© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
13.4.2005 | Ólafur Rafnsson
Nýtt ævintýri?
Menn þurfa vart að vera orðnir háaldraðir til þess að gera sér grein fyrir þeim uppgangi sem orðið hefur í körfuknattleik í meistaraflokki karla á Íslandi undanfarna tvo áratugi eða svo. Hefðin byrjaði með rótgrónum viðureignum Reykjavíkurfélaganna fram á 9. áratug síðustu aldar, en þá tók við “öld” Suðurnesjaliðanna.

Hinsvegar eru – einkum á síðustu 15 árum – nokkur dæmi um árangur smærri sveitarfélaga sem hafa náð athyglisverðum árangri í deild hinna bestu, og duglegir stjórnendur hafa náð að skapa þvílíka stemmningu fyrir körfuknattleik að viðkomandi sveitarfélag hefur vart snúist um annað.

Hófst þessi þróun e.t.v. þegar samfelld vera UMFT á Sauðárkróki hófst í úrvalsdeild, en í kjölfarið fylgdu staðir sem hafa náð að byggja upp “körfuboltaæði” og í flestum tilvikum viðhaldið þeim árangri. Má þar nefna Grindavík, Borgarnes, Ísafjörð, Stykkishólm og Hveragerði sem góð dæmi um þetta.

Ýmsir aðrir staðir hafa komið upp til skemmri tíma – svo sem Akranes, Þorlákshöfn og Garðabær – þar sem enn er verið að vinna gott uppbyggingarstarf þótt ekki séu meistaraflokkar í efstu deild. Þar geta í raun ekki allir verið í einu. Rétt er að taka fram að Akureyri á vitaskuld heima hér í upptalningu – líkt og t.d. Kópavogur og Hafnarfjörður – en þessi sveitarfélög teljast vart smá í þessum samanburði, en þar er þó verið að vinna afar gott starf engu að síður. Svo eru a.m.k. einhver Reykjavíkurfélaganna að eflast verulega, svo líklega má með sanni segja að sjaldan hafi ríkt jafn mikið jafnvægi milli þessara þriggja “svæða”, þ.e. landsbyggðar, höfuðborgar og Reykjanessvæðis og einmitt nú.

Auðvitað er hér ótalið virkilega skemmtilegt uppbyggingarstarf sem á sér stað í fleiri byggðakjörnum á landsbyggðinni, bæði í kvenna- og karlaflokkum. Ég vona að ekki sé á neinn hallað þótt hér sé minnst á t.d. Vestfirði, Vík í Mýrdal, Flúðir, Vestmannaeyjar o.s.frv. Raunar eru bæði 2. deild kvenna og karla að ýmsu leyti að springa úr grósku á fjölmörgum svæðum.

Austurland hefur gjarnan reynst okkur erfitt til uppbyggingar, þrátt fyrir kröftugt starf frumherja þar. Það hljóta því að vera gleðitíðindi út frá sjónarmiðum útbreiðslu íþróttarinnar um landsbyggðina að Höttur á Egilsstöðum hafi nú tryggt sér sæti í deild þeirra bestu – eftir býsna langa viðdvöl í 1. deildinni.

Ef marka má fregnir af stemmningu í viðureign liðsins gegn Val á dögunum virðist sem hér sé að fæðast nýtt körfuboltaævintýri sem vert er að merkja vel við á landakortinu – og vona má og vænta að Flugfélag Íslands sjái sér nauðsynlegt að endurskoða ferðaáætlanir til Egilsstaða af öðrum orsökum en virkjanaframkvæmdum.

Ég vil nota tækifærið og bjóða Hattarmenn velkomna í Intersportdeildina, og óska þeim og bæjarbúum alls hins besta í þeirri baráttu sem framundan er. Ég vonast til þess að okkur beri gæfa til þess að nýta þetta tækifæri sameiginlega til frekari uppbyggingar körfuknattleiksíþróttarinnar á Austurlandi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Körfuknattleiksið Gaggó Vest veturinn 1958-1959. Í liðinu eru nokkrir frægir kappar sem létu að sér kveða í körfuboltanum næstu árin.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið