S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
22.3.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Þjóðsöngurinn
Virðing við eigin þjóðerni jafnt sem andstæðinga er mikilvægt. Eitt af þeim einkennum sem telst órjúfanlegt því ferli er látlaus - en þó kraftmikil - athöfn við upphaf alþjóðlegrar íþróttakeppni sem felst í hyllingu þjóðfána og þjóðsöngs hvors aðila um sig. Þetta er jafnan áhrifamikil stund, og ég hygg að þótt menn hafi upplifað slíkt sem áhorfendur, þá sé það stolt sem býr í brjósti þeirra íþróttamanna sem leika með þjóðfána sinn á brjóstinu nokkuð sem erfitt er að útskýra fyrir öðrum en þeim sem hafa staðið í þeim sporum. Þjóðsöngur og fánahylling þurfa vissulega ekki að vera bundin við alþjóðlega kappleiki. Þótt gæta verði þess að ofnota ekki slíkar athafnir þá geta þær verið prýðilega viðeigandi á stórum stundum hverrar íþróttagreinar. Mér þótti einstaklega ánægjulegt nýlega að vera viðstaddur keppni dóttur minnar í 8. flokki kvenna í körfuknattleik í DHL höll þeirra KR-inga þegar bikarúrslitaleikur fór fram í þeim aldursflokki. Umgjörð KR-inga var til fyrirmyndar í alla staði, og endurspeglaði vel þá virðingu sem yngri leikmönnum skyldi sýnd með þeirri framkvæmd - enginn greinarmunur gerður á úrslitaleikjum í meistaraflokki. Umgjörð, leikskrár, dómgæsla og framkvæmd leiks nákvæmlega eins. Meira að segja alþjóðlegir FIBA dómarar á vettvangi. Ég upplifði við þetta tækifæri eitt uppeldislegt gildi íþróttahreyfingarinnar til viðbótar. Að þessu sinni fólst það í skilaboðum um gildi fánahyllingar og þjóðsöngs. Þjóðarstoltið. Leikmenn stóðu stoltir á vellinum eftir vandaða liðskynningu, þegar þjóðsöngurinn var leikinn - og já, vel að merkja með söng, sem er mun glæsilegra en við höfum haft í landsleikjum - en hið eina sem okkur hafði láðst að gera var að “kenna” ungviðinu okkar hvernig átti að hegða sér þegar þjóðsöngurinn var leikinn - standa teinrétt og snúa sér að íslenska fánanum. Eftir smá pískur náðist að koma þeim skilaboðum til þeirra og allt fór fram eins og best varð á kosið. Eftir stendur mikilvæg lexía, og vonandi eiga sem flest þeirra eftir að bera íslenska fánann á brjóstinu í framtíðinni og vinna afrek á alþjóðavettvangi fyrir Íslands hönd. Önnur umræða er svo útfærslan á þjóðsöngnum sjálfum. Ræða má það sérstaklega í pistli, en undirritaður hefur upplifað öfga frá þeim fullkomna flutningi er felst í kröftugum söng á staðnum - jafnvel með hluta sinfóníuhljómsveitar að baki - til þess að heyra stytta, hraða og rispaða útgáfu í bjöguðum hljómflutningstækjum, sem ristir ör í þjóðarvitundina. Út í umræðu um nýjan þjóðsöng ætla ég ekki að hætta mér á þessum vettvangi. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |