© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
11.4.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Veður
Hversu oft höfum við körfuknattleiksfólk ekki fagnað því í íslensku vetrarveðri að geta leikið okkar kappleiki í upphituðu íþróttahúsi? Hversu oft höfum við ekki með samsvarandi hætti litið samúðaraugum til t.d. knattspyrnunnar sem - vegna ytri veður- og gróðurskilyrða - getur ekki hafið keppni undir eðlilegum kringumstæðum fyrr en seint á vorin (burtséð frá nýtilkomnum knattspyrnuhöllum) eða leika bikarúrslitaleik í slagviðri við frostmark seint að hausti?

Auðvitað má með sanni segja að þetta geti líka snúist við, þ.e. varla er ánægjulegri leið til að njóta íþróttakappleiks en utandyra í sól og blíðu.

En þessar hugleiðingar lúta að áhrifum veðurfars á Íslandi á keppni í íþróttum. Ef til vill vöknuðu þessar hugleiðingar við þær kaldhæðnislegu aðstæður sem sköpuðust nýverið fyrir keppni á skíðalandsmóti Íslands. Þótt vissulega hafi mótið farið fram með glæsibrag þá er sú staðreynd að okkar litla eyja við heimskautsbaug sem kennd er við ís og kulda skuli ekki geta treyst á nægilegan snjó eða kulda til að halda sómasamlegt skíðamót - án þess að dæla gervisnjó eða flytja til snjóskafla með stórvirkum vinnuvélum - er nokkuð sem ég hef átt erfitt með að útskýra fyrir félögum mínum erlendis, en raunar haft gaman af.

Þegar ég hef mætt á fundi hjá Evrópska körfuknattleikssambandinu í Munchen - þar sem vetrarhörkur og frost hafa verið mikil - byrja fundir ávallt á því að spyrja hvernig ástandið sé þá uppi á Íslandi. Það hljóti að vera skelfilegt fyrst svo kalt er í miðri Evrópu. Auðvitað brosa menn með vantrúnaði að því þegar ég sagðist hafa tekið hring á golfvellinum í síðustu viku (þetta var í febrúar) og snjó höfum við vart séð á höfuðborgarsvæðinu í þrjú ár svo heitið geti. Skíðalandsliðið þurfi að æfa í Noregi á veturna, og höfuðborgarbúar þurfi að aka nokkuð hundruð kílómetra til að komast á skíði. Þessu er illa trúað í heimalandi sjálfs baróns von Munchausen.

Veður hefur nefnilega meiri áhrif á íþróttaiðkun og keppni hér á landi en virðist í fyrstu. Golfmót hafa verið slegin af vegna roks og rigningar (nú eða þrumuveðurs í henni Ameríku) á sama tíma og siglingakeppnir byggja á þveröfugum veðurskilyrðum. Ég er ansi hræddur um að Birgir Ari formaður Siglingasambandsins yrði viðskotaillur þann daginn sem sól og logn einkenndi upphaf keppnisdags. Það kann því að vera mótsagnakennt að skipuleggja golfmót og siglingakeppni sama daginn. Kannski gott að hafa kappróðrarmót í bakhöndinni.

En það er ekki með öllu sannleikanum samkvæmt að veðurfar sé óviðkomandi keppni í körfuknattleik. Við búum nefnilega við það að okkar yndislega land getur verið erfitt yfirferðar, og veður getur hamlað því að kapplið komist til keppnisstaðar. Þá reynir oft á frestun leikja, sem er stundum svekkjandi þegar heimaliðið er með allt til reiðu í fína upphitaða keppnishúsinu. Við því er oft lítið að gera.

Í því sambandi er mér minnistæður keppnisdagur fyrir áratug eða svo. Mótanefnd KKÍ hafði þá frestað leikjum milli liða af suðurnesjum og höfuðborgarsvæði vegna veðurs og færðar. Reykjanesbrautin gersamlega ófær. Eða hvað? Jú, Tindastólsmenn komu nefnilega akandi í makindum sínum frá Sauðárkróki til Grindavíkur og léku þar eins og ekkert væri. Þetta endurspeglar e.t.v. best mismunandi veðurþröskuld harðsækinna landsbyggðarforka gagnvart okkur teprunum hér á suðvesturhorninu.

Ferðalög til keppnisstaðar eru því háð veðri í öllum hefðbundnum “inniíþróttum”, en það eru fyrst og fremst hinar s.k. “útiíþróttir” sem eru háðar veðri varðandi keppnina sjálfa. Stundum getur maður vart annað en dáðst að þrautseigjunni undir slíkum kringumstæðum - enda oft mikil skipulagning sem fer forgörðum við frestun. Mikið þyrfti t.d. að ganga á áður en landsmóti hestamanna eða Reykjavíkurmaraþoni yrði frestað vegna veðurs. Þarna er kannski skýringin komin á dugnaði Tindastólsmanna - þeir hafa þrautseigju skagfirskra hestamanna.

Ég tek ofan hattinn fyrir slíku...ef hann er þá ekki þegar fokinn af.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.





Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Einbeitingin skín úr andliti þessa efnilega ÍR-ings á Eymundssonmóti KR
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið