© 2000-2023 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
       
22.3.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Þjóðsöngurinn
Stundum er sagt að fátt sameini íslensku þjóðina jafn mikið eins og áhorf á afrek íþróttamanna okkar í alþjóðlegri keppni. Raunar halda margir því fram að ekkert einstakt afl í heiminum sé vænlegra til að sameina þjóðir heimsins fremur en hin alþjóðlega íþróttahreyfing. Hvar sem styrjaldir og náttúruhamfarir bera niður hefur íþróttahreyfingin verið það afl sem hefur þrátt fyrir slíkar aðstæður náð að halda sínu starfi óskertu - og þar með lagt sitt á vogarskálar til friðar og samstarf meðal þjóða heims. Jafnvel þjóðir sem eiga í stríði, þjóðir sem slitið hafa stjórnmálasambandi, þjóðir sem hafa andstæða menningu - geta ávallt tekið þátt í alþjóðlegri keppni undir formerkjum íþróttahreyfingarinnar.

Virðing við eigin þjóðerni jafnt sem andstæðinga er mikilvægt. Eitt af þeim einkennum sem telst órjúfanlegt því ferli er látlaus - en þó kraftmikil - athöfn við upphaf alþjóðlegrar íþróttakeppni sem felst í hyllingu þjóðfána og þjóðsöngs hvors aðila um sig. Þetta er jafnan áhrifamikil stund, og ég hygg að þótt menn hafi upplifað slíkt sem áhorfendur, þá sé það stolt sem býr í brjósti þeirra íþróttamanna sem leika með þjóðfána sinn á brjóstinu nokkuð sem erfitt er að útskýra fyrir öðrum en þeim sem hafa staðið í þeim sporum.

Þjóðsöngur og fánahylling þurfa vissulega ekki að vera bundin við alþjóðlega kappleiki. Þótt gæta verði þess að ofnota ekki slíkar athafnir þá geta þær verið prýðilega viðeigandi á stórum stundum hverrar íþróttagreinar.

Mér þótti einstaklega ánægjulegt nýlega að vera viðstaddur keppni dóttur minnar í 8. flokki kvenna í körfuknattleik í DHL höll þeirra KR-inga þegar bikarúrslitaleikur fór fram í þeim aldursflokki. Umgjörð KR-inga var til fyrirmyndar í alla staði, og endurspeglaði vel þá virðingu sem yngri leikmönnum skyldi sýnd með þeirri framkvæmd - enginn greinarmunur gerður á úrslitaleikjum í meistaraflokki. Umgjörð, leikskrár, dómgæsla og framkvæmd leiks nákvæmlega eins. Meira að segja alþjóðlegir FIBA dómarar á vettvangi.

Ég upplifði við þetta tækifæri eitt uppeldislegt gildi íþróttahreyfingarinnar til viðbótar. Að þessu sinni fólst það í skilaboðum um gildi fánahyllingar og þjóðsöngs. Þjóðarstoltið. Leikmenn stóðu stoltir á vellinum eftir vandaða liðskynningu, þegar þjóðsöngurinn var leikinn - og já, vel að merkja með söng, sem er mun glæsilegra en við höfum haft í landsleikjum - en hið eina sem okkur hafði láðst að gera var að “kenna” ungviðinu okkar hvernig átti að hegða sér þegar þjóðsöngurinn var leikinn - standa teinrétt og snúa sér að íslenska fánanum.

Eftir smá pískur náðist að koma þeim skilaboðum til þeirra og allt fór fram eins og best varð á kosið. Eftir stendur mikilvæg lexía, og vonandi eiga sem flest þeirra eftir að bera íslenska fánann á brjóstinu í framtíðinni og vinna afrek á alþjóðavettvangi fyrir Íslands hönd.

Önnur umræða er svo útfærslan á þjóðsöngnum sjálfum. Ræða má það sérstaklega í pistli, en undirritaður hefur upplifað öfga frá þeim fullkomna flutningi er felst í kröftugum söng á staðnum - jafnvel með hluta sinfóníuhljómsveitar að baki - til þess að heyra stytta, hraða og rispaða útgáfu í bjöguðum hljómflutningstækjum, sem ristir ör í þjóðarvitundina.

Út í umræðu um nýjan þjóðsöng ætla ég ekki að hætta mér á þessum vettvangi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá ferð A-landsliðs karla til Sarajevo í Bosníu v/þáttöku í undanúrslitakeppni Evrópumótsins árið 1998.  Jón Kr. Gíslason reynir að koma skilaboðum til Teits Örlygssonar, en ekki heyrðist mannsins mál í húsinu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið