© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
29.11.2005 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Kveðjur til Harbin

Landsliðið á götu í Harbin

Götumynd frá Harbin

Ólafur Rafnsson, Yao Ming og Eiður Guðnason
Hlynur Bæringsson gætir Yao Ming

Tveimur stigum undir gegn Asíumeisturunum



Borgin Harbin í Heilóngjiang héraði í norðausturhorni Kínaveldis hefur talsvert verið í fréttum undanfarið vegna alvarlegrar bensólmengunar í ánni Songhua sem rennur í gegnum borgina. Harbin er falleg og snyrtileg rúmlega þriggja milljóna íbúa borg, rík af glæsilegum byggingum með rússneskum áhrifum, og fræg meðal annars fyrir árleg hátíðahöld þar sem listamenn víða að úr Kína keppast um að búa til stórfenglega ísskúlptúra – en frosthörkur geta verið þar miklar að vetri til.

Ástæða þess að verið er að fjalla um borgina Harbin hér á þessum vettvangi er einfaldlega sú að í Kínaferð A-landsliðs karla í ágúst s.l. var Harbin önnur þeirra borga þar sem við öttum kappi við landslið Kína. Leyfi ég mér að fullyrða að hópurinn á almennt afar ánægjulegar minningar frá þessari skemmtilegu borg. Var hótelið okkar raunar staðsett á árbökkum Songhua árinnar.

Um var að ræða síðari leik íslenska landsliðsins – leik sem án efa verður skráður í senn í sögubækur íslensks körfuknattleiks sem og íslenskrar íþróttasögu almennt. Ekki eingöngu vegna þess að litla Ísland átti mjög góðan leik gegn hinu firnasterka liði Kínverja – með 228 sm NBA risann Yao Ming innanborðs – og ekki vegna þess eingöngu að hér var um að ræða fyrstu leiki íslensks landsliðs í körfuknattleik við ríki utan Evrópu - heldur ekki síður fyrir þá staðreynd að leikurinn var sýndur í beinni útsendingu í ríkissjónvarpi Kína, og skv. áætlun íslenska sendiráðsins í Kína má gera ráð fyrir að allt að 600 milljónir áhorfenda hafi séð útsendinguna.

Það er líklega sama hvernig á málin er litið, hér er væntanlega um stærsta – já langstærsta – hóp áhorfenda sem horft hefur á íslenskt íþróttakapplið í sjónvarpi. Og jafnvel e.t.v. einungis að sjálfum Ólympíuleikunum undanskildum er þetta langstærsta útsending sem nokkur íslenskur íþróttamaður hefur sést í – svo ekki sé minnst á þá staðreynd að um var að ræða 90 mínútna beina útsendingu sem að hálfu var tileinkuð íslensku landsliði.

Fyrir leikmenn var það sannkölluð upplifun að njóta skyndilega svo mikillar athygli, og þurfa svo mikillar öryggisgæslu við. Ný og glæsileg átta þúsund manna keppnishöllin í spánýju háskólahverfi rétt utan miðborgar Harbin var orðin þéttsetin klukkustund fyrir leik þegar rútur keppnisliðanna mættu á staðinn. Aragrúa her- og lögreglumanna þurfti til að rúturnar kæmust í gegnum mannfjöldann sem beið fyrir utan höllina – og hafði ekki náð að tryggja sér miða á leikinn – en dvaldi þar engu að síður allan tímann í þeirri von að berja einhverjar körfuboltahetjurnar augum.

Kína er mesta stórveldi heims þegar kemur að mannfjöldaskilgreiningu. Þegar 600 milljónir sjónvarpsáhorfenda eru hafðir í huga þá er vert að minnast þess að þar er um að ræða fjölda sem er nokkuð nærri heildarfjölda íbúa Norður Ameríku og Vestur-Evrópu samanlagt. Þá á eftir að velta fyrir sér hvað teldist gott hlutfall í sjónvarpsáhorfi.

Oft er gaman að setja hlutina í myndrænt samhengi til að skilja stærðir. Íslenski hópurinn henti gaman að þeirri tölfræðilegu staðreynd að þá viku sem liðið gisti í Kína þá fjölgaði Kínverjum sem nemur íbúafjölda þessa litla smáríkis – Íslands – sem þó hafði í fullu tré við stórþjóðina á körfuboltavellinum. Kínverjar fóru svo viku síðar og unnu Asíumeistaratitil landsliða í Quatar með nokkrum yfirburðum.

Ég hygg að ég geti fullyrt að allir leikmenn og aðstandendur íslenska landsliðsins senda hlýjar kveðjur til íbúa Harbin – með von um að vatnsból þeirra megi losna við eitrið sem allra fyrst, og að enginn beri skaða af því umhverfisslysi sem orðið hefur.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá Smáþjóðaleikunum á Möltu 1993.  Jón Arnar Ingvarsson í leik gegn Möltu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið