© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
5.4.2005 | Ólafur Rafnsson
Heilbrigður rígur
Nú standa yfir lokaúrslitaviðureignir í efstu deildum karla og kvenna. Slíkum rimmum fylgir gjarnan verulega aukið spennustig allra sem að málum koma, hvort heldur um er að ræða leikmenn, áhorfendur, þjálfara eða aðstandendur liða.

Rígur liða sem komin eru í efsta lag mótapýramídans er ofureðlilegur. Allt er undir – og uppbyggð spenna og tilfinningaþrungin samkennd vetrarins brýst út samhliða allt að því þjóðerniskenndri hollustu við sitt félagslið eða sveitarfélag. Þetta eru sömu jarðfræðilegu spennulögmál og mynda jarðskjálfta. Hér þarf því að stíga varlega til jarðar – í orðsins fyllstu merkingu.

“Heilbrigður” rígur, glettnisleg skot á milli liða og áhangenda þeirra, er gjarnan til þess fallinn að auka áhuga fyrir leiknum. Þjálfarar og leikmenn byggja sig upp andlega með hópefli og samstöðu sem getur endurspeglast í kokhraustum yfirlýsingum á opinberum vettvangi. Ég treysti þeim hópi til þess að vinna faglega að þeim aðdraganda leiksins – og láta raunverulegu átökin fara fram innan vallar samkvæmt þeim reglum sem þar gilda.

Áhangendur liðanna eru sundurleitari – og gjarnan inn á milli óagaðri – hópur. Við höfum upplifað stórskemmtilegar trommusveitir og syngjandi hvatningarkóra. Stemmning myndast í rútuferðum og skátalegri samkennd klukkutíma fyrir leiki. Gaman er að sjá gagnkvæma virðingu andstæðra fylkinga þrátt fyrir ríginn, virðingu fyrir umgjörð og kynningu heimaliðsins og kappið um að hvetja sem mest og hæst í leiknum sjálfum. Raunar er sér á parti samband áhorfenda við einstaka leikmenn, og ætla ég mér ekki að fjalla hér um platónskt ástarbrall þeirra Torfa og Nicks.

En auðvelt er að missa fótanna yfir í persónubundið níð og skítkast þegar einstök skemmd epli gleyma sér um stund. Árásir á dómara og leikmenn – jafnvel eigin leikmenn – eru nokkuð sem dregur sannarlega úr skemmtanagildi viðburðarins. Spennustigið getur leitt til þess að jafnvel hinum ábyrgustu mannvitsbrekkum verður fótaskortur á velsæminu. Ég skora á áhangendur allra liða að sameinast um að leiðbeina ungum eða óþroskuðum sálum sem kunna að misskilja gálgahúmor hins heilbrigða rígs.

Öllum má ljóst vera að áreitisskilaboð – jafnvel hótanir – með sms skeytum eða símtölum falla engan veginn undir heilbrigðan ríg. Ég veit að aðstandendur allra félaga vilja útrýma slíku, og ég tel fráleitt að væna félög um að standa að slíku. Þvert á móti hygg ég að félögin eigi samstarf um að beina slíkum aðilum á réttar brautir.

Aðstandendur liðanna – stjórnarmennirnir – virðast hinsvegar vera sá hópur sem svitnar ekki hvað síst í lófunum þegar hitna tekur á leikvellinum. Starf vetrarins, fjármálin, framtíðin og æran virðast öll lögð undir á einu bretti eins og í fjárhættuspili. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem sjaldnast sést sitjandi á kappleikjum – og þá er ekki einungis átt við vegna starfa þeirra við umgjörð leiksins – stjórnarseta hjá úrslitaliðum er allt að því masókískt adrenalínkenderí.

Eins merkilega og það hljómar þá eru leikmennirnir sjálfir gjarnan yfirvegaðasti hópurinn. Vera kann að skýringin sé að hluta til sú að þeir hafa jú örlög og úrslit talsvert í eigin höndum. Þó verða ávallt einhverjir leikmenn – gjarnan í yngri og óreyndari kantinum – sem verða áberandi taugaveiklaðri en hinir reyndari á ögurstundu.

Ég vona að öll liðin í lokaúrslitunum beri gæfu til þess að nýta þá orku sem felst í rígnum og taugaspennunni með jákvæðum hætti, og skapa kröftuga og skemmtilega viðburði sem heilla mun almenning. Gætum þess að láta kraftinn ekki draga okkur niður í svað sem menn munu í sögunni minnast með biturð og eftirsjá.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Richard Stokes, fyrrverandi FIBA dómari, kom hingað til lands haustið 2006 og hélt m.a. fyrirlestra á haustfundi dómara í Reykjanesakademíunni.  Sigmundur Már Herbertsson virðist þó ekki alveg á því að eftirláta honum boltann.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið