© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
1.2.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Íþróttarekstur
Í síðustu pistlum hef ég gert ýmis viðskiptatengd sjónarmið innan íþrótta að umfjöllunarefni, þ.m.t. um ofurlaun og hagnaðarsjónarmið tiltekinna eininga íþróttasamfélagsins, og lýst áhyggjum mínum af því að jafnvægi grasrótar- og uppbyggingarstarfs við afreksstarf kunni að vera ógnað.

Stundum heyrast raddir á þá lund að “reka beri íþróttahreyfinguna á Íslandi eins og hvert annað fyrirtæki” og vinna þurfi að “markaðssetningu” o.s.frv. Þetta eru í sjálfu sér góð og gild sjónarmið, og eflaust vel meint – en þó má aldrei gleymast að íþróttahreyfingin lýtur í eðli sínu ekki öllum sömu lögmálum og fyrirtæki á viðskiptamarkaði sem þessi samlíking vísar til.

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er íslensk íþróttahreyfing félagasamtök en ekki fyrirtæki. Endurspeglast það e.t.v. best í þeirri staðreynd að markmið eru íþróttalegur árangur framar fjárhagslegri afkomu. E.t.v. væri auðvelt að ná fram betri fjárhagsmarkmiðum s.s. með því að takmarka þá þætti starfseminnar sem skila minnstum fjárhagslegum ávinningi. Kaldur raunveruleikinn myndi þannig í mörgum tilvikum fela í sér niðurskurð á unglinga- og kvennastarfi íþróttahreyfingarinnar. Ég hygg að allir séu sammála um að slíkt myndi vinna gegn meginmarkmiðum íþrótta.

Fyrirtæki á almennum markaði myndi varla sætta sig við að vera best eða stærst ef því fylgdi ekki samsvarandi fjárhagslegur ávinningur – með sama hætti og flestir afreksíþróttamenn myndu á hinn bóginn ekki sætta sig við neðsta sæti í árangri þótt því kynni að fylgja einhver fjárhagslegur ávinningur eða sparnaður. Fjármunir eru fyrir íþróttahreyfinguna tæki til að ná árangri, en sigur fyrirtækis á markaði felst í auknum arði. Þarna er vissulega munur á.

Varðandi “markaðssetningu” íþrótta og samanburð við viðskiptalífið að því leyti, er rétt að hafa í huga að markaðssetning fyrirtækja felst í flestum tilvikum í því að ráðstafa tilteknum fjármunum til sölu á afurðum eða þjónustu fyrirtækisins. Markaðssetning íþrótta á það e.t.v. sammerkt með slíku að aukin ásýnd greinarinnar eða umfjöllun t.d. í fjölmiðlum er fremur ætlað að laða að fleiri og betri iðkendur og áhorfendur – en allt með það langtímamarkmið að ná betri íþróttalegum árangri. Félagslegum árangri.

Íþróttahreyfingin hefur ekki varið stórum hluta fjármuna sinna til kostunar auglýsinga - fremur hefur verið viðtekin venja að afrekshluti íþróttahreyfingarinnar sé auglýsingamiðill í sjálfu sér. Frá hvoru tveggja eru þó undantekningar.

Raunar er íþróttahreyfingin meira og minna í heild sinni að þróa og markaðssetja “vöru” sína á hverjum einasta degi allt árið um kring. Æfingar leikmanna, skipulagning keppni og móthalds, dómara- og þjálfarafræðsla, foreldrasamstarf og aðrir slíkir þættir fela í sér umfangsmikla og viðvarandi markaðssetningu. Það að bjóða upp á betri “vöru” í dag en í gær með betri leikmönnum og þróaðri umgjörð – útbúa leikskrár, hengja upp auglýsingaspjöld og senda út boðsmiða – er í senn gríðarlega öflug vöruþróun og markaðssetning.

Það sem aðgreinir þetta starf frá “markaðssetningu” viðskiptalífsins er á hinn bóginn sú staðreynd að þetta er meira og minna allt unnið í sjálfboðavinnu - aukastörfum eftir að daglaunahlutverki ósérhlífinna sjálfboðaliða lýkur í atvinnulífinu. Afraksturinn er ekki arður af hlutafé heldur langtímaágóði í formi betra mannlífs og efnilegri æsku. Menn geta svo endalaust velt fyrir sér hvort sé mikilvægara.

Það er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar að vera meðvitaðir um þann veruleika sem við störfum í. Ég mun í næsta pistli reyna að gera grein fyrir ólíkum sjónarmiðum úti í hinum stóra heimi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Lið ÍBA og ÍR sem áttust við í æfingaleik árið 1954. Aftari röð frá vinstri: Hermann Sigtryggsson, Hörður Tuliníus, Gunnar Petersen, Garðar Ingjaldsson, Ingi Þór Stefánsson og Einar Helgason liðsmaður ÍBA. Fremri röð frá vinstri: Einar Gunnlaugsson, Páll Stefánsson, Sigurður P. Gíslason, Jón Stefánsson og Helgi Jóhansson.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið