© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
6.5.2004 | Ólafur Rafnsson
Höfuðborgarstemmning
Jæja, enn ein trílógían. Fyrir þá sem ekki hafa haft þolinmæði til að lesa fyrri pistlana þá er þessi trílógía um mismunandi aðstæður og stemmningu ólíkra landsvæða í íslenskum körfuknattleik. Að þessu sinni er það sjálft Höfuðborgarsvæðið.

Skipst hafa á skin og skúrir í starfi félaga á Höfuðborgarsvæðinu. Umgjörðin, stemmningin og áhorfendafjöldinn sem einkennir landsbyggðina er án efa aftar í röðinni, samhliða því að samanlagður árangur Suðurnesjaliðanna undanfarna áratugi skyggir á endanum á starfsemi flestra annarra liða – hvort sem menn telja slíkt gott eða slæmt.

Höfuðborgin á hinsvegar upphafsárin nokkuð óskipt. Úrslitaleikir KR og ÍR voru stórviðburðir á þess tíma mælikvarða, og síðar bættust við lið eins og ÍS, Ármann og Valur. Höfuðborgarsvæðið einfaldlega einokaði íslenskan körfuknattleik fram undir 1980, með svipuðum hætti og Suðurnesjaliðin hafa gert síðan.

Á undanförnum aldarfjórðungi hefur samsetning liða Höfuðborgarsvæðisins tekið nokkrum breytingum. Valur á að baki titla, og um skeið átti Fram sterkt lið. Haukar í Hafnarfirði komu inn í deildina fyrir 20 árum og hafa staðfest tilverurétt sinn þar æ síðan. Breiðablik í Kópavogi hefur oft komið við sögu úrvalsdeildarinnar, og á síðari árum hafa lið á borð við Stjörnuna í Garðabæ átt sæti í deildinni. Framundan má greina lið sem hafa staðið vel að uppbyggingu, eins og t.d. Fjölnir í Grafarvogi, sem munu án efa setja varanlegt mark sitt á íslenskan körfuknattleik í framtíðinni.

Um þessar mundir virðist mér sem almennt sé vel staðið að uppbyggingu félaga og liða í körfuknattleik á Höfuðborgarsvæðinu, þótt árangur í meistaraflokkum hafi í mörgum tilvikum verið rýrari en stefnt hafi verið að. Stöðugleiki hefur verið í stjórnum all margra félaga og þolinmóð uppbygging. Hlutur Höfuðborgarsvæðisins hefur verið prýðilegur í yngri flokkum undanfarin ár, og til staðar hafa verið öflugir meistaraflokkar kvenna.

Vandamál félaganna á Höfuðborgarsvæðinu eru án efa ríkari vandamál við mönnun félagsstarfa og ýmis vandkvæði við fjáraflanir, samhliða ótrúlegu og vaxandi úrvali afþreyingarmöguleika sem einkennir þessa einu “borg” landsins.

Það er mín persónulega skoðun að stjórnarstörf í félögum á Íslandi séu óvíða jafn erfið og hjá félögum á Höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem þær stöður séu ópersónulegri og menn verða jafnan ekki þekktir í samfélaginu vegna þeirra starfa, líkt og víða annarsstaðar þar sem menn geta varla snúið sér við án þess að fá klapp á öxlina og vingjarnlegt spjall um leik “heimaliðsins” framundan. Á hvoru um sig eru þó væntanlega undantekningar.

Fjáröflunarmöguleikar liða á Höfuðborgarsvæðinu eru einnig frábrugðnari en ýmsum öðrum stöðum. Fyrirtækin starfa fremur á landsvísu, og eru með svo stóran markhóp að stærri auglýsingamiðlar verða fyrir valinu. Sjaldnar er um að ræða fyrirtæki sem líta á einstök kapplið sem “sitt lið” eða fulltrúa þess samfélags sem fyrirtækið starfar í, auk þess að flest fyrirtæki á Höfuðborgarsvæðinu þurfa að marka sér knappa stefnu vegna aragrúa styrk- og auglýsingabeiðna frá hinum óteljandi félagslegu einingum sem starfa á Höfuðborgarsvæðinu.

Öll framangreind sjónarmið eru auðvitað almenn dæmi, og eiga sér undantekningar á báða vegu. Hinsvegar trúi ég því staðfastlega að með þeim mannskap sem stendur að baki körfuknattleiksdeildum á Höfuðborgarsvæðinu í dag og þeirri grunnuppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum áratug, þá muni staða Höfuðborgarsvæðisins breytast til batnaðar í náinni framtíð. Sóknarfærin eru til staðar. Mannfjöldinn er til staðar. Hér mun gilda reglan um að veldur hver á heldur.

Við skulum í sjálfu sér ekki heldur gleyma því að þrátt fyrir allt hafa nú fallið inn nokkrir titlar í efstu deildum á Höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Hjalti Jón Pálsson í leik gegn Ítalíu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið