sjónvarpsréttarsamningum skili sér ekki til uppbyggingar á íþróttinni, heldur gangi allur hagnaður til fjárfesta sem hafi ekkert annað markmið með þátttöku sinni en fjárhagslegan hagnað. Þegar kerfið svo skapi þeim ekki lengur arð þá hverfi þeir á brott, en íþróttahreyfingin sitji eftir í varanlegum sárum.

Einnig hafa ýmsir haldið því fram að hér sé um að ræða nokkurskonar prófunarferli fyrir knattspyrnuna, enda gætu menn borið saman ástandið ef stærstu félagslið Evrópu í knattspyrnu myndu segja skilið við FIFA og UEFA og stofna sína eigin sjálfstæðu deild, félög t.d. á borð við Manchester United, Real Madrid, Barcelona, Bayern Munchen o.s.frv. Bent hefur verið á í þessu sambandi að þau félög sem standa í innsta hring ULEB séu einmitt Real Madrid og Barcelona, félög sem hafa innan sinna vébanda öflug atvinnulið í bæði knattspyrnu og körfuknattleik.

Af þessum sökum er fylgst vel með þróun mála innan annarra sérsambanda, og stóð FIBA m.a. fyrir ráðstefnu um málið s.l. vetur þar sem þátt tóku jafnframt fulltrúar Knattspyrnusambands Evrópu, íshokkís og blaks. Mál þetta hefur ennfremur verið talið svo alvarlegt að það hefur verið tekið upp á ráðherrafundi Evrópusambandsins, sem lýst hefur yfir stuðningi við íþróttahreyfinguna en óljóst er til hvaða aðgerða pólitískir aðilar geti gripið.

Hér í fyrri pistlum hefur verið rætt hversu mikil áhrif þetta ferli hefur haft á stjórn og samskipti innan Evrópudeildar FIBA á undanförnum misserum, en ásakanir hafa gengið á víxl hverra erinda einstakir ráðamenn hafa gengið og hverra hagsmuna þeir hafi verið að gæta – og eiga þær ásakanir tvímælalaust stærstan þátt í því að sérsamböndin sjálf “tóku völdin” á ársþinginu í Bad Kreuznach. Alvarlegar ásakanir komu fram frá fulltrúum þeirra félagsliða sem héldu tryggð sinni við FIBA þrátt fyrir ULEB – og var sá trúnaðarbrestur m.a. einn af þeim þáttum sem orsakaði það að hin einhliða samningsdrög FIBA við ULEB sem lögð voru fram á ársþinginu í Bad Kreuznach voru felld.

Deilur og ósamstaða innan sambandsins hafa fyrst og fremst leitt til þess að valkostur félagsliðanna innan FIBA – Supro League – hefur lagst af, og þau félagslið sem þar höfðu haldið tryggð nýttu sér tækifæri inn í stækkaða Euro League. Gert hefur verið samkomulag milli FIBA og ULEB, en samningsaðstaða FIBA hefur verið erfið þar sem ULEB hefur þegar haft yfir að ráða fjármögnun í gegnum Telfonica samninginn.

Ýmsar blikur eru þó á lofti, bæði að því er varðar samning ULEB við Telefonica, og eins er ljóst að ULEB er algerlega nauðsynlegt að ná sátt við FIBA svo unnt verði að tryggja áframhaldandi fjármögnun keppninnar og nauðsynlega viðurkenningu stjórnvalda – sem fram að þessu hafa stutt FIBA. Verður fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála næstu misseri, en mikilvægast er að stjórnun FIBA sé á valdi sérsambandanna en ekki félagsliðanna sjálfra – líta þarf til íþróttalegrar uppbyggingar en ekki skammtímagróðasjónarmiða.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Dómari í leik Íslands og Slóveníu prufar leikboltann áður flautað er til leiks  hjá A-landsliði kvenna í Evrópukeppninni 2008 að Ásvöllum. Gestirnir höfðu sigur 69:94 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 30:46
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið