© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
1.11.2005 | Ólafur Rafnsson
Sumarið sem önnur verða miðuð við?
Fyrirsögn þessa pistils vísar – eins og margir muna – í fræga fyrirsögn í einu dagblaðanna hér á landi eftir árangur yngri landsliða Íslands í körfuknattleik sumarið 2004. Það er því e.t.v. ekki úr vegi að taka áskorun samanburðar, nú strax ári síðar – í yfirborðskenndu uppgjöri körfuboltasumarsins 2005.

Byrjum á fjölda liða og leikja. Sumarið 2005 voru rofin öll mörk varðandi fjölda leikja yngri landsliða. KKÍ sendi til keppni landslið í öllum yngri landsliðum sem völ er á á Norðurlandamóti, og í fimm af sex flokkum í Evrópukeppni yngri landsliða. Hygg ég að ekki séu mörg dæmi slíks í sögu íslenskra hópíþrótta.

Samtals voru leikir íslensku ungmennalandsliðanna í sumar u.þ.b. 60 talsins. Ef gerður er samanburður á leikjafjölda fyrstu áratuga sambandsins þá léku íslensk ungmennalandslið samtals 24 leiki á árunum 1965-1975 (u.þ.b. 2,5 að meðaltali á ári), samtals 76 leiki 1976-1985 (u.þ.b. 7,6 leiki á ári) og 150 leiki 1986-1995 (u.þ.b. 15 leiki á ári). Hér er því um að ræða fjórföldun meðaltals áratugarins 1986-1995. Þetta er auðvitað ekkert annað en jákvæð þróun þótt kostnaðarsöm sé.

En þá að árangri liðanna, sem e.t.v. er inntak fyrirsagnarinnar. Vissulega má segja að eins stoltir og leikmenn okkar voru af árangri síðasta árs þá var að sama skapi erfitt að mæta til Norðurlandamóts sem þrefaldir meistarar. Raunin varð sú að eigi tókst að endurtaka leikinn, en engum vafa er undirorpið að litið er á íslensku ungmennin sem skilyrðislausa jafnoka allra Norðurlandaþjóðanna.

Ein stærsta frétt sumarsins á þessum vettvangi var þó án efa sú að í lok sumarsins 2004 áttum við eitt ungmennalandslið í A-deild Evrópukeppninnar, en í lok sumars 2005 voru þau orðin tvö talsins.

Fyrirfram hygg ég að fáir hafi gert ráð fyrir því að U-18 lið okkar myndi í Slóvakíu endurtaka afrek U-16 ára liðsins frá Brighton í fyrra, og eflaust síst af öllu fjölmargir hinna sterku mótherja. Sú varð þó raunin og Ingi Þór og piltarnir sneru stoltir heim með A-deildar sæti í farteskinu. Það ánægjulegasta við þau úrslit er e.t.v. sú staðreynd að stór hluti hópsins er á yngra ári í þessum aldursflokki, og fá sumir þeirra nú loksins að fylgja árangrinum eftir með úrslitakeppni A-deildar á næsta ári, eftir að hafa tekið þátt í að tryggja A-deildarsæti tvö ár í röð – í tveimur aldursflokkum.

Hafi fáir haft trú á því að U-18 piltarnir myndu tryggja sér sæti í A-deild þá áttu e.t.v. enn færri von á því að U-16 piltarnir myndu ná þeim merka árangri að halda sér uppi í A-deildinni í Leon á Spáni. Slíkt er án efa erfiðara, enda allir andstæðingarnir sterkar A-þjóðir. En viti menn, liðið knúði fram sigur á réttum tíma í hreinum úrslitaleik gegn Belgum, og landaði sem viðbótarbónus sigri gegn Pólverjum. Nóg til að halda sætinu í A-deild fyrir komandi kynslóð.

Er þessi árangur sjálfsagður? Aldeilis ekki, og í raun varla eðlilegur. Rétt er að hafa í huga að engin hinna Norðurlandaþjóðanna var svo mikið sem nálægt því að tryggja sér sæti í A-deild yngri landsliða – ef þau á annað borð tóku þátt. Ísland er því eina Norðurlandaþjóðin sem á ungmennalið í A-deild á næsta ári – og þau meira að segja tvö. Sumarið 2005 stenst því fyllilega samanburð við önnur ár hvað þetta varðar, og má gjarnan færa þann samanburð yfir á ýmsar stórþjóðir álfunnar.

Það verður því annað sagt en að framtíðin sé björt fyrir íslenskan körfuknattleik. Hjartanlega til hamingju krakkar.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Ingi Þór Steinþórsson sá um að stýra Mix mótinu sem haldið var á Miklatúni sunnudaginn 1. júlí 2007 og gerði það af alkunnri snilld.  Mótið var haldið í brakandi blíðu, allt fram að 8 liða úrslitum.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið