© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
19.4.2004 | Ólafur Rafnsson
Agareglur
Nokkur umræða hefur verið síðari hluta vetrar um agareglur KKÍ, aganefnd og framkvæmd á þessum málaflokki. Sumir hafa kallað eftir einhverri umræðu af hálfu sambandsins. Hefur hún vissulega átt sér stað – á réttum vettvangi innan stjórnar – eftir því sem málið á annað borð lýtur að stjórninni sem slíkri.

Í raun er jafnan ekki gert ráð fyrir því að stjórn KKÍ komi að málefnum aganefndar að öðru leyti en því að skipa nefndinni formann og varamann hans. Nefndin er algerlega óháður dómstóll í sínum störfum, og má segja að ef til einhverrar efnislegrar íhlutunar hefði komið af hálfu stjórnar KKÍ þá fyrst hefðu menn haft eitthvað til að gagnrýna.

Hefur undirritaður ekki talið tilefni til að fjalla sérstaklega þessi mál opinberlega, einkum á sama tíma og úrslitakeppni stóð yfir, til að varpa ekki óþarfa skugga á þá viðburði. Tel ég eðlilegra að nú þegar tilfinningahiti einstakra atvika litar ekki afstöðu eða sjónarmið þeirra sem um málið fjalla, að menn ræði þessi mál af skynsemi. Kalla ég eftir afstöðu þeirra sem hafa áhuga á þessum málaflokki.

Ég hef raunar trú á því að fæstir þeirra sem hvað sterkustum skoðunum hafa lýst á agamálum sambandsins hafi nú nokkurn sérstakan áhuga á því að leggja í vinnu við að endurbæta þann málaflokk. Agareglur eru nefnilega því marki brenndar að menn hafa jafnan engan áhuga á þeim málaflokki nema rétt á meðan þeir standa frammi fyrir málsmeðferð eða leikbanni. Endurspeglast það e.t.v. best í því að engar tillögur eða hugmyndir hafa borist til stjórnar KKÍ á þeim atriðum sem menn kunna að telja mega betur fara – s.s. breytingum á reglugerð fyrir aganefnd fyrir komandi ársþing.

Umræða um leikbönn og agabrot voru í vetur dæmigerð dægurmálefni sem vörðuðu þrönga sérhagsmuni þeirra aðila sem hlut áttu að máli – og má jafnvel ganga svo langt að fullyrða að í einhverjum tilvikum kunni þetta að hafa verið ágætis umræða til að dreifa athyglinni frá körfuboltalegum hremmingum tiltekinna aðila – svona svipað og getur gerst með ákvörðun dómara í kappleik, sem svo eftir nánari skoðun leiðir ekkert annað í ljós en að hafi verið hárrétt. Tilfinningar í íþróttakappleikjum er nokkuð sem ég hef ritað pistla um áður, og út af fyrir sig hef ég ávallt haft skilning á þeim mannlegu eiginleikum sem búa þar að baki.

Hafa menn annars minni eða jafnvel alls engar áhyggjur af þeim agabrotum sem voru andlag þeirra úrskurða sem nefndin þurfti að kveða upp? Hafa brotin sjálf fallið í gleymsku? Afstaða þeirra félaga sem hlut áttu að máli einkenndust fremur af umfjöllun um skipun og störf aganefndar, tímasetningu úrskurða o.þ.h. – heldur en fordæmingu þeirra atvika sem ollu því ferli. Það var sannarlega ekki aganefnd sem framdi þau brot.

Ekki hefur komið fram bein gagnrýni á reglugerðina um aganefndina, enda hefur hún í sjálfu sér staðið fyrir sínu. Undirrituðum stendur hún nokkuð nærri, enda samdi undirritaður hana veturinn 1992-1993, og var hún samþykkt á ársþinginu þá um vorið eftir talsverðar umræður. Hafa síðan verið gerðar á henni smávægilegar breytingar.

Í reglugerðinni var að finna nýjungar sem ekki höfðu tíðkast þá, og má þar sem dæmi nefna að unnt er að taka á agabrotum t.d. áhorfenda og dómara, auk þess að heimild var sett til þess að dæma sjálfstætt agabrot sem t.d. nást á myndbandsupptöku og/eða dómarar leiks gátu ekki metið rétt út frá agabrotssjónarmiðum. Lögð var á það rík áhersla að ekki er ætlunin að fjalla um leikbrot eða endurmat ákvarðana dómara í leik, eins og skýrt kemur fram í greinargerð með reglugerðinni.

Þetta voru nýjungar fyrir 10-12 árum síðan, og þótt við höfum heyrt af því – einkum í knattspyrnu – að sambærilegar reglur um agabrot eftir myndbandsupptöku hafi verið innleiddar, þá hefur á þessum áratug aldrei reynt á þessar reglur hjá KKÍ, fyrr en nú í vetur, og þá tvisvar sinnum. Sjaldan er víst ein báran stök.

Hvort slíkt sé ánægjulegt þróun eða ekki fer eftir því hvaða augum menn líta á málin, þ.e. eftir því hvort menn eru að fordæma það að brot komi upp í leikjum sem þurfa slíka meðferð, eða ánægju yfir því að úrræði til að bregðast við séu til staðar. Því hefur a.m.k. ekki verið mikið hampað að við skulum þrátt fyrir allt hafa haft á að skipa svo framsýnum reglum er gáfu kost á slíkri meðferð mála.

Ég hyggst fjalla meira um agareglur næstu daga.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Sveinbjörn Classen í leik á landsmótinu með ÍBR (Íþróttabandalag Reykjavíkur) sem notaði búninga KR á mótinu. Sveinbjörn er uppalinn- og núverandi leikmaður erkifjendana í ÍR.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið