© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
   
30.3.2005 | Ólafur Rafnsson
Tjáningarfrelsi
Gamalt kínverskt máltæki segir að tjáningarfrelsið sé manninum sjaldan eins mikilvægt og þegar menn slá á fingur sér með hamri. Djúp speki þar. Ég er hinsvegar ekki frá því að sá sem þessa speki samdi hafi ekki verið viðstaddur úrslitakeppni í íslenskum körfubolta.

Nú er það svo að þegar menn slá á fingur sér með hamri eiga sumir það til í sársauka sínum að bregðast reiðilega við og finna ýmsa sökudólga. Naglinn var ónýtur, hamarinn skakkur eða viðurinn hreinlega gallaður – bannsett byggingavöruverslunin. Flest gera menn annað en að viðurkenna eigin klaufaskap. Þetta er án efa mannlegt.

Ekki skánar skapið við það að menn séu að vinna að smíðavinnunni undir pressu, og stress og flýtir átti hlut að “vinnuslysinu”. Jæja, hafi menn ekki þegar áttað sig á samlíkingunni þá var hluti erindisins að þessu sinni að vekja athygli á þeim mannlega ágalla að leita gjarnan skýringa ófara sinna á röngum stöðum í íþróttakappleik.

Vinsælasta – en jafnan ómálefnalegasta – orsökin sem menn leita uppi eru dómarar leiksins. Þeir liggja vel við höggi, eru stöðugt að taka erfiðar ákvarðanir sem vinsælt er að reiðast – ekki síst ef maður er að tapa leiknum. Verst af öllu er þó sú staðreynd að dómarar leiksins geta sjaldnast borið hönd fyrir höfuð sér.

Íþróttahreyfingin hefur í kappleikjum sett sér takmarkaðri reglur tjáningarfrelsis en stjórnarskrá lýðveldisins gerir beinlínis ráð fyrir. En þrátt fyrir stöðuga óumbeðna ráðgjöf leikmanna og þjálfara við dómara leiksins virðast þessir aðilar – með fáum undantekningum – halda sig innan marka reglukerfisins.

Utanaðkomandi aðilum – svo sem áhorfendum – er hinsvegar gjarnara að líta til undantekninganna, sem vissulega eru meira áberandi, heldur en til vanmetins þáttar dómara í því að halda regluverkinu gangandi. Þessi staðreynd endurspeglar e.t.v. prýðilega hvernig samfélag okkar væri án laga og reglna – eða ef sumir þátttakendur væru að mestu leyti undanþegnir lagareglum, líkt og áhorfendur íþróttakappleikja eru í reynd að því er varðar íþróttaleg viðurlög.

Á hinn bóginn get ég vart látið hjá líða að nefna hér ákveðna þróun sem orðið hefur varðandi þjálfara. Flestir þeirra eru orðnir afar meðvitaðir um mörk tjáningarfrelsis leiksins og nýta sér það óspart allan leikinn – og fara jafnvel viljandi yfir mörkin þegar svo ber undir. Hinsvegar ber að hrósa því sem í flestum tilvikum virðist vera orðin framþróun að því leyti að leikslokum virðast flestir betri þjálfarar hafa þroska til þess að þakka dómurum af virðingu fyrir leikinn, og jafnframt að nota þá ekki sem blóraböggul í fjölmiðlum fyrir tapi. Slíka þróun ber að virða.

En aftur að dómurunum. Ég verð að segja eins og er að eftir að hafa fylgst með flestum leikjum í úrslitakeppninni er viss aðdáun á störfum dómaranna ofarlega í huga. Fáir gera sér grein fyrir því hversu mikið samskiptaálag hvílir á þeim samhliða því að þurfa stöðugt að taka erfiðar ákvarðanir – á sekúndubrotum.

Í miklum spennuleikjum virðist í mörgum tilvikum nánast engu máli skipta hver ákvörðun dómaranna er – tilfinningahiti dómararáðgjafanna á áhorfendapöllunum ræðast ekki af málefnalegu og yfirveguðu mati á aðstæðum. Alltaf er einhver sem mótmælir ákvörðuninni. Slíku fylgir mikið álag. Dómararnir eru í reynd einu aðilarnir í húsinu sem ekki geta sigrað leik ef þeir standa sig vel – einungis tapað ef illa gengur.

Það er óneitanlega athyglisvert að fylgjast t.d. með beinum útsendingum þar sem umdeildar ákvarðanir dómara koma til skoðunar í síendurteknum og hægum endursýningum – hversu ótrúlega oft dómararnir höfðu án slíks hjálparbúnaðar tekið rétta ákvörðun á örskotsstundu. Samt mótmælir hálfur salurinn eins og slegið hafi verið með sleggju á fingurinn.

Reglulega lendi ég í því að ræða og verja störf dómara. Það er einkum tvennt sem stendur upp úr í slíkum viðræðum. Annarsvegar er það ótrúlegur vilji sumra til þess að hafa neikvæða afstöðu til dómarastéttarinnar, og hinsvegar það hversu miklar ranghugmyndir menn hafa um undirbúning og störf dómarastéttarinnar. Þar virðist þurfa að koma til aukið upplýsingastreymi og opinber fræðsla.

Ekkert okkar er hafið yfir málefnalega gagnrýni. Við getum ávallt bætt okkur, og þurfum að standa sameiginlega að stöðugri þróun dómaramálefna, því þarna er um að ræða ómissandi hlekk í framkvæmd kappleikja. Sú þróun verður ekki með misbeitingu tjáningarfrelsisins. Ég get fullyrt að dómarar eru einbeittur hópur einstaklinga sem ýmsir geta tekið sér til fyrirmyndar varðandi samviskusemi og metnað.

En svo litið sé jákvæðar á málin þá hefur stundum verið sagt að leikmaður sem gerir jafn fá mistök og dómari í venjulegum leik megi vera ánægður með dagsverkið. Ef við getum ekki verið ánægðir með kofann sem við smíðuðum vegna eins bólgins fingurs þá er kannski ástæða til að snúa sér að öðru – nú, eða þá að nota bara skrúfjárn og skrúfur…

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Helgi Jóhannsson leikmaður ÍR var frægur fyrir húkkskot sín
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið