© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
 
7.2.2005 | Halldór Halldórsson
Dómstóll KKÍ - Mál 1/2005
Ár 2005, mánudaginn 7. febrúar er dómþing dómstóls Körfuknattleiks-sambands Íslands háð af Halldór Halldórssyni formanni dómsins.

Fyrir er tekið:
Mál nr. 1/2005
Héraðssambandið Hrafna-Flóki
gegn
Íþróttabandalagi Akraness
Í málinu er kveðinn upp svofelldur

DÓMUR.
I
Mál þetta er móttekið af skrifstofu KKÍ 13. janúar sl. og gögn málsins send formanni dómsins með símbréfi sama dag. Kærandi er Héraðssambandið Hrafna-Flóki, Aðalstræti 5, Patreksfirði. Kærði er Íþróttabandalag Akraness, Höfðabraut 5, Akranesi.
Dómsformaður ákvað að málið skyldi sæta meðferð skv. 8. gr. laga um dómstól KKÍ.
Dómkröfur.
Kærandi krefst þess, að úrslit leiks milli hans og kærða í 2. deild meistaraflokks karla sem fram fór laugardaginn 8. janúar sl. verði dæmd ógild og honum dæmdur sigur í leiknum.
Kærði krefst þess aðallega að úrslit leiksins verði látin standa en til vara að leikurinn verði leikinn að nýju.
Eftirtalin skjöl hafa verið lögð fram í málinu. Nr. 1 kæra. Nr. 2 leikskýrsla leiks.
II
Dómari málsins leitaði eftir afstöðu kærða sem taldi óþarft að skila greinargerð heldur gerði framangreindar kröfur munnlega.
Sem rökstuðning fyrir kröfum sínum vísar kærandi til 22. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót þar sem fram kemur að þegar lið sendi B-lið til keppni í II deild sé sjö leikjahæstu leikmönnum A-liðs hverju sinni ekki heimil þátttaka með B-liði. Séu tveir eða fleiri leikmenn með jafn marga leiki í 7. sæti í mfl. karla A-liða, er ekki heimilt að nota einn þeirra með B-liði. Kærandi heldur því fram að kærði hafi í umræddum leik notað tvo leikmenn sem voru á meðal sjö leikjahæstu leikmanna A-liðs kærða og þannig hafi lið kærða verið ólöglega skipað.
III
Niðurstaða.
Í málinu hefur verið lagður fram listi yfir leiki leikmanna kærða með A-liði hans. Þar kemur fram að þegar umræddur leikur fór fram höfðu þrír leikmenn leikið níu leiki, tveir átta og fjórir höfðu leikið sjö leiki og voru þannig jafnir í sjötta til níunda sæti.
Niðurstaða máls þessa veltur á túlkun á 22. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót. Í greininni kemur fram að þegar félag sendir B-lið til keppni þá sé því óheimilt að nota sjö leikjahæstu leikmenn A-liðs hverju sinni. Síðan kemur fram að þegar einn eða fleiri leikmenn séu jafnir í sjöunda sæti sé óheimilt að nota einn þeirra. Þetta ákvæði verður ekki skilið á annan veg en þann að alltaf sé óheimilt að nota sjö leikjahæstu leikmenn A-liðs hverju sinni en aðrir leikmen séu gjaldgengir með B-liði. Hér háttar svo til að fjórir leikmenn voru á þeim tíma sem leikurinn fór fram jafnir, hvað varðar leikjafjölda með A-liði kærða, í sjötta til 9 sæti þeir, Böðvar Björnsson, Jón Þ. Þórðarson, Oddur H. Óskarsson og Sveinbjörn Ásgeirsson. Böðvar og Oddur tóku þátt í umræddum leik en Jón og Sveinbjörn ekki. Félagi í sjálfsvald sett hvaða leikmann eða leikmenn það kýs að nota ekki þegar einn eða fleiri eru jafnir í sjöunda sæti. Með því að Jón og Sveinbjörn voru ekki í leikmannahópi kærða urðu þeir leikmenn númer sex og sjö yfir leikjahæstu leikmenn A-liðs kærða en þeir Böðvar og Oddur urðu þá númer átta og níu. Með því að nota ekki sjö af leikjahæstu leikmönnum A-liðs hefur kærði uppfyllt ákvæði nefndrar 22. gr. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfum kæranda og skulu úrslit leiksins standa óbreytt.
Halldór Halldórsson formaður dómstóls KKÍ kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.

DÓMSORÐ.
Kröfu kæranda, Héraðssambandsins Hrafna-Flóka er hafnað. Úrslit leiks Héraðssambandsins Hrafna-Flóka og Íþróttabandalags Akraness, sem fram fór laugardaginn 8. janúar sl. skulu standa óbreytt.

Halldór Halldórsson.

Dómurinn er sendur til KKÍ í tölvupósti og skrifstofu sambandsins falið að birta dóminn fyrir aðilum. Dóminn skal birta á heimasíðu KKÍ í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um dómstóla KKÍ.



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
KR · Íslandsmeistarar í Unglingaflokki kvenna 2009
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið