© 2000-2022 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
21.4.2004 | Ólafur Rafnsson
Starfhæf aganefnd
Eftirfarandi pistill er sá þriðji í röðinni um agareglur og málefni aganefndar KKÍ að þessu sinni. Fjallar hann um þann hluta er lýtur að skipun nefndarinnar, og einhver misskilningur virtist verða á í umfjöllun ýmissa aðila í lok keppni í Intersport-deildinni nú í vetur. Trúi ég því að nokkur vanþekking aðila hafi valdið óþarfa yfirlýsingum, og því miður virðast einhverjir hafa verið fljótir að grípa til yfirlýsinga án þess að hafa hvorki lesið viðkomandi reglugerð né leitað sér upplýsinga um staðreyndir málsins.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því með hvaða hætti aganefnd er skipuð hverju sinni. Hún er skipuð þremur aðalmönnum og þremur til vara. Tveir aðalmenn og tveir varamenn eru kjörnir á ársþingi til eins árs í senn, og stjórn KKÍ skipar svo nefndinni formann og varamann formanns. Þremur aðilum er ætlað að taka þátt í meðferð máls hverju sinni.

Í öðru lagi er mikilvægt að skilja ákvæði reglugerðarinnar um sérstakt hæfi nefndarmanna, en þar er skýrt tekið fram að hið eina sem valdi sjálfkrafa vanhæfi nefndarmanna sé ef þeir komi frá öðruhvoru því félagi sem hlut átti að máli í þeim leik sem hið kærða brot átti sér stað. Með því að engir tveir aðilar í nefndinni eru frá sama félagi á hverju sinni að vera tryggt að til staðar eru a.m.k. þrír aðalmenn auk eins varamanns er uppfylla sérstök hæfisskilyrði.

Frá setningu reglugerðar um aganefnd árið 1993 hefur nokkrum sinnum reynt á varamann vegna bæði forfalla nefndarmanna og/eða vanhæfis vegna atbeina að liði sem hlut átti að máli. Á hinn bóginn hefur ekki reynt á fleiri varamenn – a.m.k. ekki í um alllangt skeið.

Þegar upp kom mál til meðferðar aganefndar nú í nýafstaðinni úrslitakeppni reyndist formaður vanhæfur vegna tengsla við annað félagið og í ljós kom að varamaður formanns – sem hafði reynslu af meðferð mála hjá nefndinni – var erlendis þá helgina. Annar aðalmaður í nefndinni tók þá ákvörðun að lýsa sig vanhæfan í málinu þrátt fyrir að vera ekki fulltrúi annarshvors liðsins sem hlut átti að máli vegna tengsla sinna við það félag (Snæfell). Verður það að teljast í senn illfyrirsjáanlegt en að sama skapi drengilegt, því hann taldi sig ekki geta litið óhlutdrægt á málið. Þriðji aðalmaður var um það bil að stíga upp í flugvél á leið erlendis þegar hann fékk símtal frá skrifstofu KKÍ, og var því leitað var til varamanna eins og reglugerðin gerir ráð fyrir.

Þeir tveir varamenn sem kjörnir voru af ársþingi höfðu ekki reynslu af meðferð mála hjá aganefndinni – enda ekki reynt svo almennt á varamenn eins og fyrr segir. Engu að síður var þess óskað að þeir kæmu saman eins skjótt og kostur væri þrátt fyrir þá staðreynd að bæði formaður og varaformaður væru forfallaðir, enda hefði verið mögulegt að úrskurða mál með tveimur aðilum væru þeir sammála um niðurstöðu. Hinsvegar átti hvorugur hinna tiltæku varamanna átti þess kost þann daginn (á sunnudegi) vegna annríkis.

Þar sem ljóst væri að málinu yrði frestað til mánudags var þegar orðið ljóst að ekki næðist niðurstaða nefndarinnar í tæka tíð fyrir næsta leik í úrslitum Intersport-deildar þá um kvöldið var ákveðið að láta stjórn KKÍ skipa nýjan formann ad hoc (þ.e. vegna þessara afmörkuðu mála) strax morguninn eftir. Var það gert, og kom aganefnd því saman eins skjótt og kostur var – í samræmi við orðalag reglugerðar.

Það sem er mikilvægt að menn skilji í þessu samhengi er að lagaleg óvissa ríkir um atbeina stjórnar KKÍ að skipun nýrra aðila í sæti þeirra sem skipaðir eru af ársþingi sambandsins. Til slíks liggja engar skýrar heimildir, og hefði því komið upp erfið staða ef allir aðilar sem skipaðir eru af ársþinginu hefðu verið forfallaðir og/eða vanhæfir. Þar sem báðir þeir aðilar sem skipaðir eru af stjórn KKÍ í nefndina voru forfallaðir eða vanhæfir þá var unnt að fara þá leið að skipa sérstakan formann af hálfu stjórnar KKÍ í umrædd mál.

Reglugerð um aganefnd gerir ráð fyrir tilteknum fjölda varamanna, og eftir þeirri reglugerð ber KKÍ að starfa. Séu einhverjir ósáttir við það fyrirkomulag er lausnin fólgin í breytingu reglugerðarinnar s.s. með fjölgun varamanna. Enginn hefur lýst áhuga á að standa að slíkri breytingu, og engin tillaga hefur á hinn bóginn komið fram um slíkt enn sem komið er, og því verður ríkjandi ástand því óbreytt.

Fullyrðingum sem fram hafa komið um að staða þessi kunni að hafa verið “fyrirséð” er vísað á bug. Hafa verður í huga að þrátt fyrir að Intersport-deild karla sé vissulega flaggskip okkar mótahalds þá er engan veginn hægt að réttlæta sérstaka meðferð mála fyrir eina deild – a.m.k. ekki án sérstakrar lagaheimildar. Taka verður tillit til allra móta í öllum aldursflokkum. Ef einhver hefði borið upp slíka tillögu fyrr á þessu ári hefði viðkomandi án efa verið talinn haldinn einhverjum alvarlegum kvillum.

Sú hugmynd að skipa hefði átt einhverja ótiltekna aðila sem óskilgreinda varamenn í ófyrirséð deilumál fyrir aganefnd er einfaldlega fráleit og stenst engan veginn þær reglur sem stjórn KKÍ hefur verið sett að þessu leyti. Þetta hygg ég að blasi við öllum þeim sem skoða málið – nú nokkrum vikum síðar – af málefnaleika og skynsemi. Fullyrðingar um annað gefnar á sínum tíma einkenndust af tilfinningahita augnabliksins og e.t.v. nokkuð víðtækri vanþekkingu á reglunum. Tilfinningahitann skal ég fyrirgefa og skilja.

Niðurstaða mín er því sú að mál þessi hafi verið framkvæmd af þann eina mögulega hátt sem okkar reglur gefa svigrúm til. Reglur okkar byggja á því að til staðar sé nægilegur fjöldi varamanna – sem því miður dugði ekki til eina tiltekna helgi þetta vorið. Einungis einn af sex einstaklingum var formlega vanhæfur, en hugmyndir um að hinir nefndarmennirnir séu með einhversskonar tilkynningarskyldu til stjórnar KKÍ um forföll – sem að sjálfsögðu geta verið af fleiri orsökum en utanlandsferðum er í huga undirritaðs afar langsótt – sérstaklega í ljósi þess að varla hefur nokkru sinni fyrr reynt á fleiri en einn varamann í senn.

Án efa má bæta margt í störfum og starfsaðferðum stjórnar KKÍ varðandi agabrot, en við skoðun þessara tilteknu málefna fæ ég ekki annað séð en að tilfinningahiti augnabliksins hafi ráðið för öðru fremur.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá Smáþjóðaleikunum á Möltu 1993.  Albert Óskarsson í loftfimleikum í leik gegn Luxembourg.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið