© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
6.12.2005 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Afreksmenn og hugarfar – fyrri hluti
Ef lykillinn að toppárangri í íþróttum væri til í tilbúinni formúlu má ljóst vera að margir vildu fjárfesta í slíku – þ.e.a.s. ef málið væri í reynd svo einfalt að um væri að ræða hlutlæga framleiðsluformúlu. Slík galdraformúla hefur ekki fundist ennþá þrátt fyrir margar athyglisverðar kenningar.

Meðfæddir erfðatengdir hæfileikar, íþróttaleg líkamsbygging, tæknivædd, allt að því vísindaleg, grunnþjálfun frá unga aldri, skipulegt mataræði og hollt líferni, stuðningur og hvatning, ástundun með sérhæfðum “aukaæfingum” – og síðast en ekki síst hugarfar sigurvegara – eru allt atriði sem fjallað hefur verið rækilega um sem samsetningareiginleika afreksíþróttamanns.

Nýlega hlýddi ég á prýðilegan fyrirlestur Viðars Halldórssonar lektors við Kennaraháskóla Íslands um rannsóknir hans á afreksfólki í íþróttum, þar sem lögð var sérstök áhersla á að “aukaæfingar” séu það einstaka atriði sem greinir helst hafrana frá sauðunum þegar kemur að árangri toppíþróttamanna, ásamt áhrifamiklum atriðum á borð við sjálfsaga og skuldbindingu. Var sú kenning studd rannsóknum viðkomandi, sem engin ástæða er til að efast um – og er raunar um margt athyglisverð.

Þjálfun felst e.t.v. ekki endilega í að gera 1 atriði 100% betra heldur fremur að gera 100 atriði 1% betri, og fannst mér athyglisverð nálgun í fyrirlestri Viðars að menn einblíni um of á æfingu lokatakmarks árangursins en ekki áfangana að árangrinum. Það er ekki flókið mál að til að sigra í t.d. körfubolta þarf að koma knettinum í körfuna oftar en andstæðingurinn, og í sinni einföldustu mynd ætti því að nægja að æfa bara skot, ekki satt? Menn fá nefnilega ekki stig fyrir góðar sendingar eða tilkomumikla spretti. Ekki aldeilis. Raunveruleikinn þannig að enginn nær árangri í körfubolta án þess að æfa stökkkraft, úthald, snerpu og tækni o.s.frv. Þetta eru allt sjálfstæðir áfangar að því að skora fleiri körfur en andstæðingurinn, og ætti að útskýra prýðilega hvað við er átt með þjálfun áfanga.

Enginn efast um þá kenningu að til að ná árangri í íþróttum þarf miklar og skipulegar æfingar – og aukaæfingar – í langan tíma. Mig langar hinsvegar aðeins til að varpa öðruvísi ljósvinkli á þær ályktanir sem dregnar eru af framangreindum niðurstöðum Viðars, en það felst í því að það sé ekki beint aukaæfingin sem slík sem sé hinn ráðandi þáttur – heldur fremur það hugarfar sem viðkomandi íþróttamaður býr yfir og felst í því að leggja meira á sig en aðrir, svo sem að æfa aukalega. Aukaæfingin sjálf sem slík er fyrst og fremst afleiðing af þeim hugarfarslega eiginleika afreksmannsins.

Ég hygg að í heildaruppbyggingu og langtímamarkmiðasetningu afreksmanna hér á landi kunni að vera að menn gæti ekki nægilega vel að hugarfarslega þættinum – og þá er ég ekki eingöngu að fjalla um þá “skuldbindingu” sem Viðar vísar réttilega til heldur ekki síður þá hugarfarslegu hvatningu sem fær íþróttamanninn sjálfan á eigin forsendum til að vilja færa þær fórnir sem nauðsynlegar eru – hann þarf beinlínis að hafa ánægju af þeim skuldbindingum og taka upp lífsstíl afreksmannsins að eigin vilja og frumkvæði, en ekki með “skuldbindingu” í þeim skilningi að einhver annar ætlist til slíks af honum. Hér kynni að endurspeglast alþekkt vonbrigði vegna of mikilla væntinga annarra – “aukaæfingarnar” eru ekki á forsendum afreksmannsins sjálfs.

Vafalaust geta hér átt við ólík sjónarmið í liðsíþróttum og einstaklingsíþróttum þar sem um er að ræða hlutlæga mælikvarða og minni líkur á því að óvissuþættir ráði árangri. Langstökkvari er einn með atrennu sinni og sandgryfju, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því að bregðast við inngripi andstæðings eða aðstæðum að öðru leyti (nema e.t.v. veðri). Árangur hans markast talsvert af hreinum hlutlægum mælikvarða, þótt stökkið útheimti vissulega einbeitingu og sjálfstraust. Ég ætla hinsvegar að halda mig hér á vettvangi liðsíþróttarinnar körfuknattleiks – sem eðli máls stendur mér næst.

Án þess að ég hafi gert neina sérstaka úttekt á þeim þáttum (vona að einhverjir mér fróðari hafi eða muni e.t.v. rannsaka það nánar) þá held ég að Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur og fyrrverandi handknattleiksþjálfari hafi líklega verið sá aðili sem gefið hafi þessum þætti mestan gaum – og raunar gengið enn lengra með því að yfirfæra hugarfar og mótiveringu afreksmanna í íþróttum yfir á atvinnulífið almennt. Það er út af fyrir sig í anda þess sem ég hef ritað um í fjölmörgum pistlum varðandi það hvað hið almenna samfélag okkar getur lært af íþróttahreyfingunni - en er ekki til umfjöllunar hér.

Ég mun fjalla nánar áfram um framhald þessa málefnis í næsta pistli eftir viku.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Morgunteygjuæfingar á hótelinu í Istanbul undir stjórn Brynjars Bergmanns
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið