© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
3.2.2004 | Ólafur Rafnsson
Erlendir leikmenn – fjárhagshliðin
Í síðasta pistli hóf ég pistla-trílógíu um erlenda leikmenn hér á landi, og byrjaði að fjalla um forsendur veru þeirra í íslenskum körfuknattleik, útbreiðslulegan og sögulegan bakgrunn. Í þessum öðrum pistli er ætlunin að fjalla um fjárhagslegu hliðina sem ekki hefur verið léttvæg í umræðunni.

Auðvelt er að fjalla um þennan þátt málsins með fordómum og neikvæðni og fullyrða að kostnaði vegna erlendra leikmanna sé kastað á glæ. Þetta sé fé sem sé tekið frá útbreiðslu- og uppbyggingarstarfi félaganna og sent úr landi. Ekki ætla ég mér að gera lítið úr slíkum sjónarmiðum, en hinsvegar hygg ég að ekki sé heldur æskilegt eða gagnlegt að líta eingöngu svo þröngt á málin.

Hafa ber í huga að gríðarlegur munur getur verið á þeim erlendu leikmönnum sem hingað koma, bæði að því er varðar körfuboltalega getu og persónuleika. Lið sem eru heppin með erlenda leikmenn hafa gjarnan nýtt þá vel til þjálfunar, útbreiðslu- og kynningarstarfa auk þess að leika með liðinu. Sumir aðrir hafa síðan varla verið farmiðans virði.

Ör skipti erlendra leikmanna valda raunar áhyggjum og virðast oft einkennast af taugaveiklun. Sumir virðast á köflum telja að unnt sé að kaupa gjafapakkaðan titil í formi ungs og óharðnaðs háskólapilts án þess að huga að því að hann verði hluti af liðsheild og þurfi tíma til aðlögunar. Þetta er spurning um aðferðir við val á erlendum leikmönnum og umönnun þeirra, og ég ætla ekki að gera frekar að umræðuefni hér.

Körfuknattleikur hér á landi er í samkeppni bæði við körfuknattleik á alþjóðavettvangi og jafnframt við aðrar íþróttagreinar hérlendis. Helstu samkeppnisgreinar hér á landi hafa í ríkum mæli byggt á erlendum leikmönnum. Jafnvel má segja að körfuknattleikur hafi rutt brautina sem nú kann að reynast erfitt að hverfa frá án afleiðinga í þeirri samkeppni. Þótt ekki liggi fyrir rannsóknir sem sýna fram á að erlendir leikmenn fjölgi áhorfendum á pöllunum þá liggur ekki heldur fyrir neitt sem segir okkur að þeim myndi ekki fækka verulega við brotthvarf þeirra . Það er áhætta sem menn yrðu að taka, og ávallt álitamál hvenær rétt tímasetning er til slíks.

Fjárhagslegar afleiðingar þess að banna erlenda leikmenn – sé slíkt á annað borð framkvæmanlegt sbr. umfjöllun í síðasta pistli um Bosman-úrskurðinn – verða óhjákvæmilega þau að skortur verður á leikmönnum í vissar stöður og hjá vissum félögum. Afleiðing þess kynni að verða sú að uppboð yrði á íslensku leikmönnum sem uppfylla tilteknar kröfur, auk þess að fengnir yrðu dýrir meðalmenn frá Evrópu til að fylla skörðin. Án tillits til þess hversu mikil áhrif erlendir leikmenn hafa á áhorfendaaðsókn og vinsældir þá má rökstyðja þá niðurstöðu að það fæli alls ekki í sér fjárhagslegan sparnað að banna þá nema með víðtækari skipulagsbreytingum.

Síðastliðið vor samþykkti íslenska körfuknattleikshreyfingin reglur um launaþak á lið. Talsverðar umræður hafa orðið um afleiðingar þess, en svo virðist sem í mörgum tilvikum hafi þetta orðið félögum til góðs fjárhagslega. Félög virðast sammála um að talsvert ódýrara sé að fá leikmenn frá Bandaríkjunum en Evrópu, að teknu tilliti til sambærilegrar getu, og á það einnig við um kostnað við uppihald og umsjón þeirra.

Án þess að ég ætli að gera hér tæmandi úttekt á áhrifum reglugerðarinnar þá virðist í fyrsta lagi sem laun erlendra leikmanna hafi lækkað verulega í kjölfar setningar reglugerðarinnar. Staðfestir það í raun það sem undirritaður hefur haldið fram lengi, þ.e. að Íslendingar hafi einfaldlega verið að greiða of hátt verð fyrir erlenda leikmenn. Var sú skoðun m.a. byggð á samtölum við kollega á Norðurlöndunum og víðar. Með launaþaki skapast allt önnur samningsstaða gagnvart leikmönnum.

Í öðru lagi hefur gengi dollars verið óvenju lágt nú í vetur, en það er fest í upphafi keppnistímabils við útreikning launaþaks. Við umfjöllun um reglugerðina kom fram að hún ætti í flestum tilvikum að gefa svigrúm fyrir e.t.v. tvo erlenda leikmenn að hámarki, samhliða einhverskonar fjárhagslegum möguleikum fyrir innlenda leikmenn, en lágt gengi dollars samhliða lækkun launa erlendra leikmanna virðist hafa gefið liðum meira svigrúm en gert var ráð fyrir í upphafi.

Í þriðja lagi virðist launaþakið hafa á ýmsan hátt leitt til ábyrgari fjármálastjórnunar félaganna, og var það eitt af markmiðum reglugerðarinnar. Félög hafa lagt talsverða vinnu í gerð vandaðra fjárhagsaáætlana og sýnt af sér útsjónarsemi við að leita nýrra leiða við að halda niðri kostnaði. Má þar sem dæmi nefna aukna notkun bónusa á kostnað fastra launa, en slíkt ætti að hafa jákvæð áhrif á heildarhagsmuni félaganna þar sem aðeins eitt félag mun t.d. greiða bónus fyrir íslandsmeistaratitil. Það félag mun varla kvarta fjárhagslega.

Í fjórða lagi virðist sem íslenskir leikmenn hafi talsvert orðið útundan í hinu nýja kerfi. Þeirra samningsstaða er í flestum tilvikum verri en áður þar sem þeir þurfa að keppa við hundruðir þúsunda erlendra leikmanna um laun sem þurfa að rúmast innan tiltekins launaþaks fyrir allt liðið. Ekki ætla ég mér að fagna þessu skilyrðislaust því vissulega koma hér til sjónarmið um hvata fyrir okkar bestu afreksmenn til að sinna íþróttinni umfram annað – auk almennrar umhyggju fyrir okkar íslensku piltum. En þessi pistill er um fjárhagshlið félaganna, og sem slíkt er þetta sjónarmið sett fram.

Þrátt fyrir að ég hafi í þessum pistli lýst niðurstöðum sem frekar fela í sér fjárhagslegan sparnað fyrir hreyfinguna þá er það ekki algilt. Menn mega ekki gefa sér að ætlun allra félaga hafi verið að eyða fjármunum upp að launaþakinu, enda er þar um að ræða heimild en ekki skyldu. Því er mögulegt að í deildinni séu félög sem – af ábyrgð – hafa fremur viljað halda að sér höndum og byggja á sínum ungu leikmönnum. Þau félög kunna nú að standa frammi fyrir því að þurfa að bæta við öðrum og jafnvel þriðja erlenda leikmanninum einfaldlega til að vera samkeppnisfærir. Það átti alls ekki að vera tilgangur reglugerðarinnar.

Ég ítreka því áhyggju- og varnaðarorð mín frá síðasta pistli, um leið og ég hvert alla í hreyfingunni til þess að fjalla málefnalega um þessi mál og horfa til lausna og hugmynda frekar en niðurrifs.

Næsti pistill verður um íþróttalegu áhrifin.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Njarðvík · Íslandsmeistarar í 9. flokki dengja 2009
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið