© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
22.4.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Ákvörðunartaka
Það er okkur öllum mannlegt að skiptast á skoðunum og leita nýrra leiða til þess að bæta það sem störfum við, unnum eða höfum hagsmuni af. Þann dag sem enginn skiptist á skoðunum eða leitar leiða til að gera hlutina betri gera menn sér grein fyrir því að málstaðurinn hefur færst neðar á forgangslistanum.

Menn geta kallað skoðanaskipti ýmsum nöfnum, en mestu skiptir þar með hvaða hætti þau eiga sér stað – hver aðferðafræðin er. Um það hef ég að nokkru leyti fjallað í síðustu tveimur pistlum, þ.e. svo fremi menn setji málefnið í öndvegi og skiptist á skoðunum á drengilegan og málefnalegan hátt er líklegast að árangur náist. Í þessu felst virkt lýðræði og í þessu felst gagnsæi hvers stjórnkerfis.

Það er öllum mannlegt að hafa sterka sannfæringu fyrir skoðunum sínum, hvort sem þær grundvallast á þröngum sérhagsmunum eða sýn á heildarhagsmuni. Niðurstöður sem fylgt geta í kjölfar skoðanaskipta andstæðra sjónarmiða geta falið í sér “fullnaðarsigur” annars aðilans eða málamiðlunar einhversstaðar þar á milli. Hvort sem sérhagsmunir ráða hörku skoðanaskiptanna eða ekki þá eru það vitaskuld engu að síður ávallt heildarhagsmunir málefnisins sem ráða eiga för.

Lýðræði er fyrirbæri sem flestir þekkja í orði, en ef til vill hafa ekki allir velt fyrir sér hvað það raunverulega felur í sér. Okkur er tjáð að við búum í lýðræðisríki og að lýðræði sé ráðandi aðferðarfræði við ákvörðunartöku almennt í samfélaginu. Um það geta menn þó deilt – og fer að nokkru eftir því hversu kröftugan skilning við leggjum í hugtakið. En fulltrúalýðræði íslensks samfélags getur sannarlega tekið á sig ýmsar myndir.

Við erum alin upp við að fordæma stjórnarfar einræðisríkja úti í heimi, og jafnvel að réttlæta styrjaldir til að uppræta slíkan ósóma. Engu að síður viljum við gleyma því að innan íþróttahreyfingarinnar fyrirfinnst slíkt stjórnarfar, og ekki nóg með það – það telst sem slíkt viðurkennt og óumdeilt. Á ég þar fyrst og fremst við vald þjálfara kappliða. Þótt allir hafi skoðun á hans störfum, innáskiptingum, leikaðferðum eða samskiptaaðferðum – þá dregur enginn í efa einræðisvald hans til að ákveða slíkt á eigin ábyrgð.

Jú, “á eigin ábyrgð”. Þar liggur e.t.v. hundurinn grafinn. Valdheimild hans byggir nefnilega ekki á erfðum eða ofbeldi, heldur á ráðningu lýðræðislega kjörins stjórnvalds. Það er stjórn félags eða þess kappliðs sem öðlast hefur vald sitt í lýðræðislega kjörnu fyrirkomulagi sem ákveður – með lýðræðislegum hætti – hvort þjálfari skuli ráðinn eða rekinn. Þetta eru þau takmörk sem íþróttahreyfingin setur einræðinu, og á ég ekki von á því að hreyfingin myndi sætta sig við einræðisvald í stjórnskipulega hluta starfsins.

Það lýðræðisfyrirkomulag sem íþróttahreyfingin hefur komið sér upp er samskonar fulltrúalýðræði og almennt er viðurkennt í samfélaginu. Þó er það frávik að finna að þeir sem kjósa sér lýðræðislega stjórn byggja heimildir sínar ekki á umboði frá allri hreyfingunni, heldur fyrirfram ákveðnum atkvæðafjölda hvers aðildarfélags innan viðkomandi einingar (í þessu tilviki sérsambands eða félags). Sá atkvæðafjöldi byggir hinsvegar á iðkendafjölda skv. starfsskýrslum – sem menn geta svo aftur deilt um hvort endurspegli endilega hið fullkomna lýðræði.

Meginatriði pistils þessa er að vekja lesendur til umhugsunar um það með hvaða hætti menn geta haft áhrif á niðurstöðu við ákvörðunartöku einstakra málefna innan hreyfingarinnar. Hafi menn ekki hinn lögformlega atkvæðisrétt geta menn engu að síður haft áhrif á þá aðila sem hann bera – með málefnalegri og skynsamlegri rökræðu. Ég hygg að ég hafi nægilega vel komið á framfæri í síðustu tveimur pistlum hvaða aðferðafræði ég tel skynsamlegasta í þeim efnum.

Lýðræðisfyrirkomulagið er hinsvegar brothætt, og ef samsetning ákvörðunaraðila er veikburða er með illum vilja unnt að beita valdbeitingu sem gjarnan á lítið skylt við þá lýðræðislegu uppbyggingu sem kerfið byggist á. Þeir sem misnota þannig kerfið eru vissulega minni menn fyrir vikið. Það er ekki að ástæðulausu sem ég get þessa hér á þessum vettvangi þar sem áhugamannasamfélag á borð við hina íslensku íþróttahreyfingu er eflaust eitt besta dæmið um veikburða lýðræðissamfélag.

Þetta á að vísu við um fleiri einingar félagslífs í samfélaginu, og þótt heiðarlegu lýðræði sé beitt í yfirgnæfandi hluta tilvika þá höfum við því miður alltof oft orðið vitni að slíkri misbeitingu t.d. með óvæntri “smölun” atkvæða eða umboða á vettvangi félagsstarfs. Ég legg áherslu á að einungis með upplýstri umræðu og skoðanaskiptum á milli ólíkra sjónarmiða, meðvitaðri og virkri þátttöku allra þeirra sem aðild eiga að ákvörðunartöku með heiðarlegri beitingu lýðræðisins, næst fram niðurstaða sem líklegt er að sátt skapist um og verði málefninu til framfara.

Ákvarðanir sem teknar eru með heiðarlegum og lýðræðislegum hætti eiga að vera endanlegar. Hversu harkaleg sem skoðanaskipti kunna að hafa verið þá er það styrkur allra félagasamtaka að viðurkenna þá niðurstöðu og vinna sameiginlega að framgangi hennar hver svo sem skoðun einstakra aðila kann að hafa verið á henni í upphafi . Vinni menn gegn slíkri niðurstöðu gera menn ekki annað en að skaða sjálfa sig og samherjana.

Meginatriðið er að niðurstaðan sé heiðarleg.

Ólafur Rafnsson
Formaður KKÍ



Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Björgvin Rúnarsson röltir í átt að ritaraborðinu í fjórða leik KR og Njarðvíkur í úrslitum Iceland Express deildarinnar 2007, eftir að hafa dæmt fimmtu villuna á Friðrik Stefánsson.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið