S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
1.3.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Samrunar
Innan íþróttahreyfingarinnar hefur hugtakið samruni heyrst nokkuð, þótt af öðrum orsökum sé – nefnilega sem varnarviðbrögðum við fjárhagslegum erfiðleikum einstakra íþróttafélaga og –deilda fremur en sökum taumlausrar útrásar og vaxtar líkt og einkennir samruna viðskiptalífsins. Hér mun ég einkum vísa til umfjöllunar um samruna á vettvangi félagsliða eða -deilda. Ég verð að viðurkenna að stundum hef ég ekki almennilega skilið umræðu um samruna félagsliða innan íþróttahreyfingarinnar – ekki síst þegar hún hefur beinst að því að sameina tvær “gjaldþrota” einingar sem byggja nær allan sinn rekstur á sjálfboðastarfi (við skulum a.m.k. segja einingar með neikvæða eiginfjárstöðu, sem væntanlega er ekki óalgengt innan hreyfingarinnar). Þetta kann að skjóta skökku við í ljósi þeirra markmiða innan íþróttahreyfingarinnar að fjölga einingum – breiða út fagnaðarerindið sem víðast – því fleiri deildir, því fleiri kappleikir og því fleiri iðkendur. Og því meiri telst árangurinn sem umfangið og fjölgunin er meiri. Íþróttaleg markmið samruna nást sjaldnast með samruna rekstrareininga. Samþjöppun bestu íþróttamanna í einstök félög gerist með félagaskiptum, og hefur leikmannamarkaður virkað sjálfstætt að því leyti - hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Ef við tökum smá dæmi um tvær körfuknattleiksdeildir sem hvor um sig hefur 200 iðkendur í t.d. tveimur aðskildum hverfum stórs sveitarfélags – hvor deildin með 10 manna sjálfboðaliðsstjórn og keppnislið í öllum aldursflokkum – hvar liggja þá rekstrarleg samlegðaráhrif við samruna? Í framkvæmd má gera ráð fyrir að ekki þyrfti nema aðra stjórnina, eða a.m.k. ekki fleiri en 10 manns í sameinaðri stjórn. Þar með tapast talsverður mannauður í formi sjálfboðaliða. Það eru ekki samlegðaráhrif að tapa sjálboðaliðum. Í framkvæmd verður rekstrarkostnaður áfram að mestu leyti breytilegur kostnaður m.t.t. fjölda keppnisflokka – þátttökugjöld og dómarakostnaður verður áfram sá sami pr. lið, þjálfunar- og ferðakostnaður óbreyttur að sama skapi. Ákvörðun um að fækka keppnisflokkum um helming á rekstrarlegum forsendum virðist því a.m.k. ekki augljóslega hagkvæm gagnvart markmiðum útbreiðslu og uppbyggingar íþróttagreinarinnar. Vera má að hagkvæmari rekstrarreikningur náist fram - fjárhagslegt tap minnki - en hér verð ég að vísa til fyrri pistla varðandi þann raunveruleika að markmið íþróttahreyfingarinnar er í reynd ekki fjárhagslegur ávinningur. Sparnaður í formi niðurskurðar íþróttastarfsins vinnur í mörgum tilvikum gegn útbreiðslu íþróttarinnar, þótt vissulega geti stundum verið nauðsynlegt að grípa til aðhaldsaðgerða. Það er þó ekki valkostur sem menn taka af fúsum og frjálsum vilja. Öðru máli gegnir um samstarf félaga þar sem e.t.v. er tímabundinn skortur á iðkendum í tilteknum aldursflokki. Við þekkjum prýðileg dæmi um þetta úr okkar hreyfingu – og hefur slíkt í sumum tilvikum komið í veg fyrir brottfall liða. Slíkt hefur KKÍ reynt að styðja eins og kostur er varðandi reglur og hlutgengi. Það er samstarf en ekki samruni (eða sameining). Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |