© 2000-2023 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
       
19.10.2004 | Ólafur Rafnsson
Ár körfuboltans?
Nú er keppnistímabili landsliða þriggja stærstu boltaíþróttagreinanna lokið á þessu ári. Við getum vart annað en fagnað einhverju besta sumri í sögu íslensks körfuknattleiks að því er varðar árangur landsliða okkar, en þau hafa í sumar lagt að velli þjóðir á borð við Danmörku, Pólland, Svíþjóð, Finnland, Makedóníu, Tékkland, Ungverjaland, Lettland, Belgíu, England, Rúmeníu, Eistland, Holland, Írland, Noreg, Austurríki, Lúxemborg, Möltu, Skotland og Andorra, og þar af sigrað sumar þeirra þjóða oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar.

Á sama tíma hefur árangur annarra boltagreina verið lakari en væntingar hafa staðið til á árinu 2004. Slíku fagna íslenskir körfuknattleiksmenn engan veginn - þvert á móti hygg ég að einhugur standi meðal allra sannra íþróttaáhugamanna til þess að íslensk landslið í öllum íþróttagreinum efli sameiginlegt þjóðarstolt okkar.

Íslensk körfuknattleikslandslið hafa e.t.v. í fortíðinni verið talin standa sambærilegum landsliðum í handknattleik og knattspyrnu að baki, a.m.k. ef miða má við fjárstyrki og/eða áhuga fjölmiðla og almennings. Hefur það í sumum tilvikum verið skiljanlegt en í sumum öðrum tilvikum - að okkar mati - ósanngjarnt.

Knattspyrna á Íslandi á sér hvað lengsta hefð þessara íþróttagreina, og eftirminnilegir leikir á borð við sigurinn sæta á Svíum á Melavellinum 1951 þegar Ríkharður skoraði fernu, sigur gegn A-Þjóðverjum árið 1975 þegar Ásgeir og Búbbi skoruðu eftirminnileg mörk, og leikjatvennan gegn Frökkum 1998-9 - svo nefnd séu dæmi frá hinum ýmsu tímum - eru án efa viðburðir sem sameinað hafa þjóðina meira en flest annað, og hvert mannsbarn þekkir.

Handknattleikur hefur hinsvegar komist næst þessara íþróttagreina á að komast á verðlaunapall á stórmótum - og vil ég í því samhengi algerlega leggja til hliðar gagnrýni ýmissa aðila varðandi umfang íþróttarinnar og keppnisfyrirkomulag. Sú staðreynd að engin þjóð í heiminum getur mætt örugg með sig til leiks gegn litla Íslandi er nokkuð sem er afrek hvernig sem á það er litið. Hygg ég að Ísland geti á einum tíma eða öðrum státað sig af sigri gegn öllum helstu handknattleiksþjóðum í heiminum.

En það má hinsvegar alls ekki gleymast að körfuknattleikurinn hefur einnig átt sínar stóru stundir. Við erum vissulega litlir fiskar í stórri tjörn, og þótt fyrstu árin hafi e.t.v. einkennst af því að koma í veg fyrir stórtöp þá hefur t.a.m. karlalandslið okkar engu að síður lagt A-þjóðir að velli, einkum á síðari árum. Auk þess hefur Ísland stundum verið nálægt stórum áföngum. Margir muna eftir naumu tapi gegn Króötum í Laugardalshöll árið 1998, sem þá var eitt besta landslið Evrópu, en önnur naum töp s.s. fjögurra stiga tap gegn Grikkjum í undankeppni Ólympíuleikanna árið 1992, og naumt tap gegn núverandi Evrópumeisturum Litháa í Evrópukeppninni 1995 þar sem Ísland leiddi m.a. með 20 stigum í síðari hálfleik, vöktu e.t.v. meiri athygli erlendis en hér heima.

Sú staðreynd að íslensk körfuboltalandslið hafi uppskorið sitt besta sumar frá upphafi á sama tíma og aðrar boltagreinar hafa e.t.v. ekki staðið undir væntingum (sem vissulega hafa oftar en ekki verið ósanngjarnar) leiðir ekki til þess að körfuknattleikur sé að "sigla fram úr" félögum okkar í hinum greinunum. Síður en svo - allur slíkur árangur er afar brothættur.

Hinsvegar hygg ég að ekki sé á neinn hallað þótt dregnar séu fram þessar andstæður sumarsins, og ég vonar sannarlega að þessi árangur verði til þess að allir íslenskir íþróttaáhugamenn sjái sér með sama hætti fært að samgleðjast með okkur körfuknattleiksmönnum á þessu stóra ári okkar, og að fjölmiðlar, almenningur og fjárveitingavaldshafar meti árangurinn að verðleikum líkt og gert hefur verið í öðrum íþróttagreinum.

Ég vil sannarlega - og af heilindum - óska íslenska handknattleikslandsliðinu góðs gengis í Túnis, og að íslenska knattspyrnulandsliðið komi tvíeflt til leiks í Króatíu í mars. Ég vona sannarlega að til þess að ég geti endurtekið pistil sem þennan að ári þá verði það eingöngu á þeim grundvelli að við höfum öll gert betur.

Áfram Ísland - í öllum íþróttagreinum.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá leik Vals og Hauka í Laugardalshöll árið 1983.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið