© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
23.4.2004 | Ólafur Rafnsson
Íþróttir í samfélaginu
Vera kann að einhver telji sig þekkja til sambærilegrar fyrirsagnar í eldri pistlum undirritaðs - og er það mér vissulega gleðiefni ef einhverjir eru í sjálfu sér svo vel að sér í efnistökum pistlanna. Án efa er það draumsýn og óskhyggja að svo sé - og ætla ég mér ekki að setja skrif þessi á þann stall að þau séu nægilega merkileg til að breyta verulega framgangi þess sem fyrirsögnin vísar til.

Hinsvegar er tilefni þessa pistils nú tvíþættur. Annarsvegar er hann ritaður í tilefni þess að á morgun verður haldið Íþróttaþing 2004, og er ávallt hollt í tengslum við slíka viðburði að velta fyrir sér hlutverki íþrótta í samfélagi þegnanna. Í öðru lagi þá hefur orðið ýmis framþróun í þessum málaflokki síðan undirritaður hóf pistlaskrif um þau á undanförnum misserum, en í kjölfar þeirra er það mat undirritaðs að nú séu meiri sóknarfæri hérlendis á sviði samfélagslegs hlutverks íþrótta, þ.m.t. körfuknattleiks, en oft áður.

Í fyrsta lagi vil ég nefna vakningu á sveitastjórnastigi samfélagsins þar sem umræða hefur orðið um framlög til iðkunar yngstu þátttakendanna. Hafnarfjörður reið á vaðið með því að greiða æfingagjöld fyrir 10 ára og yngri, og er ég ekki í vafa um að mitt ástkæra sveitarfélag mun að fáum árum liðnum standa framar öðrum sveitarfélögum landsins að því er varðar heilbrigði, þroska og félagslega stöðu þegnanna.

Þá vil ég í öðru lagi nefna að nú um áramót tók nýr ráðherra við stjórnartaumum í menntamálaráðuneytinu, sem fer með málaflokk íþrótta innan ríkisvaldsins. Er þar um að ræða Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ég hygg að hafi meiri skilning á gildi íþrótta í samfélaginu en forverar hennar hafa haft.

Í þriðja lagi hefur verið ýtt úr vör margvíslegri þróunarvinnu innan vébanda ÍSÍ sem ætlað er að skilgreina, meta og efla samfélagslega stöðu íþrótta innan samfélagsins, og veit ég að þar eru menn að leggjast á árarnar af fullum þunga.

Í fjórða lagi voru í síðustu kosningum kosnir inn á Alþingi ungir og framsýnir stjórnmálamenn sem hafa þor og kjark til þess að fjalla af krafti um þennan málaflokk. Má þar t.d. nefna aðila á borð við Valdimar Leó Friðriksson og Guðlaug Þór Þórðarson sem dæmi, sem báðir þekkja til starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Fleiri má telja upp, en ánægjulegt er að sjá að unnt sé að mynda þverpólitíska samstöðu á Alþingi um málefni íþrótta. Íþróttir eru ekki - og eiga ekki að vera - háð flokkspólitískum viðhorfum.

Þá hygg ég að á engan framangreindan sé hallað með því að nefna til sögunnar Gunnar Örn Örlygsson. Þó ekki væri nema fyrir uppruna hans innan vébanda körfuknattleiksins - sem skemmtilegs leikmanns á sínum tíma, og ekki síður sem eins af hinum þekktu Örlygsbræðrum - þá enn frekar fyrir þá staðreynd að Gunnar Örn hefur þegar látið verkin tala og lagt fram tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi um áætlun um markmið og stefnu ríkisins í íþróttamálum til fimm ára.

Meðflutningsmenn Gunnars Arnar eru þingmennirnir Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backmann, Valdimar L. Friðriksson, Magnús Hafsteinsson, Steinunn K. Pétursdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Ég lít svo á að það sé skylda allra íþróttaunnenda að taka eftir þeim nöfnum sem sýna málaflokki þessum áhuga í verki. Ég ítreka á hinn bóginn að menn eiga ekki að setja þetta í flokkspólitískt samhengi.

Að öðru leyti vona ég að íþróttahreyfingin muni eiga ánægjulegt Íþróttaþing þessa helgina. Fulltrúar KKÍ verða á staðnum.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá leik UMFN og Hauka í Njarðvík árið 1983.  Kristinn Kristinsson og Ingimar Jónsson í uppkasti.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið