© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
15.4.2005 | Ólafur Rafnsson
ÑOH ĆTeΦaHCCOH
Ætla mætti að tölvuvírus hafi komist í fyrirsögn pistilsins. Svo er ekki. Hér er um að ræða rússnesku leturgerðina á nafni eins virtasta leikmanns þar í landi – leikmanns sem við þekkjum betur undir nafninu Jón Arnór Stefánsson – leikmanns nr. 9 hjá liði Dynamo í Pétursborg.

Það er auðvitað verið að bera í bakkafullan lækinn að mæra pilt fyrir körfuboltalega getu á þessum vettvangi hér. Þetta vita allir Íslendingar sem á annað borð hafa lágmarks áhuga á þjóðmálum og íþróttum. En munurinn er sá að þetta veit líka stór hluti heimsbyggðarinnar – fleiri en ég hygg að margir hér heima geri sér grein fyrir.

Þegar Jón Arnór gerði samning við Dallas Mavericks árið 2003 þá leiddi ég að því líkum að hann hafi við það orðið þekktasti íþróttamaður Íslands frá upphafi á heimsvísu. Þetta rökstuddi ég með því að það sé þvílíkur fjöldi sem fylgist með öllum leikmönnum deildarinnar fyrir tilstilli Internetsins um allan heim – enda er körfuknattleikur ein útbreiddasta og fjölmennasta íþróttagrein í heimi með 450 milljón iðkendur, og margfaldan þann fjölda sem fylgist með af áhuga.

Ég var ekki bara stoltur – heldur rígmontinn – af því að fylgjast með útsendingu Sýnar í gær frá stjörnuleik Evrópudeildar FIBA, þar sem þessi frækni sonur Íslands var ekki einungis valinn í hóp bestu leikmanna Evrópudeildar FIBA heldur var ljóst að honum var ekki ætlað hlutverk statista. Aldeilis ekki. Hann var í byrjunarliði, og í lokaleikhlutanum var honum ætlað stórt hlutverk.

Jón Arnór var eini Vestur-Evrópubúinn í leiknum, og jafnframt sá yngsti í sínu liði. Hann sýndi okkur stórskemmtilega takta – og öll fyrirgáfum við honum stöku mistök líka – og hann varð í hópi stigahæstu leikmanna leiksins með 10 stig.

Þótt ávallt sé erfitt að fullyrða, virðist vera að Jón Arnór hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann lagði meiri áherslu á að fá spilatíma til að þroska leik sinn með því að fara til Dynamo St. Petersborg, fremur en að vera í aukahlutverki í frægustu deild í heimi. Sú deild hefur án efa ekki gleymt honum, og er ekki ólíklegt að hann geti sjálfur átt val um það hvort hann snýr aftur þangað þegar hann er reiðubúinn.

Síðastliðna helgi fékk ég ánægjulegt símtal frá gömlum félaga – Axeli Arnari Nikulássyni – sem staddur var í Moskvu og var mjög óðamála. Hann hafði farið á leik til að sjá Jón Arnór spila. Sagði hann piltinn hreint út sagt hafa átt frábæran leik og væri alger lykilmaður hjá liði sínu, og hafi átt verulegan þátt í að snúa leiknum. Ekki bara það að ég taki mark á manni eins og Axeli, heldur er þetta í fullu samræmi við Evrópska körfuboltasamfélagið sem valdi Jón Arnór í stjörnuleik álfunnar.

Ekki má gleyma því að einn mesti vaxtarbroddur í körfuknattleik í Evrópu er einmitt í Rússlandi, hátt í 200 milljón íbúa ríki, og deildarkeppnin þar geysilega sterk – auk þátttöku Dynamo liðsins í keppni FIBA Europe League þar sem liðið er enn taplaust, og leikur til úrslita í lok mánaðarins. Ekki yrði nú amalegt ef bæði Jón Arnór og Eiður Smári yrðu Evrópumeistarar sama vorið í tveimur af stærstu íþróttagreinum álfunnar – já og jafnvel Óli stóri bróðir líka. Kveðið hafa skáld um minni árangur.

Við hljótum að vera full tilhlökkunar að fá að sjá Jón Arnór leika með íslenska landsliðinu á komandi sumri.

Ólafur Rafnsson
Formaður KKÍ.






Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Valur Sigurðsson leikmaður Fjölnis í baráttu við Hörð H. Hreiðarsson leikmann FSU í úrslitaleik unglingaflokks karla í apríl 2006.  Myndin lítur í raun verr út en raun er.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið