© 2000-2020 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
 
19.6.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ATBURÐAR. HJÁ FIBA – 5. HLUTI-Stofnun sjálfstæðs Evrópusambands
Hér í fyrri pistlum undanfarnar vikur hefur með yfirboðskenndum hætti verið fjallað um breytingar á stjórnskipulagi og móthaldi FIBA í Evrópu. Í þessum pistli er ætlunin að fjalla nánar um það ferli sem leitt hefur til stofnunar sérstaks sjálfstæðs Evrópusambands innan FIBA í körfuknattleik.

Á vormánuðum 2001 hittust fulltrúar nokkurra öflugustu sérsambanda innan FIBA í Evrópu og ályktuðu um nauðsyn á stofnun sérstaks Evrópusambands FIBA. Í kjölfar þessa fundar öfluðu þjóðirnar stuðnings fjölmargra annarra sambanda, og höfðu fyrir ársþingið í Bad Kreuznach í Þýskalandi í maí 2001 þrjátíu þjóðir undirritað stuðning við stofnun slíks sambands.

Meginforsenda stofnunar sjálfstæðs Evrópusambands er sú að uppruni fjármagns FIBA er að stóru leyti innan Evrópu, en ráðstöfun fjármagnsins er í hróplegu ósamræmi við það, og fer stór hluti af tekjum FIBA til uppbyggingar körfuknattleiks í öðrum álfusamböndum, s.s. Afríku. Þessu misræmi hafa Evrópuþjóðir viljað breyta með stofnun sjálfstæðs álfusambands.

Önnur ástæða sem nefnd hefur verið sem hvati fyrir stofnun sjálfstæðs sambands hefur ennfremur verið nauðsynleg og tímabær endurskoðun á úreltu (og sumir segja spilltu) stjórnkerfi, þar sem upplýsingastreymi og gagnsæi kerfisins hefur sannarlega verið ábótavant (hvort sem fótur er fyrir fullyrðingum um að menn hafi nýtt sér þá ágalla til spillingar eður ei).

Samhliða þessu hafa ýmsir talið nauðsynlegt að “hreinsa til” í því mannvali sem “kjörið” hefur verið til trúnaðarstarfa, en hefð hefur verið fyrir því að menn hafa haldið sínum stöðum nokkuð óáreittir, einkum hafi þeir verið forystu sambandsins þóknanlegir. Afleiðingin var sú að skortur var á innri gagnrýni og aðhaldi innan kerfisins, og forystumenn í stjórn og nefndum áttu það sameiginlegt í fyrsta lagi að koma frá stórum þjóðum, í öðru lagi að hafa verið “hlýðnir” við fyrirmæli forystunnar, og í þriðja lagi þá voru þessir aðilar orðnir fremur gamlir eftir áratuga setu við völd á grundvelli framangreindra forsendna.

Þáverandi forysta Evrópuþings FIBA var andsnúin stofnun sjálfstæðs álfusambands, m.a. á grundvelli þess að með því að FIBA í Evrópu hafi ekki haft sjálfstæði hafi grundvöllur skapast til þess að höfuðstöðvar heimssambandsins hafi verið í Evrópu, og þannig fái Evrópa talsvert til baka m.a. í formi þess að skrifstofuhald og framkvæmdastjórn sé hluti af bæði heimssambandinu og Evrópu. Auk þess átti Evrópa fastafulltrúa í aðalstjórn FIBA með framkvæmdastjóra, féhirði, forseta tækninefndar og heimssambands þjálfara. Þetta kunni að breytast verði stofnað sérstakt Evrópusamband, auk þess að opna þurfi sjálfstæða og óháða skrifstofu með tilheyrandi kostnaði. Eru þetta vissulega rök sem eigi er unnt að líta algerlega framhjá.

Á ársþingi Evrópudeildar FIBA í maí 2001, sem haldið var í Bad Kreuznach í Þýskalandi, lögðu þjóðirnar 7 fram tillögu sína að stofnun sérstaks Evrópusambands. Tillagan hafði ekki borist skrifstofu FIBA innan tilskilins frests, og urðu því miklar deilur í upphafi þingsins um staðsetningu tillögunnar innan dagskrár þingsins. Forseti Evrópudeildarinnar ákvað að þetta yrði tekið til umfjöllunar undir liðnum “Önnur mál” við lok þingsins, og skapaði þetta verulegan hita í upphafi þingsins þegar undir dagskrárliðnum “Samþykkt dagskrár þingsins”, einkum þar sem ljóst var að meirihluti þjóða á þinginu hafði undirritað stuðning við tillöguna.

Ástæða þess að forysta Evrópuþings FIBA barðist svo harkalega gegn því að þessi dagskrárliður yrði tekinn til umfjöllunar fyrr á þinginu tengist harðvítugum deilum um atvinnumannadeildir FIBA (sem fjallað verður um hér síðar), en það var mat stjórnar að þær þjóðir sem standa að tillögunni um stofnun sjálfstæðs sambands hafi verið að “kúga” FIBA til afstöðu sinnar í þeim efnum með tillögunni að stofnun hins sjálfstæða Evrópusambands. Réttilega komu fram ábendingar um það “hver væri að kúga hvern” þar sem ljóst væri að ríflegur meirihluti þingsins hafði þegar lýst skriflega stuðningi sínum við tillögurnar. Ennfremur var bent á að með þessari afgreiðslu mála væri stjórn Evrópuþings FIBA að tryggja það að tillögur þess varðandi atvinnumannadeildirnar yrðu felldar með hliðsjón af sama meirihluta.

Niðurstaða þingsins varð enda sú að tillögur stjórnarinnar voru felldar, og í kjölfarið tók við tveggja klukkustunda “neyðarfundur” stjórnar, sem lyktaði með því að forsetinn – Frakkinn Yvan Mainini – og u.þ.b. helmingur stjórnarinnar sagði af sér. Þurfti því að boða til aukaþings í höfuðstöðvum sambandsins í München nokkrum vikum síðar, þar sem nýr forseti – Grikkinn George Vassilakopoulos – var kjörinn ásamt nýrri stjórn til bráðabirgða fram að næsta reglulega kosningaþingi vorið 2002.

Haldnir voru vinnuhópar um stofnun hins nýja álfusambands, og talsverð barátta við framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra FIBA, sem enn voru andvígir stofnun slíks sambands. Tók Ísland m.a. þátt í þeim fundum í hópi nokkurra stærstu þjóða Evrópu. Niðurstaðan varð sú að samin voru lög hins nýja sambands og þau lögð fyrir miðstjórn heimssambands FIBA í nóvember – þar sem þau voru samþykkt. Fyrir lá því að þingið í Oostende í maí s.l. varð að stofnþingi hins nýja og sjálfstæða Evrópusambands FIBA í körfuknattleik. Lýkur því ferli formlega með staðfestingu heimsþingsins í Indianapolis í ágúst í sumar.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Verðlaunahafar á lokahófi KKÍ 1988, í gamla Broadway í Mjódd.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið