© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
27.4.2004 | Ólafur Rafnsson
Samfélagslegt hlutverk körfuknattleiks
Í síðasta pistli var fjallað almennt um samfélagslegt gildi íþrótta, og var hann að nokkru ritaður í tilefni Íþróttaþings sem fram fór með glæsibrag um helgina. Að þessu sinni vil ég draga körfuknattleikinn út úr og fjalla um dæmi þar sem verið er að vinna vel að samfélagslegum málefnum innan körfuknattleiks í heiminum.

Körfuknattleikur er ein stærsta og útbreiddasta íþróttagrein í heimi, með u.þ.b. 450 milljón iðkendur í 220 ríkjum. Körfuknattleikur er alheimsfyrirbæri.

Um allan heim er að finna hetjur og fyrirmyndir á sviði körfuknattleiks sem hafa mikil áhrif á almenning, og þá sérstaklega ungmenni. Slíkri athygli fylgir mikil ábyrgð og í sjálfu sér miklar skyldur.

Víða hafa stjórnvöld og körfuknattleikshreyfingar á einstökum svæðum tekið saman höndum og virkjað þær jákvæðu ímyndir sem körfuknattleiksíþróttin hefur skapað, og gert íþróttina og leikmenn hennar að samfélagslegu verkfæri.

Frá markaðslegum sjónarmiðum ber bandaríska NBA-deildin höfuð og herðar yfir aðrar íþróttadeildir í heiminum. Á vegum NBA-deildarinnar er þannig lögð áhersla á að taka þátt í að uppræta samfélagsleg vandamál, og má þar einkum nefna t.d. tvö átök er nefnast “Stay in school” og “Read to achieve” og byggja eins og nöfnin benda til á því að hvetja ungmenni til að ástundamenntun og því að útrýma ólæsi í bandarísku samfélagi.

Taka leikmenn og stjörnur deildarinnar virkan þátt í átakinu með því að mæta í skóla og félagslega viðburði þar sem “ímyndir” ungmennanna sýna þeim fram á gildi menntunar og samfélagslegrar ábyrgðar.

Í Noregi hefur í nokkur ár staðið yfir athyglisvert átak er nefnist “Shut up and Play”. Nafnið er nokkuð sláandi, en er ætlað að endurspegla með ögrandi hætti viðhorf og lífstíl sem búa að baki árangi í íþróttum, þ.m.t. körfuknattleik. Skilaboðin eru þau að menn eigi að einbeita sér að því að leika leikinn sjálfan, og beri virðingu fyrir reglum og dómurum leiksins – með sama hætti og í samfélaginu.

Ein af forsendum “Shut up and Play” átaksins í Noregi var að taka á vanda sem e.t.v. er ekki jafn ríkur hér á Íslandi, en það eru kynþáttafordómar sem sköpuðu vandamál í norskum körfuknattleik í kjölfar talsverðrar fjölgunar innflytjenda um árabil í Noregi.

Bandaríkin og Noregur eru einungis tvö dæmi um hagnýtingu körfuknattleiks til að taka á samfélagslegum meinsemdum. Samfélagsleg vandamál einstakra svæða eru jafn ólík og þau eru mörg, en það sem sameinar þau er alþjóðleg uppbygging íþrótta. Sömu leikreglur og sömu grundvallarsjónarmið.

Undirritaður hefur oft í fyrri pistlum sínum lýst því yfir að samfélagslegt gildi íþrótta sé vannýtt auðlind hér á landi til að vinna á rótum félagslegra vandamála íslensks samfélags. Sú athygli, þær stjörnur og sá lífsstíll sem körfuknattleikshreyfingin býr yfir er öflugt verkfæri sem við erum boðin og búin að láta í té til afnota til uppbyggilegra samfélagslegra verkefna.

Körfubolti er fyrir alla.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Lið KR sem varð Íslandsmeistari í 7. flokki karla veturinn 1992-1993. Nokkrir leikmenn þessa flokks komust í meistaraflokk KR sem og landsliðið. Einnig urðu nokkrir þeirra þjálfarar hjá KR bæði á meistaraflokki sem og yngri flokkum.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið