© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
   
21.11.2003 | Pétur Hrafn Sigurðsson
Landsliðsverkefni á vegum KKÍ
Nokkur umræða hefur verið um landsliðsmálin í körfuboltanum og þátt KKÍ í þeim. Hér að neðan verður staða mála skýrð út og staðreindir málsins dregnar fram.

Körfuknattleikssamband Íslands hefur um langan tíma unnið eftir stefnu sem mótuð er til ákveðins tíma. Í dag er unnið eftir afreksstefnu KKÍ sem samþykkt var árið 2001 og gildir til ársins 2007. Stefnan er að sjálfsögðu í stöðugri endurskoðun eftir því sem breytingar verða í umhverfi okkar, en línan er lögð sem unnið er eftir. Á það við um karlalandsliðið, kvennalandsliðið og öll yngri landslið sambandsins.

Karlalandsliðið
Samkvæmt Afreksstefnu KKÍ átti liðið að leika í nóvember 2003 3 landsleiki og í janúar 2004 tvo landsleiki heima og heiman í Evrópukeppni landsliða. Áætlað var að fyrir þessa leiki yrðu leiknir 3 - 6 æfingaleikir í ágúst 2003.
Í júní 2003 lék liðið á Ólympíuleikum Smáþjóða og fyrir það mót voru 3 æfingaleikir leiknir við Norðmenn. Í desember hófst undirbúningurinn í raun þegar KKÍ sendi lið á alþjóðlegt mót í Lúxemborg þar sem leikið var við Lúxara og Kýpurbúa.
Árið 2003 leit því mjög vel út hvað varðar verkefni fyrir landsliðið og eru fá ár í sögu sambandsins sem geta státað af slíku prógrami.
Áfallið reið svo yfir í mars sl. þegar stjórn FIBA Euorpe ákvað að fylgja ákvörðun FIBA – World um að landslið og félagslið skuli skipta með sér keppnistímabilinu á þann hátt að keppnistímabilið skuli vera ótruflað af landsleikjum. Landsliðin fái júlí, ágúst og september en félagsliðin aðra hluta ársins. Með þessu var grundvellinum kippt undan hinu nýja keppnisfyrirkomulagi Evrópukeppninnar, keppnisfyrirkomulagi sem fulltrúar Íslands höfðu barist fyrir í mörg ár. Þess má geta að Ísland var eitt sex ríkja sem greiddi atvæði gegn þessum breytingum þegar þær voru bornar upp á þingi FIBA sl. vor. Áætlanir fyrir síðari hluta þessa árs hrundu því í kjölfar þessarar ákvörðunar.

Sagan – hefðbundin verkefni
Norðurlandamót

Ísland hefur ávalt tekið þátt í Norðurlandamóti sem haldið hefur verið á tveggja ára fresti frá 1962. Þriðja sætið hefur þótt góður árangur og oftar en ekki verið hlutskipti liðsins, á eftir Finnum og Svíum. Ísland hefur aldrei náð betri árangri en undanfarin tvö skipti.Nú er svo komið að Norðurlandamót verður aðeins leikið á 4 ára fresti, næst 2006 og fækkar það landsleikjum sem okkur stendur til boða um 4. Að sjálfsögðu mun KKÍ bregðast við þessu.
Ástæður þess að Norðurlandmótum karlalandsliða er fækkað er skv. vilja Svía og Finna með stuðningi Dana gegn Íslandi og Noregi, eru þær að Svíar og Finnar vilja frekar leita í austurátt til Eystrasaltsríkjanna og niður til Evrópu þar sem þeir leika við sterkari andstæðinga. Svipuð umræða hefur verið uppi hér á landi að við eigum ekki að vera að taka þátt í Smáþjóðaleikum og “leika við þjóðir sem ekkert geta”. Kannski er líka ástæðan sú að Ísland er farið að standa í þessum þjóðum og jafnvel vinna leiki gegn þeim. Það þykir ekki gott afspurnar að tapa fyrir litla Íslandi og vekur það upp mikla gagnrýni, svona svipað og ef við töpum fyrir Möltu. Hver veit?
Skv. afreksstefnu KKÍ er markmiðið 1. – 2. sæti á Norðurlandamóti.

Promotion Cup
Ísland tók þátt í þessari keppni smáþjóða frá byrjun og þar til liðið hafði náð þeim árangri að vera sparkað upp, út úr mótinu þar sem það var orðið of sterkt til að taka þátt þar. Eru Íslendingar og Kýpurbúar oft notaðir í umræðum innan FIBA sem dæmi fyrir góðan árangur sem náðst hefur með skipulagi Promotion Cup. Var það stefna KKÍ allan tímann að tapa þátttökurétti í þessu móti með því að ná góðum árangri.

Smáþjóðaleikar
Ísland hefur frá upphafi sent lið á alla leika þar sem körfuknattleikur hefur verið leikinn.Hefur það stundum verið álitamál hvort við eigum að senda okkar sterkasta lið eða hvort við eigum að senda yngri lið eða B-lið til keppni. Niðurstaðan er sú að Ísland sendir sitt sterkasta lið. Rökin með því eru að við erum þarna á vegum ÍSÍ og krafan er sú að Ísland sé með sína sterkustu íþróttamenn í öllum greinum. Enn fremur þjónar mótið sem ágætis undirbúningur fyrir liðið.

Evrópukeppnin
Í mörg ár tók Ísland þátt í undankeppni Evrópukeppni landsliða sem haldin var í fjöllliðamótsformi. Leiknir voru 4 – 6 leikir. Spilaðir voru æfingaleikir fyrir þessi mót, annaðhvort heima eða heiman. Liðinu tókst sjaldnast að komast upp úr undankeppninni.
1996 tókst í fyrsta sinn að komast “bakdyramegin” inn í EM þar sem leikið var heima og heiman. Þá lenti Íslands í 2 sæti aukariðils sem haldinn var hér á landi 1996 með Danmörku, Kýpur, Írlandi, Albaníu og Lúxemborg. Þá tókst að gera landsliðið sýnilegt hér á landi í alvöru landsleikjum sem skiptu máli á árunum 1997 – 1999. Aftur þurfti liðið að fara í undankeppni og þá tókst liðinu að komast áfram og lék landsleiki heima og heiman 1999 – 2001. Enn og aftur þurfti liðið í undankeppni og mistókst þar að komast áfram 2001. Það þýddi að ekki var leikið heima og heiman 2001 og 2002 og var liðið verkefnalítið þau árin fyrir utan Norðurlandamót 2002.

Æfingaleikir
Íslandi hefur tekist að fá æfingaleiki fyrir flest þau verkefni sem liðið tekur þátt í. Tekist segi ég þar sem það er ekki sjálfgefið. Það er erfitt að fá þjóðir til að koma til Íslands með tilheyrandi kostnaði þegar lið þeirra geta hoppað upp í rútu og keyrt til nágrannaríkisins. Íslenskt landslið hefur farið til USA í æfingaferðir í nóvember.
Hér á árum áður var hægt að fá æfingalandsleiki á ýmsum tímum. Þá sömdu samböndin sín á milli um dagsetningar og ekki var vandamál að manna liðin bestu leikmönnum hverju sinni þannig að leikirnir yrðu áhugaverðir. Það hefur hinsvegar breyst gríðarlega með “Bosman” reglunni. Í dag eru bestu leikmenn hvers lands sjaldnast að leika í heimalandinu heldur í öðrum löndum og því útilokað að fá þá til leiks nema á afmörkuðum dagsetningum sem ætlaðar eru landsliðum.

Aðgangur að leikmönnum
Í dag er staðan þannig að Ísland á leikmenn í þrem kerfum. NBA-deildinni, bandaríska háskólaboltanum og FIBA boltanum í Evrópu. Það getur verið erfitt að finna tíma sem hentar þessum leikmönnum þannig að Ísland geti stillt upp sínu sterkasta liði.
KKÍ, landsliðsþjálfari og landsliðsnefnd þurfa að svara nokkrum spurningum
Á að fara í æfingaferð til USA í nóvember eða finna leiki fyrir liðið?
Ekki er hægt að fara með leikmenn úr bandaríska háskólaboltanum, ekki með leikmenn sem leika í Evrópu og auðvitað ekki Jón Arnór úr NBA. Ekki er hægt að velja Keflvíkinga í liðið þar sem þeir eru í Evrópukeppni.

Á að leika landsleiki milli jóla og nýárs?
Ekki er hægt að fá leikmenn úr háskólaboltanum.
Ekki er hægt að fá Jón heim.
Erfitt er að fá leikmenn frá Evrópu því sumir eru í verkefnum með sínum félagsliðum

Með öðrum orðum – eigum við að leika landsleiki og úrvalsleiki þegar við getum ekki teflt fram okkar sterkasta liði?
Það hefur verið gert, sérstaklega milli jóla og nýars t.d. 2002 í Luxemborg og nú 2003 gegn Catawba háskólaliðinu. Þar gefst “heimamönnum” tækifæri til að sanna sig með landsliðinu.

Fjárhagslegar forsendur
Fjárhagslegar forsendur hafa alltaf skipt KKÍ máli, enda sambandið verið þokkalega vel rekið hvað það varðar á undanförnum árum og ekki tekið fjárhagslegar dýfur. Aðrar boltagreinar hafa úr óvenju miklu fé að spila um þessar mundir – fjármunum sem felur í sér margfalda veltu íslenska landsliðsins. Þeir fjármunir koma úr sjóðum og frá aðilum sem KKÍ hefur ekki aðgang að.

Framundan er stórt og viðamikið verkefni við undirbúning og þátttöku EM landsliða í september 2004. Ég hygg að fáir vilji fórna eða takmarka nauðsynlegan undirbúning fyrir það verkefni á næsta ári, ef til vill til þess að fá 2-3 æfingaleiki við miðlungsþjóð nú í haust.

Verkefni íslenska A-landsliðsins hafa fram að þessu verið að stærstum hluta á vorin, og hér áður um jólaleytið – nákvæmlega eins og nú í ár, 2003 (með komu Catawba háskólans um jólin). Undantekningarnar hafa verið leikirnir heima og heiman á keppnistímabilinu árin 1997-2001 þar sem leikið var í nóv/des og feb, og gert sérstakt hlé á deild í því skyni. Utan þess var forkeppnin 2001 haldin í september, og Norðurlandamót hefur s.l. tvö skipti verið haldin í ágúst. Annað hefur ekki breyst.


Kvennalandsliðið:
Samkvæmt afreksstefnu KKÍ er stefnt á að kvennalandsliðið taki þátt í Evrópukeppni landsliða í fyrsta sinn árið 2006 og svo á hverju ári eftir það. Fram að þeim tíma mun liðið leika í Promotion Cup, á Smáþjóðaleikum og í Norðurlandamóti. Markmiðið er að sigra á PC og Smáþjóðaleikum í hvert sinn, en 3. sætið á Norðurlandamóti.

Sagan – Hefðfundin verkefni
Fyrstu landsleikir kvenna voru leiknir 1973 er liðið fór á Norðurlandamót. Allir leikirnir töpuðust með mjög miklum mun. Aftur var liðið sent 1986 og aftur töpuðust leikir með miklum mun. Ljóst var að bilið var of mikið milli Íslands og annara Norðurlandaþjóða. Tekin var upp ný stefna. Liðið tók þátt í Smáþjóðaleikum og Promotion Cup frá 1989 auk þess að leika æfingaleiki og taka þátt í æfingamótum.
1996 sigraðið liðið í fyrsta sinn á Promotion Cup og 1997 á smáþjóðaleikum. Vorið 2000 tók liðið þátt í alþjóðlegu móti í Lúxemborg þar sem liðið stóð sig frábærlega vel, vann Norðmenn og tapaði naumlega fyrir Sviss. Ákveðið var að tími væri til kominn að senda liðið aftur á Norðurlandamót. Þar hafnaði liðið reyndar í neðsta sæti en sigur vannst á Dönum, töpuðu gegn Norðmönnum og ásættanleg töp gegn Svíum og Finnum. Alls hefur kvennalandsliðið leikið 86 landsleiki frá því það keppti fyrst 1973. Þar af eru 56 leikir sl. 10 ár.

Verkefnin framundan
Liðið mun leika á Promotion Cup í Andorra í júní næsta sumar og í ágúst leikur liði á Norðurlandamóti. Stefnt er að því að liðið fái æfingaleiki fyrir þessi verkefni en það er ekki frágengið. Ljóst er því að liðið leikur a.m.k. 9 leiki næsta sumar og vonandi verða þeir fleiri takist að fá æfingaleiki fyrir liðið.

Yngri landsliðin
Mikil gróska hefur verið í landsliðsstarfi yngri liðanna.
Í ár tóku 4 lið þátt í Norðurlandamóti. Það voru U-19 og U-17 ára lið karla og kvenna.
U-16 ára karlar tóku þátt í Evrópukeppni drengjalandsliða og voru hársbreidd frá því að komast áfram en töpuðu naumlega fyrir Slóveníu í úrslitaleik um sætið.
U-18 ára kvenna tóku þátt í Promotion Cup sem haldið var á Ásvöllum í sumar og sigraði glæsilega á mótinu og var það í fyrsta sinn sem unglingalandslið kvenna sigrar á slíku móti.
Aldrei áður í sögu KKÍ hafa jafnmörg yngri landslið verið í verkefnum á vegum sambandsins eins og í ár og aldrei áður hafa verið leiknir fleiri leikir.

Í afreksstefnu KKÍ er lögð mikil áhersla á yngri landsliðin og verkefnin fyrir þau.

Verkefnin framundan á árinu 2004
U-16 karlar fæddir 1988 – Norðurlandamót í maí og Evrópukeppni landsliða í ágúst
U-16 konur fæddar 1988 – Norðurlandamót í maí og Evrópukeppni landsliða í ágúst og verður það í fyrsta sinn sem KKÍ sendir kvennalið í Evrópukeppnina. Er sú ákvörðun tekin í beinu framhaldi af góðri frammistöðu leikmanna í þessum árgangi.
U-18 ára karlar fæddir 1986– Norðurlandamót í maí
U-18 ára konur fæddar 1986– Norðurlandamót í maí

Árið 2005 verður enn annasamara hjá landsliðum Íslands
U-16 karlar fæddir 1989 – Norðurlandamót í maí og EM í ágúst
U-16 konur fæddar 1989 – Norðurlandamóti í maí og EM í ágúst
U-18 karlar fæddir 1987 – Norðurlandamóti í maí og EM í ágúst
U-18 konur fæddar 1987 – Norðurlandamót í maí og EM eða PC í ágúst


Elítuhópar
KKÍ tók upp þá nýbreytni árið 2001 að bjóða upp á æfingabúðir á sumrin fyrir drengi og stúlkur 12 – 15 ára. Þar eru kallaðir saman mjög stórir hópar leikmanna sem unglingalandsliðsþjálfarar fá að sjá og vinna með.
Markmiðið er að auka áuga þeirra með því að velja þá í úrvalshópa, bæta getu þeirra með því að láta okkar bestu þjálfara vinna með þá og leyfa þeim að kynnast því að koma inn í stóran æfingahóp.Aðrir þættir
KKÍ stefnir að því að vinna enn frekar með einstaklingum sem skara frammúr í körfuknattleik eða eiga möguleika á að ná mjög langt í greininni.
Sambandið hefur fengið styrki frá ÍSÍ vegna Egils Jónassonar og hefur verið með prógram í samvinnu við Njarðvík sem hann hefur unnið eftir. Egill hefur sýnt að hann hefur tekið miklum framförum í kjölfar þessa. Sótt verður um áframhaldandi styrk fyrir hann. Enn fremur verður nú sótt um styrk fyrir Helenu Sverrisdóttur – eins alefnilegasta leikmannsins í kvennakörfunni.

Fleiri atriði eru í undirbúningi sem of snemmt er að skýra frá hér en koma vonandi í ljós í sumar, en þau miða öll að því að búa til bætt umhverfi fyrir okkar bestu yngri leikmenn þannig að þeir geti tekið enn frekari framförum.

Lokaorð
Þetta er orðin löng lesning og vona ég að lesendur séu betur upplýstir um starf KKÍ í landsliðsmálum. Markmið KKÍ eru skýr – leiðin að þeim er hinsvegar á stundum ekki bein og greið heldur hafa menn stundum þurft að leggja lykkju á leið sína vegna utanaðkomandi ástæðna. Árið 2003 var metár á sviði landsliðsverkefna hjá KKÍ. Stefnt er að því að slá það met árið 2004.
Hafi menn og konur athugasemdir eða ábendingar sem þau vilja koma til stjórnar KKÍ um hvað megi betur fara þá er hægt að koma þeim á tölvupóstfangið petur@kki.is.

Pétur Hrafn Sigurðsson
Framkvæmdastjóri KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá ársþingi KKÍ á Akureyri árið 2000.  Eyjólfur Guðlaugsson UMFG í pontu.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið