© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
28.6.2004 | Ólafur Rafnsson
Vel heppnuð heimsókn Belga
A-landslið Íslands í körfuknattleik karla hefur æft af kappi frá því að keppnistímabili lauk í apríl síðastliðnum. Í síðustu viku hófst sá hluti hins formlega undirbúnings liðsins er felst í opinberum landsleikjum - fyrir Evrópukeppni landsliða sem hefst með þremur leikjum í haust, gegn Danmörku, Rúmeníu og Azerbajan.

Voru fyrstu leikirnir gegn A-þjóð Belga, sem voru einmitt mótherjar okkar í milliriðlakeppni Evrópumótsins á árunum 1999-2001. Lutum við þá í lægra haldi í leikjunum tveimur heima og heiman, með nokkrum mun.

Leikirnir voru fyrstu opinberu landsleikir landsliðsþjálfarans, Sigurðar Ingimundarsonar, þrátt fyrir verkefni í jólaleyfinu gegn Catawba College, en þeir leikir teljast ekki til landsleikja þar sem ekki var leikið gegn formlegu landsliði undir regnhlíf FIBA.

Í leikjum þessum var ljóst að liðin myndu ekki tefla fram öllum sínum sterkustu leikmönnum, heldur einkum byggja á þeim leikmönnum sem leika heima í viðkomandi ríkjum. Vissulega vantar leikmann á borð við Eric Struelens, sem var okkur afar erfiður í síðustu leikjum okkar gegn Belgum. Þá var hann byrjunarmiðherji Real Madrid liðsins, en leikur nú með Girona í ACB deildinni á Spáni. Hann er orðinn 35 ára gamall.

Í viðtölum mínum við forráðamenn liðsins kom hinsvegar fram að 7 af leikmönnunum sem hingað komu ættu fast og öruggt sæti í liðinu í komandi leikjum Evrópukeppninnar í september, þar sem Belgar leika gegn Úkraínu, Ungverjum og Þjóðverjum, í baráttu um sæti í úrslitakeppninni í Belgrad í Serbíu árið 2005.

Lið Íslands var vissulega ekki fullskipað heldur, og hafa gárungarnir leikið sér að því að stilla upp liði úr þeim leikmönnum sem einhverra hluta vegna voru ekki með að þessu sinni. Hafa menn þar nefnt miðherja á borð við Baldur Ólafsson og Morten Szmiedovicz, sem báðir eru 208 cm. á hæð, kraftframherja á borð við Magna Hafsteinsson og Sævar Sigurmundsson (sem leikur í Bandaríkjunum). Snögga og leikna framherja á borð við Óðin Ásgeirsson og Damon Johnson. Bakverði á við t.d. Loga Gunnarsson, Gunnar Einarsson, Brenton Birmingham og Helga Jónas Guðfinnsson, svo ekki sé minnst á sjálfan NBA-leikmanninn okkar Jón Arnór Stefánsson. Ekki árennilegt lið það.

Samkvæmt framangreindu má sjá að vissulega vantar fjölmarga af leikmönnum sem mögulega myndu bætast í íslenskt landslið, en meginatriði leikjanna við Belga var þó e.t.v. sú staðreynd að bæði lið eru að hefja sinn undirbúning, reyna samsetningu mismunandi leikmanna, leikskipulags o.s.frv., og á það jafnt við um bæði lið. Spurningunni um það hvort liðið er sterkara í dag skipað sínum sterkustu leikmönnum er því ekki hægt að svara að svo stöddu.

Eftir stendur ánægjuleg og vel heppnuð heimsókn Belgíska landsliðsins, og einn ánægjulegur sigurleikur Íslands. Afar vel var staðið að skipulagningu leikjanna í Borgarnesi, Keflavík og Stykkishólmi, og vil ég nota tækifærið til þess að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn - ekki síst fulltrúum skipuleggjendanna og þeim sveitarfélögum sem að baki þeim stóðu af miklum myndarskap.

Framundan eru svo þrír heimaleikir við Pólverja í byrjun ágúst.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Fyrstu Íslandsmeistararnir fengu ekki verðlaunagrip ti eignar 1952. KKÍ færði hins vegar hverjum og einum meistaranna úr ÍKF fallegan grip mörgum árum síðar. Hér er Ingi Gunnarsson fyrirliði fyrstu meistaranna úr ÍKF með grip sinn.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið