© 2000-2023 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
22.11.2005 | Ólafur Rafnsson
Formannspistill - Sýn í tíu ár
Íþróttasjónvarpsstöðin Sýn fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli sínu. Eflaust kynnu ýmsir að segja það að afmælisáfangi fjölmiðils í okkar síbreytilega upplýsingasamfélagi teljist vart til eftirtektarverðra fregna.

Í mörgum tilvikum má taka undir slíkar fullyrðingar – eflaust einkum þar sem um er að ræða hefðbundnar síbyljutónlistarstöðvar á hljóðvarpssviðinu. Þróunarsaga hinnar frjálsu ljósvakafjölmiðlunar er þó enn svo ung og umbreytileg að enn eru vissir áfangar meira fréttaefni en aðrir. Marka fyrstu frjálsu útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar upphaf mikillar samfélagsbyltingar sem fráleitt er annað en að staldra við og telja til fréttar þegar stórum afmælisáföngum er náð.

Sýn var bylting á sínu sviði. Um var að ræða fyrstu sérhæfðu sjónvarpsstöðina hér á landi sem tileinkaði allri sinni dagskrá íþróttum. Hófst þar þróun m.a. í ítarlegri umfjöllun um íþróttir en áður hafði þekkst, og fjöldi beinna útsendinga margfaldaðist skyndilega í íslensku sjónvarpi – ekki eingöngu vegna útsendinga Sýnar heldur ekki síður vegna rökréttra viðbragða samkeppnisaðila.

Þá er einnig vert að hafa í huga að Sýn hefur verið brautryðjandi í vandaðri og faglegri umgjörð um íþróttaumfjöllun. Eflaust muna fáir eftir beinum útsendingum með einungis 1-2 myndavélum, án viðtala, með einfaldri grafík og lýsingum án sérfróðra gestalýsenda. Þetta var engu að síður hinn almenni veruleiki fyrir upphaf þeirrar þróunar sem að hófst að verulegu leyti með stofnun Sýnar.

Stundum verða athyglisverðar umræður innan íþróttahreyfingarinnar um skort á fjölda beinna útsendinga. Gjarnan virðist slík umræða stýrast af aðilum sem virðast vera svo ungir að þeir hreinlega muna ekki svo langt aftur í tímann – fyrir einungis áratug síðan gátu menn talið vikulegan fjölda beinna útsendinga af íþróttaviðburðum á fingrum sér. Þetta er einfaldlega lögmálið um að “þegar menn hafa fengið nóg, þá er nóg ekki lengur nóg”.

Raunar hafa einnig heyrst raddir um að þessari þróun hafi fylgt sköpun nýrrar þjóðfélagsstéttar hér á landi – aðilum sem kallaðir hafa verið “sófakartöflur” og eyða (eða njóta, eftir því hvernig á það er litið) stórum hluta vökutíma síns í áhorf á beinar sjónvarpsútsendingar af íþróttaviðburðum. Sumir segja að þessir aðilar ættu fremur heima á kappleikjunum sjálfum, og þarna sé e.t.v. ein orsök fækkunar áhorfenda í sumum íþróttagreinum hérlendis. Ekki ætla ég nánar út í það hér.

Hér kunna að togast á andstæð sjónarmið, en væntanlega velkist enginn í vafa um að Sýn hefur orðið íslensku íþróttalífi til mikils framdráttar. Mögulegt er að sinna mun fleiri íþróttagreinum og gera hverjum íþróttaviðburði betri skil. Jafnframt hefur stofnun sérstakrar íþróttastöðvar friðað ágreining við almenna neytendur (í þessu tilviki Stöðvar 2) þegar raska hefur þurft almennri dagskrá vegna beinna útsendinga frá íþróttaviðburðum e.t.v. á besta útsendingartíma. Þetta er raunar ennþá án efa helsta forskot Sýnar á keppinauta sína.

Þegar Sýn var stofnuð um miðjan 10. áratug síðustu aldar þá var það samhliða kappsfullri þróun sem átti sér stað í Evrópu á sama tíma, og fólst einkum í því að sterkir aðilar lögðu mikið fjármagn í að mynda sér sterka stöðu – helst einokun – í réttindum til útsendingar íþróttaefnis. Sú þróun fólst einkum í heildsölukaupum eftirsótts íþróttaefnis, en margir muna hvernig því kapphlaupi lauk með hrinu gjaldþrota stórra aðila á því sviði. Allt þetta hefur Sýn staðið af sér, og ber að hrósa þeim sem stýrt hafa skútunni í gegnum þær hremmingar.

Þótt ein íþróttagrein hafi að vissu leyti orðið einum of yfirgnæfandi á Sýn í seinni tíð hefur körfuknattleiksumfjöllun þar jafnan verið prýðilega fyrirferðamikil. Stöð 2 hafði brotið blað við að bjóða upp á eitt eftirsóttasta og glæsilegasta sjónvarpsefni í heimi – útsendingum frá NBA deildinni – með reglulegum útsendingum sem setti Ísland framar flestum stærstu þjóðum Evrópu á þeim tíma, og tók Sýn við þeim kyndli.

Á hinn bóginn verður að segja að Sýn geti vissulega sinnt betur umfjöllun um körfuknattleik annarsstaðar úr heiminum, ekki síst frá Evrópu. Þar hygg ég að felist talsvert ónýtt verðmæti áhorfs, ekki síst í ljósi þess fjölda íslenskra atvinnumanna sem nú leikur körfuknattleik víða um álfuna. Vona ég að fyrirsvarsmenn Sýnar taki þeirri ábendingu vel nú á afmælisári.

Sýn hefur frá upphafi verið í samningssambandi við KKÍ um útsendingar frá úrvalsdeildinni í körfuknattleik – nú Iceland Express deildinni – og hefur fjöldi beinna útsendinga á ári verið umtalsverður. Hefur umfjöllun t.a.m. um úrslitakeppni undanfarin ár verið til mikillar fyrirmyndar, og verið vinsælt sjónvarpsefni.

Ég sendi Sýn kveðjur á afmælisárinu, og þakka samstarfið þennan fyrsta áratug.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá Evrópukeppni U-20 landsliða í Evora í Portúgal árið 1993.  Íslenska liðið, ásamt þjálfurunum Torfa Magnússyni og Friðriki Inga Rúnarssyni.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið