© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
15.11.2005 | Ólafur Rafnsson
Alþjóðavæðing íslensks körfuknattleiks
Í kjölfar umfjöllunar undirritaðs á afrekum ungmennalandsliða Íslands á alþjóðavettvangi er ekki úr vegi að staldra aðeins við og bera saman samskipti Íslands og annarra þjóða almennt að því er varðar körfuknattleik – nú og í fortíðinni.

Fyrstu árin í tæplega 45 ára sögu KKÍ einkenndust ekki af miklum erlendum samskiptum eða fjölþjóðlegri keppni. Vissulega á körfuknattleikurinn á Íslandi að stóru leyti rætur sínar að rekja til samskipta við bandaríska herinn sem hér hefur verið frá því í síðari heimsstyrjöldinni, en bernskuár sambandsins verða þó að teljast hafa fremur einkennst af einangrun – a.m.k. ef miðað er við stöðu mála í dag.

Kaflaskipti urðu með tilkomu erlendra leikmanna um miðbik 8. áratugarins, og hvað sem menn vilja segja neikvætt um þá þróun sem þeir hafa haft á íslenskt íþróttalíf síðan þá hygg ég að óumdeilt sé að þeir hafi innleitt nýjar víddir í körfuknattleikinn sem kappleik – nokkuð sem líklega hefur ávallt verið vanmetið vegna annarra áhersluatriða í veru þeirra hér.

Dvöl og keppni íslenskra leikmanna á erlendri grundu var heldur ekki áberandi fyrstu áratugina. Kappar á borð við Þorstein Hallgrímsson gerðu þó garðinn frægan í Danmörku, og vissulega hefur það vel þekkst að íslenskir leikmenn hafi sótt skóla í Bandaríkjunum samhliða körfuknattleiksiðkun, þótt ekki hafi það verið í sama mæli og nú um stundir.

Þessi þróun hefur náð talsvert lengra í dag ef litið er til fjölda þeirra íslensku leikmanna sem leika körfuknattleik erlendis – beggja vegna Atlantsála. Nema þeir tugum í dag. Á undanförnum áratug eða svo hefur þessi þróun ekki síst einkennst af því að leikmenn hafa verið að skapa sér nafn með stórum liðum í efstu deildum sterkra körfuknattleiksþjóða á borð við Grikkland, Spán, Þýskaland, Rússland og nú síðast Ítalíu. Auðvitað hafa svo sérstöðu hér hin frækilegu afrek NBA-leikmanna okkar, þeirra Péturs Guðmundssonar og Jóns Arnórs Stefánssonar.

Og þá að landsliðum okkar. Leikjafjöldi íslenskra landsliða hefur náð hámarki á undanförnum árum. Ef áratugir KKÍ eru dregnir saman þá var heildarfjöldi leikja 1961-1970 41 talsins, 1971-1980 114 talsins, 1981-1990 198 talsins og 1991-2000 380 talsins. En frá árinu 2001 einu saman hefur heildarfjöldi leikja þegar náð 216. Hér er því um að ræða augljósa þróun að ræða í átt til alþjóðavæðingar.

Í þessu samhengi má jafnframt geta þess að íslensk landslið spila nú að jafnaði víðar í fleiri ríkjum en áður, og orsakast það að hluta til af breyttu keppnisfyrirkomulagi. En fyrstu opinberu landsleikir Íslands utan aðildarríkja Evrópska körfuknattleikssambandsins, FIBA Europe, voru hinsvegar ekki leiknir fyrr en í Kínaferð A-landsliðs karla nú í ágúst s.l. Það er út af fyrir sig merkileg staðreynd.

Svo eru það félagsliðin. Keppnisferðir félagsliða til útlanda þóttu markverð frétt fyrir ekki svo ýkja mörgum árum síðan, og þátttaka í Evrópukeppni hrein upplifun (undirritaður á raunar slíkar minningar frá sínum ferli). Í dag þykir á hinn bóginn varla tiltökumál að fleiri en einn keppnisflokkur fari til keppni á undirbúningstímabili, og þátttaka í mótum í nágrannaríkjunum þykir sjálfsögð.

Leikir félagsliða í Evrópukeppni eru nú ekki einungis í besta falli heima og heiman, heldur eru leiknir heilir riðlar – og lið hafa jafnvel tekið þátt í slíkri keppni ár eftir ár sbr. lið Keflavíkur undanfarin þrjú ár. Ein ánægjulegasta viðbót við þessa flóru er hinsvegar þátttaka kvennaliðs Hauka í Evrópukeppni félagsliða. Auk fjölmargra leikja á undirbúningstímabili félagsliða taka íslensk félagslið þátt í a.m.k. 10-12 leikjum í Evrópukeppni í vetur. Það er eflaust svipað og fyrstu 30 árin í sögu KKÍ.

Miðað við framangreinda samantekt má ljóst vera að alþjóðavæðing íslensks körfuknattleiks er að vaxa sama frá hvaða sjónarhorni slíkt er litið. Þetta hefur án efa átt stóran þátt í þeim árangri sem t.a.m. ungmennalandslið okkar hafa náð á alþjóðavettvangi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá Evrópukeppni U-20 landsliða í Evora í Portúgal árið 1993. Ingvar Ormarsson og Eggert Garðarsson (Maríuson) taka léttan sjómann á sundlaugarbakkanum.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið