© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
 
29.1.2001 | Skapti Hallgrímsson
Kostaði mikla baráttu að stofna KKÍ
"Það kostaði mikla baráttu að fá að stofna sérsamband, því sambandsráð ÍSÍ þurfti að samþykkja þetta og sum samböndin sem fyrir voru, til dæmis Handboltasambandið, beittu sér því miður alveg sérstaklega gegn því að Körfuknattleikssambandið yrði stofnað. Þar voru menn strax hræddir við samkeppnina," segir Bogi Þorsteinsson, fyrsti formaður KKÍ í áður óbirtu viðtali við Björn Leósson frá því 1993 sem vitnað er til á fleiri stöðum í þessari bók.

Tvö helstu körfuknattleiksmót landsins, Íslands- og Reykjavíkurmótið, höfðu tekið á sig fasta mynd árið 1960 og var talsverður áhugi orðinn fyrir því að stofna sérsamband um íþróttina og eðlilegt framhald þess sem á undan var gengið.
Óskum um stofnun þess var komið á framfæri við ÍSÍ sem lét frá sér fara umburðarbréf dagsett 2. maí 1960 til sambandsaðila sinna og óskaði álits þeirra um málið.

Í Morgunblaðinu 13. maí er haft eftir Viðari Hjartarsyni formanni
Körfuknattleiksráðs Reykjavíkur að ráðið væri að vinna að stofnun
sérsambands en með tilkomu þess mætti betur ná til körfuknattleiksmanna úti á landi og sameina alla þá krafta sem vilja vinna að framgangi íþróttarinnar. Körfuknattleikur ætti stöðugt vaxandi vinsældum að fagna og þá einkum í skólum landsins,? segir í blaðinu.

Á 21. fundi sambandsráðs ÍSÍ 11. júní 1960 var lögð fram tillaga um stofnun sérsambanda í íslenskri glímu og körfuknattleik, en eftir umræður var samþykkt að aðhafast ekki meira að sinni. Mál þeirra var nokkuð rætt og niðurstaða fundarins var sú að fresta stofnun þessara nýju sérsambanda að sinni, segir í fundargerð.
En skriður komst engu að síður á málið.

Á 22. sambandsráðsfundi ÍSÍ 12. nóvember sama ár var samþykkt eftirfarandi tillaga sem Hermann Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, hafði framsögu um:
Með tilliti til þess áhuga er ríkjandi er um stofnun sérsambands fyrir körfuknattleik og fyrir liggur beiðni 7 héraðssambanda og
sérráðs um stofnun slíks sérsambands, og þar með uppfyllt grundvallaratriði um stofnun sérsambands samanb. 25. gr. laga ÍSÍ, samþykkir sambandsráðsfundur Íþróttasambands Íslands, 12. nóv. 1960, stofnun sérsambands fyrir körfuknattleik.

Eftir umræður var tillagan samþykkt samhljóða og á sama fundi var stjórn bókaútgáfunefndar ÍSÍ heimilað að afhenda hinu væntanlega
körfuknattleikssambandi að gjöf upplag af Körfuknattleiksreglum sem út hafði verið gefið.

Á þessum fundi voru eftirtaldir: Úr framkvæmdastjórn ÍSÍ: Benedikt G. Waage, Guðjón Einarsson og Hannes Þ. Sigurðsson. Bogi Þorsteinsson, Keflavíkurflugvelli, sem fulltrúi Sunnlendingafjórðungs, fulltrúi Vestfirðingafjórðungs var Óðinn Geirdal, Akranesi, fulltrúi Norðlendingafjórðungs Ármann Dalmannsson, Akureyri og fulltrúi Reykjavíkur var Jens Guðbjörnsson. Frá Frjálsíþróttasambandinu var Brynjólfur Ingólfsson, Ólafur Gíslason frá Golfsambandi Íslands, Ásbjörn Sigurjónsson frá Handknattleikssambandi Íslands, Björgvin Schram frá Knattspyrnusambandi Íslands, þeir Erlingur Pálsson og Þórður Guðmundsson frá Sundsambandi Íslands og einnig Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi ríkisins og Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ boðaði því næst til stofnfundar sérsambandsins með bréfi 17. janúar 1961. Stofnfundur Körfuknattleikssambands Íslands var
síðan haldinn sunnudaginn 29. janúar að Grundarstíg 2A í Reykjavík þar sem Íþróttasamband Íslands hafði aðstöðu. Áðurnefndir fundir fóru einnig allir fram þar. Bogi Þorsteinsson var kjörinn fyrsti formaður KKÍ en aðrir í stjórn voru: Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson, Magnús Björnsson, Kristinn V. Jóhannsson, Ásgeir Guðmundsson og Helgi V. Jónsson.

Vert er að geta þess að Bogi var formaður Körfuknattleikssambandsins í tæp níu ár samfleytt; frá því á stofnfundinum, 29. janúar 1961 að aðalfundi 1.nóvember 1969, þegar hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Stofnaðilar og fulltrúar þeirra á fundinum 29. janúar 1961 voru Körfuknattleiksráð Reykjavíkur (Þór Hagalín, Ingi Þorsteinsson, Ásgeir Guðmundsson), Íþróttabandalag Suðurnesja (Bogi Þorsteinsson, Ingi Gunnarsson), Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (Hjördís Guðbjörnsdóttir, Eiríkur Skarphéðinsson), Íþróttabandalag Keflavíkur (Hafsteinn Guðmundsson), Íþróttabandalag Akureyrar (Birgir Hermannsson, Vignir Einarsson) og Íþróttabandalag Vestmannaeyja (Hrafn G. Johnsen, Daníel Kjartansson).

Forseti stofnþingsins var Benedikt G. Waage, þáverandi forseti ÍSÍ, en hann hafði hvatt mjög til stofnunar sérsambandsins. Í fundargerðarbók KKÍ kemur fram að eftir að fyrstu lög sambandsins voru afgreidd, á stofnfundinum, var gefið kaffihlé. Fóru þingfulltrúar í boði framkvæmdastjórnar ÍSÍ á Hótel Borg og þágu góðan beina, segir þar.

Þegar fundur hófst að nýju flutti Ingi Þorsteinsson þá tillögu að kjörnir yrðu þrír menn til að gera tillögu um væntanlega stjórn KKÍ og dómstól. Í nefndina voru kjörnir Þór Hagalín, Ingi Gunnarsson og Birgir Hermannsson. Eftir nokkra stund skilaði nefndin áliti og stakk upp á þessum mönnum í körfuknattleiksdómstól. Aðalmenn yrðu Ingólfur Örnólfsson, Finnbjörn Þorvaldsson og Hafsteinn Guðmundsson. Varamenn yrðu Guðmundur Árnason, Einar Ólafsson og Hermann Hallgrímsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og
voru þessir menn því kjörnir.

Nefndin gerði því næst tillögu um Boga Þorsteinsson sem formann og var hann sjálfkjörinn. Kom ekki fram önnur tillaga og hann því sjálfkjörinn. Fulltrúar fögnuðu kjöri Boga með lófaklappi. Tillaga nefndarinnar um meðstjórnendur var svohljóðandi: Ingi Þorsteinsson, Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson og Magnús Björnsson. Ingi Þorsteinsson baðst eindregiðundan kjöri og var þá stungið upp á Kristni V. Jóhannssyni í hans stað, og voru þeir síðan kjörnir meðstjórnendur Benedikt, Matthías, Magnús og Kristinn. Formaður útbreiðslunefndar var kjörinn Ásgeir Guðmundsson, formaður laganefndar Helgi Jónsson og í varastjórn Höskuldur Goði Karlsson, Ingi Þór Stefánsson og Þór Hagalín. Endurskoðendur voru kjörnir Þórir Guðmundsson og Helgi Sigurðsson.

Fundarstjóri var Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ, og fundarritari Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri, ÍSÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá leik UMFN og Hauka í Njarðvík árið 1983.  Kristinn Kristinsson og Ingimar Jónsson í uppkasti.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið