© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
3.1.2006 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Erfðaeiginleikar
Í kvöld verður lýst kjöri íþróttamanns ársins í fimmtugasta sinn. Það eru Samtök íþróttafréttamanna sem standa fyrir því vali, og hefur skapast nokkur hefð fyrir athöfn í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands af því tilefni þar sem sérsambönd innan vébanda þess tilkynna jafnframt um val á íþróttamanni og -konu hverrar sérgreinar. Hefur þessi viðburður ennfremur endurspeglað prýðilegt samstarf íþróttadeilda stóru sjónvarpsstöðvanna um myndarlega sjónvarpsútsendingu frá viðburðinum undanfarin ár.

Hefur undirritaður af tilefni þessa viðburðar jafnan ritað pistil um ýmislegt er viðburði þessum og vali tengjast - og verður ekki gerð undantekning nú í ár. Viðfangsefnið í ár verður þó e.t.v. frábrugðnara fyrri árum, sbr. fyrirsögn pistils þessa.

Áður en vikið er að því þá er athyglisvert að líta til þess hversu hlutur hinna s.k. hópíþrótta hefur vaxið í hópi hinna tíu efstu í vali íþróttafréttamanna - á kostnað einstaklingsíþrótta, sem segja má að hafi nokkuð einokað viðburð þennan í gegnum áratugina, einkum afreksfólk úr frjálsum íþróttum og sundi. Mér telst til að í 35 af 49 skiptum hafi einstaklingsíþróttamaður hampað þessum titli, þar af 29 skipti úr frjálsum íþróttum eða sundi.

Að þessu sinni eru á lista yfir 10 efstu samtals 8 einstaklingar úr körfuknattleik, knattspyrnu og handknattleik. Auk þess er að finna einn sundmann og einn kylfing á listanum, en engan fulltrúa frá frjálsum íþróttum sem hlýtur - án þess að ég hafi kannað það sérstaklega - að vera nýlunda á þeim bænum.

Ekki er hér til umfjöllunar hvað veldur þessari þróun, en körfuknattleikshreyfingin fagnar því að eiga þar Jón Arnór Stefánsson sem fulltrúa okkar annað árið í röð eftir nokkuð magra uppskeru tímabila þar á undan. Einungis einn körfuknattleiksmaður hefur verið kjörinn íþróttamaður ársins, en það var enginn annar en Kolbeinn Pálsson, formaður okkar til átta ára 1988-1996, sem varð þess heiðurs aðnjótandi árið 1966.

En tilvísun til Kolbeins og Jóns Arnórs er einnig tengd fyrirsögn þessa pistils. Í fyrsta lagi hefur Kolbeinn Pálsson alið af sér afreksmenn á sviði körfuknattleiksiðkunar, og var t.d. Páll sonur hans farsæll landsliðsmaður fyrir Íslands hönd í mörg ár. Í annan stað lagi hlýtur faðir Jóns Arnórs - Stefán Eggertsson - að vera að slá einhver met í mætingu á þennan viðburð, en eins og flestum er kunnugt er hann jafnframt faðir Ólafs Stefánssonar handknattleiksmanns, sem valinn var íþróttamaður ársins tvö ár í röð 2002-2003.

Erfðaeiginleikar virðast koma nokkuð við sögu þess hóps sem hefur verið útnefndur eða valinn íþróttamaður ársins, og ber þar nú e.t.v. hæst þá feðga Eið Smára Guðjohnsen og Arnór föður hans, sem báðir hafa hampað titlinum og sonurinn núverandi handhafi. Þá er í fortíðinni vitaskuld áberandi nöfn þeirra feðga Vilhjálms Einarssonar og Einars Vilhjálmssonar.

Finna má fleiri dæmi úr hópi útnefndra og valinna þar sem erfðaeiginleikar og skyldleiki glóa eins og upplýstur geislabaugur í kringum bikarinn glæsilega - sem vel að merkja verður nú afhentur í fimmtugasta og síðasta sinn - og án þess að vísindalegar rannsóknir liggi því til grundvallar hlýtur að vera erfitt að andmæla þeirri fullyrðingu að erfðaeiginleikar hljóti a.m.k. í sumum tilvikum að vera einn af þeim þáttum sem myndar afreksfólk í íþróttum.

Ég vil óska öllum íþróttamönnum og -konum sérgreina til hamingju með sínar tilnefningar, og óska íþróttahreyfingunni í heild og Samtökum íþróttafréttamanna velfarnaðar í kvöld, sem og á íþróttaárinu 2006.

Megi sá besti vinna.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Leikmenn í úrslitaleik KR og Keflavíkur í bikarkeppni kvenna árið 2001 heiðra framkvæmdastjóra KKÍ, Pétur Hrafn Sigurðsson, á fertugsafmælisdegi hans 24. febrúar 2001.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið