S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
13.12.2005 | Björn Leósson
Formannspistill - Afreksmenn og hugarfar – síðari hluti
Fyrr í haust fjallaði ég um hugarfar afreksíþróttamanna í pistli með þeirri kenningu að ein ástæða árangurs yngri landsliða Íslands í körfuknattleik á alþjóðavettvangi undanfarin ár kynni að vera afar mikill metnaður og vilji leikmanna til þess að ná árangri – sem leitt hafi af sér fórnir í þágu liðsins. Það séu e.t.v. ekki nauðsynlega aukaæfingar sjálfar sem slíkar heldur sú staðreynd að þeir eru – af eigin hvötum – tilbúnir til þess t.a.m. að aka um landið þvert og endilangt til að mæta á þær aukaæfingar, sem sé meginmálið (það sem Viðar í fyrirlestri sínum nefnir “innri áhugahvöt - intrinsic motivation”). Virkjun þessa hugarfars geti ráðið úrslitum þegar á hólminn er komið í jöfnum leik. Hér sé áherslan meiri á andann en efnið. Í efstu lögum afreksíþróttaheims nútímans eru nefnilega svo gríðarlega margir sem æfa mikið, skipulega og með allar aðstæður og bakgrunn sem þarf til. Þrátt fyrir það geta þeir ekki allir orðið sigurvegarar. Í körfuknattleik t.d. geta lið haft yfir að ráða leikmönnum sem hver um sig eru jafn færir tæknilega, jafn sterkir líkamlega og jafn vel þjálfaðir. Samt sem áður virðist unnt að sjá mynstur þar sem lið sigra oftar en önnur, og þá jafnvel endurtekið undir kringumstæðum þar sem leikir vinnast e.t.v. með einu stigi á lokasekúndu. Gleymdum við e.t.v. að tilgreina “heppni” í upptalningu íþróttaeiginleika afreksmanna í inngangi í síðasta pistli? Ég held ekki. Mín skoðun er einfaldlega sú að andlegur styrkur og hugarfar sé það sem ræður oftar úrslitum en margir ætla. Hið margrómaða “dagsform” sé hvorki bábilja né tilviljun, heldur eiginleiki íþróttamanns / liðs sem skilar sigrum í hús, einkum þegar um er að ræða t.d. tvö toppþjálfuð atvinnumannalið. Raunar koma mun fleiri hugarfarslegir þættir til álita þegar samsetning afreksmanns er metin. Atriði á borð við sjálfstraust og sigurvissu eru sannarlega atriði sem skipta máli í jöfnum leik – um það hygg ég að fáir efist. Taugaveiklaður leikmaður með lítið sjálfstraust er ekki líklegur til afreka. Hér má í raun geta þess að t.d. stíf pressuvörn í körfuknattleik er í mínum huga fyrst og síðast hugarfarslegur varnarleikur - er einkum ætlaður til þess að fá andstæðinginn til að gera mistök vegna óyfirvegaðra aðgerða. Þá má til viðbótar nefna almenna skynsemi sem vanmetinn hugarfarslegan þátt, og mörg dæmi a.m.k. í körfuknattleik um afburðaskynsama leikmenn sem hafa komist langt á leikskilningi og hæfileika til að nýta skynsemi sína innan marka leiksins – jafnvel langt umfram “líkamlega getu”. Ekki hef ég neinar heildarlausnir á því hvernig slíkir hæfileikar / eiginleikar eru þjálfaðir upp, en þeir skipta sannarlega máli að mínu mati. Á móti hinu jákvæða afrekshugarfari má svo auðvitað nefna neikvæða hugarfarsþætti á borð við vanmat, virðingarleysi og hroka (sem alls ekki má rugla saman við sjálfstraust), og ennfremur reiði – sem verður mönnum sjaldnast til framdráttar í kappleikjum, og veldur gjarnan einbeitingarleysi, og er oftar en ekki ávísun á tap. Allt eru þetta hugarfarslegir eiginleikar sem afreksmaður í fremstu röð þarf að yfirvinna með sama hætti og hann þarf að tileinka sér hina jákvæðu hugarfarsþætti. Á þessu stigi langar mig til þess að nefna til sögunnar mann að nafni Michael Jordan. Það hafa á ýmsum tímum verið til leikmenn sem hafa getað hoppað hærra en hann, hitt betur, troðið með meiri tilþrifum eða jafnvel leikið betri vörn. Þótt styrkur MJ hafi vissulega verið einstaklega gott samansafn þessara íþróttamannslegu eiginleika þá held ég að verulega sé vanmetinn sá andlegi hugafarsþáttur sem gerði hann betri en aðra – og leiddi ekki síður til þess að hann gerði einnig samherja sína betri. Í jöfnum leik vissu bæði samherjar og mótherjar hver átti að fá boltann og hver átti að taka síðasta skotið. Það var gert, og samt vissi hann sjálfur allan tímann að hann myndi skora – efaðist aldrei. Með fullri virðingu þá held ég að það felist ekki einungis í stökkkrafti eða skoteiginleikum (sem auðvitað þurfa samt að vera til staðar sbr. framangreint) heldur þeim hugarfarslega sálarstyrk sem MJ hafði umfram andstæðinga sína – sem án efa stunduðu jafn mikið af æfingum og aukaæfingum og bjuggu að öðru leyti yfir sambærilegum líkamlegum eiginleikum. Í fyrirlestri Viðars Halldórssonar er að finna tvær tilvitnanir í landsþekkta einstaklinga sem ég hygg að endurspegli vel hversu sammála við erum að því leyti að hugarfarið skiptir miklu máli. Teitur Þórðarson knattspyrnuþjálfari: ”Hæfileikar gera þig áhugaverðan, hugarfarið gerir þig góðan”. Örn Arnarson sundkappi: ”Árangur í íþróttum er 60% hausinn, 20% hjartað og 20% líkamlegir þættir”. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir mig að taka skýrt fram að þessar hugleiðingar eru settar fram af ófaglærðum áhugamanni á þessu sviði – og ber að lesa sem slíkar. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ. |