© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
25.5.2005 | Ólafur Rafnsson
Ræða formanns á ársþingi KKÍ
Ágætu félagar,

Fyrir ykkur liggur skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. Að venju ætla ég mér ekki að endurtaka það sem þar stendur, heldur draga fram nokkra þætti starfsins.

Að baki er ótrúlegt ár í íslenskum körfuknattleik. Viðburðarríkasta, annasamasta og síðast en ekki síst lang-árangursríkasta starfsár sem ég hef upplifað á 15 ára ferli í stjórn KKÍ.

Landsliðssumarið 2004 fól í sér kaup uþb 250-260 ferða erlendis og 60-70 landsleiki, í sex aldursflokkum. Þrír Norðurlandameistaratitlar af fjórum í keppni yngri landsliða er nokkuð sem hefur vakið verðskuldaða – en þó e.t.v. alltof litla – athygli, eftir að hafa fram að því í gegnum áratugina einungis landað einum slíkum titli, og þá hér heima á Íslandi.

Í fyrsta skipti sem íslenskt kvennalandslið í nokkrum aldursflokki tók þátt í Evrópukeppni, hið glæsilega U-16 lið okkar, náði það eftirtektarverðum árangri með því að lenda í öðru sæti B-deildar í Eistlandi – voru raunar með jafn mörg stig og sigurvegararnir frá Litháen, en lakara skorhlutfall.

Ekki síður vakti athygli árangur piltalandslið okkar, sem gerði sér lítið fyrir og sigraði í sínum riðli B-deildar, og tekur þátt í keppni þeirra bestu á Spáni nú í sumar – og hefur slíkt einungis einu sinni gerst áður í sögu KKÍ, þ.e. þegar piltalandsliðið okkar tók þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins í Tyrklandi árið 1993.

Ungir leikmenn okkar hafa vakið mikla athygli erlendis, og má þar sem dæmi nefna þau Brynjar Björnsson og Helenu Sverrisdóttur, sem nýlega útgefin handbók unglinganefndar FIBA Europe lýsir með þeim orðum að sé “out of this world”.

A-landsliðin okkar áttu í heildina litið afar gott ár líka. Kvennalandsliðið lék fleiri leiki s.l. sumar en fyrstu 25-30 árin frá stofnun KKÍ. Árangurinn var glæsilegur, sannfærandi sigur á smáþjóðakeppni FIBA Europe, þriðja sæti á NM og sigrar gegn sterku liði Englendinga í vináttuleikjum. Þessi árangur, ásamt gríðarsterkum yngri árgöngum hefur leitt til þess að ákvörðun hefur verið tekin um þátttöku í Evrópukeppni kvennalandsliða á næsta ári í fyrsta skipti í sögu KKÍ.

Karlalandsliðið lagði m.a. A-þjóðir Pólverja og Belga í eftirminnilegum leikjum – vel að merkja báðum í Stykkishólmi – og eftir góðan heimasigur á Rúmenum stendur liðið nú í hatrammri baráttu um sæti í A-deild Evrópukeppninnar í haust, þar sem mikilvægur heimaleikur verður gegn Dönum þann 3. september næstkomandi.

Á síðasta sumri lögðu íslensk landslið að velli lið frá Danmörku, Póllandi, Svíþjóð, Finnlandi, Makedóníu, Tékklandi, Ungverjalandi, Lettlandi, Belgíu, Englandi, Rúmeníu, Eistlandi, Hollandi, Írlandi, Noregi, Austurríki, Luxembourg, Skotlandi, Möltu og Andorra. Ekki amalegur listi það. Sumar þessar þjóðir lagði litla Ísland oftar en einu sinni, og jafnvel oftar en tvisvar – og nær allir leikirnir voru í opinberum mótum þar sem allt er lagt undir.



Það er því kannski lýsandi að einn fjölmiðillinn lýsti árangrinum sem svo að þarna væri um að ræða “Körfuboltasumarið sem önnur yrðu miðuð við”. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða allt að því ósanngjarnt góðan árangur, þá veit ég að okkar metnaðarfullu leikmenn hyggjast gera jafnvel betur í ár – sé það á annað borð hægt fyrir svo litla þjóð. Stoltið við að spila með fánann á brjóstinu hefur fleytt okkur lengra en flestir þora að spá.

Erlendis hefur þessi árangur sannarlega vakið athygli. Ég sæki reglulega fundi á vegum FIBA Europe, og vissulega er spurt kurteislega “hvernig gangi” o.s.frv., og ég hef auðvitað af samsvarandi kurteisi spurt um hæl hvernig gangi hjá þjóð viðmælandans. Í ár hefur brugðið svo við að spurningarnar voru öðruvísi og beinskeittari. Nú var ekki um að ræða kurteisishjal. Menn hafa hreinlega þekkt árangur landsliðanna, og þá ekki bara piltalandsliðsins, heldur vakti annað sæti stúlknalandsliðsins líka athygli.

Menn hafa einfaldlega spurt okkur hvað í ósköpunum þessi dvergþjóð langt í norðri sé að gera umfram sér langtum stærri þjóðir í uppbyggingarmálum körfubolta. Höfum við forsvarsmenn KKÍ verið stoltir af því að hafa jafnvel verið beðnir að flytja erindi á erlendri grundu um þau mál.

Eitt af því sem ég hef orðað á þeim vettvangi eru þær fórnir sem ýmsir okkar leikmanna hafa fært. Innan okkar vébanda eru engar prímadonnur. Leikmenn sem hafa fórnað sumarleyfum fjölskyldunnar – leikmenn sem hafa kostað til fjárhagslega allri sumarhýrunni – leikmenn sem hafa e.t.v. ekið hundruð kílómetra á æfingar allt sumarið – eru ekki leikmenn sem eru mættir í leiki án baráttu fyrir sínu liði, eða til þess að bera virðingu fyrir hálaunuðum unglingum stórþjóða. Nei, þetta eru leikmenn sem skutla sér í gólfið á eftir hverjum einasta bolta.

Þetta viðhorf hefur vakið mikla aðdáun erlendis og í raun verið rætt út frá þjálfunarfræðilegum forsendum. Einhverja skýringu verða menn að finna.

En þessi árangur er ekki okkar hjá sambandinu – hann er fyrst og síðast ykkar hjá félögunum. Það er gott starf í grasrótinni og gott samstarf KKÍ, félaga og foreldra sem hefur skapað þessa afreksmenn. Samstarf í stað deilna, jákvæðni í stað niðurrifs og skilningur í stað nöldurs. Þetta er það hagsmunamat sem endurspeglar raunverulegan metnað – og skilar árangri. Fyrir það ber að þakka.

Þegar svo vel er að verki staðið á fyrstu stigum þá er eftirleikurinn auðveldari – og einnig fyrir okkur hjá KKÍ að standa í sviðsljósi og baða okkur í ljóma árangurs sem við höfum raunverulega öll náð í sameiningu.

Á komandi sumri liggur svo fyrir keppni í enn fleiri aldursflokkum en í fyrra. Við sendum fimm yngri landslið til keppni af sex flokkum mögulegum, sem taka munu þátt í Evrópukeppni í Eistlandi, Slóvakíu, Búlgaríu, Bosníu og á Spáni, og auk þess munu fjögur þessara liða taka þátt í Norðurlandamótinu í Svíþjóð nú eftir nokkra daga. Þar fer 60 manna glæsilegur hópur á okkar vegum – nú ekki sem litla dvergríkið í Norðurlandasamstarfinu, heldur til að verja þrjá af fjórum NM-titlum.



A-landsliðin hafa einnig í ýmsu að snúast. Bæði liðin taka þátt í Smáþjóðaleikunum í Andorra eftir mánuð, en hæst ber svo síðari umferð í Evrópukeppni karlalandsliða þar sem við þurfum að sigra Dani hér heima og Rúmena ytra í haust. Þar verða sannarlega stórleikir á ferð – og þvílíkur leikmannahópur sem við höfum úr að velja.

Og talandi um leikmannahóp. Mikið úrval íslenskra leikmanna leikur nú á erlendri grundu – líklega fleiri en nokkru sinni fyrr. Í kringum 20 íslendingar leika nú sem beinir og óbeinir atvinnumenn í körfuknattleik beggja vegna Atlantsála, og hápunktur þess var eflaust þegar Jón Arnór Stefánsson var valinn til að leika í stjörnuleik Evrópu nú í apríl, eftir að hafa átt stórkostlegt tímabil og vera meðal hæstu manna í kjöri Íþróttmanns ársins hér heima í desember.

En svo kom veturinn…

Ég leyfi mér að fullyrða að mótahald síðasta vetrar var eitt hið glæsilegasta um margra ára skeið. Ný félög hafa á undanförnum árum hleypt nýju lífi í deildakeppni efstu deilda, og blásið var á úrtölur um sífellda fækkun áhorfenda á kappleikjum. Flest félög sýndu þar að veldur hver á heldur. Óvenju mikill fjöldi leikja var vel sóttur, og úrslitakeppnin var – annað árið í röð – glæsilegur vitnisburður um starf ykkar félaganna á því sviði. Höfum við tvímælalaust tekið forskot á keppinauta okkar á því sviði.

Ekki má gleyma alþjóðlegri keppni félagsliða, en vart verður fundinn betri mælikvarði en samanburður við aðrar þjóðir þegar kemur að því að meta framfarir í íslenskum körfuknattleik. Sá mælikvarði sýnir sömu niðurstöður og landsliðssumarið 2004, þ.e. við höfum sannarlega bætt okkur í þeim samanburði.

Lið Keflavíkur sigraði á NM félagsliða í Noregi, og á sama tíma sigraði lið Njarðvíkur á öðru sambærilegu móti í Danmörku þar sem þeir lögðu hið geysisterka lið Bakken Bears að velli. Í kvennaflokki var einnig lagst í víking, þar sem lið Keflvíkinga fór á mót í Danmörku, og viti menn – þær fóru þar með sigur af hólmi.

Og auðvitað má ekki gleyma þátttöku Keflvíkinga í Evrópukeppninni, sem í senn hefur verið ánægjuleg uppfylling vegna breytingar á landsliðsdagatali í alþjóðlegum körfubolta samhliða eftirtektarverðum árangri annað árið í röð. Forseti franska sambandsins ræddi sérstaklega við mig um málið erlendis í vetur, og reyndi að gera mér grein fyrir þeim aðstöðu- og fjárhagsmun sem er t.d. á liði í efstu deild í Frakklandi og litlu liði frá Íslandi – sem þó sigraði bæði heima og heiman.

Fjölmiðlaumfjöllun um körfuknattleik hefur aukist í vetur. Um þetta liggja fyrir hlutlægar upplýsingar. Mánaðarleg mappa frá Miðlun hf. um blaðaúrklippur hefur þykknað töluvert, og fjöldi beinna útsendinga hefur ekki verið meiri í nokkur ár, eða á þriðja tuginn. Þessu til viðbótar er svo regluleg og góð umfjöllun í fréttatímum ljósvakamiðla og síaukin umfjöllun á nýjasta miðlinum – netinu, sem fer vaxandi ár frá ári – ekki síst í gegnum heimasíðu KKÍ.

Við verðum seint ánægð með magn eða gæði fjölmiðlaumfjöllunar – en meta ber engu að síður það sem vel er gert. Viljum við þakka ánægjuleg samskipti við fjölmiðla á nýafstöðnu keppnistímabili og vonumst eftir því að augu fleiri íslendinga hafi opnast fyrir þeirri stórkostlegu skemmtun sem körfuknattleikurinn sannarlega er.
Liðið starfsár fól í sér tvenn framkvæmdastjóraskipti hjá sambandinu – eftir að hafa búið yfir stöðugleika í formi Péturs Hrafns Sigurðssonar um 17 ára skeið. Berlega kom í ljós hversu mikil verðmæti búa í slíkri reynslu og slíkum stöðugleika.

Núverandi framkvæmdastjóri sambandsins, Hannes Birgir Hjálmarsson, er vonandi kominn til að vera. Honum var sannarlega hent út í djúpu laugina í ágúst s.l. og hefur vart fengið að stinga höfði upp úr vatninu síðan þá. Samstarf okkar hefur verið með miklum ágætum, og hann býr – auk þess að þekkja vel til í körfuboltaheiminum – yfir mörgum góðum kostum. En ég leyfi mér samt að fullyrða að yfirstandandi starfsár er það langerfiðasta á mínum ferli, ekki síst vegna aukinnar ábyrgðar vegna nýtilkomins reynsluleysis á skrifstofu sambandsins.

Nálægt 4000 e-mail skeytasendingar bera nokkurn vott um það annríki, þar af hátt á þriðja þúsund við Hannes Birgi. Þetta gera u.þ.b. 20 skeyti á dag að meðaltali auk ótal funda og símtala, og ljóst má vera að ég mun ekki treysta mér í gegnum annan slíkan vetur.

Það er hinsvegar orðin staðreynd í okkar sívaxandi starfsemi að skrifstofa KKÍ er undirmönnuð um sem nemur 1,5 – 2 stöðugildum – hvorki meira né minna. Þetta er einfaldlega staðreynd, og nægir þar að líta til annarra sambærilegra sérsambanda með svipað umfang hérlendis – sem og körfuknattleikssambanda í nágrannalöndunum.

KKÍ rekur eitt umfangsmesta mótahald hér á landi. Það er raunar með ólíkindum hversu viðamikið og hnökralítið starfið er með þeim takmörkuðu úrræðum sem til boða standa. Munar þar talsvert um skilvirkt sjálfboðastarf stjórnar og nefnda. Vil ég sannarlega færa öllum þeim aðilum mínar bestu þakkir fyrir veturinn.

Töluverð vinna fer ávallt fram á vegum sambandsins sem ekki er á yfirborðinu eða hinum almenna félagsmanni ljós, og lýtur að því að treysta varanlega tekjupósta sambandsins. Hefur KKÍ þannig verið virkur þátttakandi í umræðu og fundum gagnvart ríkisvaldinu um erfiða fjárhagslega stöðu sérsambanda ÍSÍ, og einnig sambærilegri vinnu á vettvangi FIBA Europe.

Við höfum á undanförnum áratug getað stært okkur af talsverðum stöðugleika í fjármálum, og reynt að sýna mikla ábyrgð í fjárhagslegum rekstri. Hinsvegar hefur ytra umhverfi orðið æ óhagstæðara, og samkeppni um stóra sponsorsamninga og sjónvarpssamninga orðið óhagfelldari með hverju árinu sem líður.

Eftir að hafa byggt upp öflugt og stöðugt fræðslu-, ungmenna- og landsliðsstarf á undanförnum árum blasir nú einfaldlega við hrun ef ekki skapast ný úrræði. Alltof erfiðlega hefur gengið að láta stjórnmálamenn þessa lands færa glansorð sín á tyllidögum í framkvæmd þegar kemur að lágmarksfjármögnun fyrir hið ómetanlega forvarnarstarf sem íþróttahreyfingin á Íslandi vinnur á hverjum einasta degi. Er það ríkisvaldinu til skammar hvernig á þeim málum hefur verið haldið.

Rétt er að taka þó fram – svo alls sannmælis sé gætt – að viðhorfsbreyting hefur orðið við úthlutun afreksstyrkja á vegum ÍSÍ. Ekki er lengur notuð copy/paste aðferðin þar sem erfiðara virtist að komast af styrkjum heldur en á þá – og sömu 3-4 sérsamböndin átu upp 80-90% styrkjafjárhæðanna ár eftir ár. Nú fer fram efnislegra mat á stærð og umfangi íþróttagreinanna samhliða því að eigin hlutur sérsambandanna við afreksstarf er metinn. Hefur margra ára barátta KKÍ í samstarfi við önnur vanmetin sérsambönd þar skilað sér með málefnalegri sanngirni.

---

Að lokum…aðeins á persónulegri nótum…

Á tveggja ára fresti þarf ég að standa frammi fyrir fjölskyldu minni og meðeigendum í fyrirtæki mínu og velta upp þeirri ákvörðun hvort bæta eigi við tveimur árum til viðbótar í sjálfboðaliðsstörfum fyrir körfuknattleikshreyfinguna.

Í ár er ég að ljúka fyrra ári núverandi kjörtímabils – og stend því í raun ekki frammi fyrir slíkri ákvörðun að sinni.

Næsta ár verða liðin 10 ár frá því ég tók við formennsku í þessu sambandi sem ég ann svo heitt – og 16 ár frá því ég kom inn í stjórn.

Það líður varla sá dagur að ég spyrji mig sjálfan ekki hvað ég sé að gera hér, og hvort ég hafi örugglega eitthvað nýtt fram að færa – eða jafnvel hvort ég sé að verða fyrir – hvort ég sé orðinn staðnaður og standi framþróun hreyfingarinnar jafnvel fyrir þrifum.

Önnur spurning er alltaf aldurinn – þótt ég sé enn sem komið er yngri heldur en forveri minn var þegar hann tók við formennsku, sem hann þó gegndi í átta ár samfleytt. Aldur er því afstæður í þessu samhengi – og starfsaldur líka. Ég held raunar að stöðugleiki að þessu leyti sé vanmetinn þáttur í árangri.

Niðurstaðan er þrátt fyrir allt sú að hér er ég enn – eflaust fyrst og síðast fyrir ykkar traust, hvort sem ég hef staðið undir því eða ekki. Og það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þegar framlengingarhugleiðingar mínar á tveggja ára fresti skjóta upp kollinum þá er það einmitt fyrst og síðast þeir yndislegu samferðarmenn mínir innan hreyfingarinnar sem hafa auðveldað mér ákvörðun um að halda áfram.

Þið þurfið því líklega að verða leiðinlegri svo þið losnið við mig…

En það er þó alls ekki vegna þess – en ég hef að vel íhuguðu máli ákveðið að komandi starfsár verði að öllum líkindum mitt síðasta sem formanns KKÍ, og hyggst ég að öllu óbreyttu ekki gefa kost á mér til endurkjörs á næsta ársþingi 2006.

Ég vil nota þetta tækifæri nú til slíkrar yfirlýsingar svo hreyfingunni gefist hóflegt svigrúm fram að næsta þingi til að finna einhvern skemmtilegri í starfið. Það ætti varla að vera erfitt.

En ég er engan veginn að kveðja hér og nú – framundan er vonandi annasamt og starfssamt þing, og í framhaldi þess enn eitt viðburðarríkt starfsár.

Um leið og ég þakka samstjórnarmönnum mínum og starfsmönnum skrifstofu KKÍ fyrir ánægjulegan vetur óska ég þingheimi gæfu í sínum störfum þessa helgi.

Takk fyrir.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Fremst Friðrik Stefánsson, Brynjar Bergmann og Axel Nikulásson.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið