© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
13.6.2002 | Ólafur Rafnsson
Leiðarinn - ATBURÐAR. HJÁ FIBA – 4. HLUTI - Ferli mótahalds A-landsliða
Í síðustu viku var fjallað um ferli mótahalds félagsliða innan Evrópu, en hér er ætlunin að fjalla með sambærilegum hætti um þróun mótahalds landsliða. Einkum er hér verið að vísa til mótahalds A-landsliða karla. Meðal þeirra 50 þjóða Evrópu sem eru aðilar innan FIBA skiptist mótahald á alþjóðavettvangi í nokkra sjálfstæða styrkleikaflokka.

Fyrst er að nefna úrslitakeppni EM (“Finals”), en sigurvegarar þar fá titilinn Evrópumeistarar landsliða það ár. Keppnin hefur fram að þessu verið haldin á tveggja ára fresti, að undangenginni forkeppni (“Qualification Round”) og undanúrslitakeppni (“Semi-Final Round”). Úrslitakeppni var haldin í Frakklandi 1999, en síðasta keppni var haldin í Tyrklandi s.l. haust, og þar næst verður hún haldin í Svíþjóð 2003.

Í úrslitakeppni EM hafa tekið þátt 16 sterkustu landslið Evrópu. Gestgjafarnir (síðast Tyrkir, næst Svíar) og ríkjandi Evrópumeistarar eiga sjálfkrafa þátttökurétt. Í síðustu keppni fengu jafnframt 6 næstu þjóðir frá síðustu keppni sjálfkrafa þátttökurétt (þetta var breyting frá keppninni þar á undan, og var aftur verið breytt til baka m.a. vegna þess að þessar þjóðir hafa fengið fá verkefni á milli úrslitakeppnanna). Næst munu því einungis gestgjafarnir og Evrópumeistararnir fá sjálfkrafa þátttökurétt.

Næstu 14 þjóðir hafa raðast eftir árangri í undanúrslitakeppni FIBA (“Semi-Final Round”), en það er einmitt sú keppni sem Íslenska A-landsliðið tryggði sér með eftirminnilegum hætti þátttökurétt í tvisvar í röð á árunum 1997-2001, en tókst ekki að endurtaka þriðja sinni s.l. haust. Í þeirri keppni taka nú þátt 30 þjóðir

Dregið hefur verið í riðla undanúrslitakeppninnar eftir styrkleika, þannig að liðin innan hvers riðils eru styrkleikaskipt (eðli málsins samkvæmt er Ísland enn í neðsta flokki, og fær því einungis sterkari þjóðir til að leika gegn – eitt af lykilmarkmiðum afreksstefnu KKÍ er að komast upp um flokk). Í efsta flokki eru þau ríki sem áttu sæti í síðustu úrslitakeppni, í næsta flokki ríki sem tryggðu sér áframhaldandi veru beint í undanúrslitakeppni (þ.e. án þess að taka þátt í forkeppni), í næsta flokki þau félög sem tryggðu sér þátttöku úr forkeppninni (í þeirri röð sem þau náðu sæti þar) og að lokum tvö lið úr s.k. “Preliminary Round”, sem fjallað verður um síðar.

Forkeppni undanúrslitakeppninnar hefur verið opin öllum þeim ríkjum sem ekki höfðu þegar tryggt sér þátttöku í úrslitum eða undanúrslitum. Áður fyrr var keppni þessi leikin í fjölliðamótum (“turneringum”), en síðast var það fyrirkomulag ákveðið að leika í landfræðilega skiptum fjögurra liða riðlum, þar sem leikið var heima og heiman, þar sem tvö efstu liðin komust í undanúrslitakeppnina. Ísland lék s.l. haust í riðli með Írum, Svisslendingum og Finnum – og tókst ekki að komast áfram.

Hið s.k. “Preliminary Round” var n.k. “skipulagslegur bastarður”, en hann var fólginn í því annarsvegar að jafna stöðu riðlakeppni forkeppninnar og hinsvegar að fylla upp tvö laus sæti í undanúrslitakeppnina. Keppnin hefur farið fram í fjölliðamótsformi árið eftir forkeppni, sem einn sex liða riðill. Það sem er sérstakt við þessa keppni er að liðin tvö sem tryggðu sér sæti í undanúrslitakeppninni voru að tryggja sér sæti í keppni sem hófst u.þ.b. einu og hálfu ári síðar – og voru þar með í reynd fyrstu liðin til þess að tryggja sér sæti í keppninni þótt neðst væru í styrkleika.

Ísland tryggði sér fyrst sæti í undanúrslitakeppni FIBA í gegnum “Preliminary Round”. Til þess að lýsa fyrirkomulagi “Preliminary Round” skal það ferli rakið. Ísland tók þátt í forkeppninni í riðli í Lugano í Sviss 1995. Þar náði Ísland ekki að tryggja sér sæti meðal þriggja efstu þjóða, en hafnaði í fjórða sæti, sem þýddi þátttökurétt í “Preliminary Round” sem fór svo fram á Íslandi 1996. Þar tryggði Ísland sér 2. sæti (m.a. eftir eftirminnilegan sigur á Írum), og komst því áfram ásamt Dönum í keppnina sem hófst haustið 1997 (og hét EM 1999, en lokaúrslitin fóru fram í Frakklandi sumarið 1999). Eins og menn sjá er þessi leið löng og nokkuð flókin.

Árið 1999 tryggði Ísland sér hinsvegar sæti beint inn í undanúrslitakeppnina úr forkeppni með glæsilegum hætti eftir riðil sem Ísland tók þátt í í Spisska Nova Ves í Slóvakíu. Liðin sem þá komust inn í gegnum “Preliminary Round” 1998 voru Finnland og Austurríki, en einu liðin sem hafa tryggt sér þátttökurétt í undanúrslitakeppninni vegna EM 2003 (sem fram fer í Svíþjóð eins og fyrr segir) eru Danmörk og Kýpur, en þær þjóðir komust áfram úr “Preliminary Round” á s.l. ári, árið 2000. Flókið, ekki satt?

Sú breyting hefur hinsvegar nú verið gerð skv. tillögu Íslands nú í vetur til nefndar FIBA um Evrópukeppnir að fella út forkeppni Evrópumótsins, og því geta allar þjóðir tekið beint þátt í undanúrslitakeppninni – og mun Ísland að óbreyttu gera það fyrst haustið 2003. Þetta er afar mikilvægt fyrir Ísland til þess að fá leiki við sterkari þjóðir heima og heiman, og geta haldið áfram þeirri uppbyggingu sem unnið hefur verið eftir innan KKÍ undanfarinn áratug eða svo.

Að lokum má nefna s.k. “Promotion Cup” FIBA, en það er eins og nafnið gefur til kynna ætlað að þróa körfuknattleik hjá minnstu og/eða veikustu þjóðum álfunnar. Þau ríki sem þar eiga ætíð fastan þátttökurétt eru fyrst og fremst borgríkin fjögur, Andorra, San Marínó, Mónakó og Gíbraltar. Hafa ber í huga að í þessari keppni eru reglur um hlutgengi frjálslegri en í Evrópukeppni, og oft á tíðum fáir ríkisborgarar þessara þjóða sem skipa landsliðin. Fyrir þessu eru flóknar ástæður sem erfitt er að rekja hér, en unnt væri að hafa sérstakan greinaflokk um þróun “Promotion Cup” og þátttöku Íslands í því í gegnum tíðina. Slíkt bíður betri tíma.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Samhliða myndatökum á leikmönnum yngrilandsliða fyrir NM eru oft teknar aukamyndir af hverjum leikmanni. Ægir Þór Steinarsson sigraði keppnina í ár fyrir bestu myndina.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið