S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
15.2.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Olnbogabörn
Vitaskuld er notkun þessa líkamshluta – olnbogans – engan veginn nýlunda í átökum flokkaíþrótta, hvorki í körfuknattleik né öðrum íþróttagreinum, og hvorki hérlendis né erlendis. Breytingin hér heima á Fróni kann einkum að vera fólgin í auknum fjölda sjónvarpsupptökuvéla og videovéla á kappleikjum, samhliða meiri meðvitund og faglegri þekkingu stjórnenda aðildarfélaganna – sem virðast á köflum búa yfir jafn mörgum sjálfboðaliðum í lögfræðiráði eins og í unglingaráði viðkomandi félags. Flestir innan körfuknattleikshreyfingarinnar þekkja skoðanir mínar á kærumálum – eða öllu heldur þeim atvikum og forsendum sem að baki þeim búa. Vera kann að meiri hagsmunir leiði til fleiri kærumála og meiri áherslu á þann þátt starfseminnar – og vera kann einfaldlega að meira sé orðið um slík brot en áður. Ég held þó ekki. Ljót og óíþróttamannsleg brot eiga ekki að sjást í kappleik. Vissulega geta komið upp tilvik þar sem menn gleyma sér í hita leiksins, eða jafnvel að um óviljaverk sé að ræða – en ásetningur, sérstaklega fjarri boltanum, er einfaldlega óásættanlegur. Um slíkt verður hreyfingin að senda fyrirbyggjandi skilaboð í formi harðra refsinga. Fyrir nokkrum vikum urðu fjörugar umræður innan körfuknattleikshreyfingarinnar um tiltekin “olnbogaskot”, og gárungarnir fóru meðal annars að reyna að bera saman einstök atvik við refsingar aganefndar – svona eins og hugtakið “olnbogaskot” væri skilgreint ávallt með sama hætti. Menn gætu bara sett orðið “olnbogaskot” í aganefnd eins og hvern annan sjálfssala og fengið út samræmdar niðurstöður. Málið er auðvitað ekki svo einfalt. Ávallt þarf að meta ýmis atriði á borð við það hvort bolti var í leik, hvaða líkur eru á ásetningi höggsins, hvort dómari sá brotið og hvaða skýrslu hann gefur um atvikið, hversu vel brotið sést á myndbandi o.s.frv. Aganefnd vinnur gríðarlega mikið og óeigingjarnt starf – eitt af þessum vanmetnu sjálfboðaliðsstörfum innan hreyfingarinnar, og geta aldrei geta kveðið upp úrskurð án þess að einhver verði óánægður – og í sjálfu sér enginn ánægður heldur. Menn eiga að virða störf þessara aðila og þakka þau, enda eru þetta gjarnan einstaklingar sem eru ekki á hverju strái – þurfa að hafa til að bera jafnvel nauðsynlega menntun eða mikla reynslu. Eflaust myndu margir þeirra vilja verja tíma sínum til annars en slíkra starfa. Umfjöllun einstakra félaga er auðvitað einnig athyglisverð í hverju dæmi fyrir sig. Menn fjalla ávallt um sinn aðila sem saklausa píslarvottinn, en aðstandendur liðs fórnarlambsins sjá hinn brotlega fyrir sér sem versta fól og vilja undantekningarlítið fá glæpamanninn umsvifalaust dæmdan í bann út árið. Merkilegt er annars hvað afstaða þessara aðila getur snúist þegar hlutverkaskipti verða í næsta agabroti. Í raun broslegt. Það sem veldur mér hvað mestum áhyggjum er samt að í umfjöllun félaga um leikbrot og agaviðurlög leikmanna sinna virðast sjaldan koma upp áhyggjur af raunverulegu framferði leikmannsins. Getur það verið t.d. að menn séu sáttir við að erlendur atvinnumaður liðsins fremji slíkt ásetningsbrot? Getur verið að mönnum sé sama um slíkt, jafnvel þótt það kunni að skaða árangur liðsins í formi leikbanna leikmannsins, eða jafnvel kostnaðar við að fá nýjan leikmann. Vissulega eru dæmi um félög sem hafa ekki reynt að réttlæta brotin, a.m.k. ekki út á við – og raunar jafnvel fordæmt þau. En tilvikin um hitt eru of mörg og áberandi. Opinberar árásir á aganefnd, réttarfarsreglur aganefndar eða jafnvel um samsæri KKÍ á hendur félaginu. Þetta eru allt skýringar sem við höfum fengið að heyra á undanförnum árum. Þetta geta ekki talist eðlileg viðbrögð – a.m.k. ekki ef menn ræða málin án tillits til einstakra atvika – eins og ég er e.t.v. að reyna að gera hér nokkrum vikum frá síðasta atviki. Úrbætur eiga að eiga sér stað með yfirveguðum hætti á ársþingum – ekki á spjallsíðum undir tilfinningahita augnabliksins. Það er hinsvegar spurning hvort við þurfum að fara að semja reglugerðir og skilgreina olnbogaskot sem hluta leiksins með sama hætti og vítaskot og þriggja stiga skot… Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |