© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
16.4.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Spjalldólgar
Í undanförnum pistlum hef ég leitast við að skilgreina þá aðila sem fjalla með formlegum hætti um körfuknattleik og aðrar íþróttir í fjölmiðlum – okkar ágætu íþróttafréttamenn – og jafnframt þá aðferðarfræði sem þeir og aðrir beita við að koma sínum skoðunum á framfæri. Í þeim pistlum gat ég þess að með tilkomu netsins hefur umfjöllun um íþróttir og aðra samfélagsþætti að nokkru leyti færst yfir á stjórnlausari vettvang en við höfum áður þekkt. Er þar einkum átt við hinar s.k. spjallsíður.

Netið er í reynd stórkostlegt nútímafyrirbæri á sviði upplýsingatækni sem gefur okkur kost á að fá fréttir á rauntíma og leita okkur upplýsinga um einstök málefni með áður óþekktum hætti. Slík efling flæðis upplýsinga er ein forsenda fyrir virku lýðræði og gagnsæi stjórnkerfa – hvort sem þau eru á sviði íþrótta eða almenna samfélagsins. Möguleikarnir sem netið býður upp á eru nánast takmarkalausir að þessu leyti, og hef ég áður lýst þeirri skoðun minni að iðkendur og aðdáendur körfuknattleiksíþróttarinnar hafa verið í fararbroddi við nýtingu netsins hérlendis a.m.k. innan vébanda íþróttahreyfingarinnar. Er það vel.

En þar sem ljósið er skærast er skugginn dýpstur. Þessum tækniframförum fylgja óhjákvæmilega gallar og skuggahliðar. Má þar sem dæmi nefna harðsvíraða glæpamenn sem villa á sér heimildir t.a.m. í því skyni að komast í samband við börn í ýmsum óþverralegum tilgangi. Enn aðrir aðilar reyna að svíkja fé í viðskiptum á netinu eða stunda þar skemmdarstarfsemi í formi þess að brjóta upp tölvukerfi og/eða að koma þar fyrir tölvuvírusum. Er í þessum tilvikum um að ræða efnahagslega hryðjuverkamenn, sem ég hygg að allir séu sammála um að séu afar hættulegir þessu sviði samfélagsins.

Það sem e.t.v. er sammerkt með þessum skuggahliðum netsins er leyndin – þ.e. með hvaða hætti þessir aðilar nýta sér möguleika netsins til þess að dylja uppruna sinn. Í skjóli leyndarinnar fremja þeir afbrot og skemmdarverk, en í skjóli leyndarinnar er einnig unnt að valda usla og tjóni sem telst vera siðferðilega ámælisvert þótt eigi brjóti það í öllum tilvikum í bága við settar lagareglur – löglegt, en siðlaust eins og Vilmundur Gylfason heitinn orðaði það svo eftirminnilega á sínum tíma.

Á síðum spjallsvæða íþróttahreyfingarinnar hafa andlitslausir aðilar stundum farið offari, og jafnvel leitt til þess að einingar innan hreyfingarinnar hafa neyðst til þess að loka slíkum svæðum varanlega. Sómakærir aðilar sem af dugnaði og elju hafa unnið fórnfúst starf í þágu íþróttahreyfingarinnar við að auka aðgengi allra að upplýsingum og málefnalegri umræðu hafa neyðst til þess að grípa til lokana þar sem þeir aðilar vilja ekki tengjast eða bera ábyrgð á nafnlausum óhróðri sem borinn er út um menn og málefni.

Vitaskuld verður að gera skýran greinarmun á þeirri umfjöllun sem fram fer. Þótt vissulega sé ávallt skemmtilegast að vita við hvern maður er að eiga samskipti, eða eftir hvern maður er að lesa bréf eða skeyti þá skaða nafnlaus skeyti með jákvæðum heillaóskum eða gagnlegum ábendingum í sjálfu sér engan. Einnig má nefna hin svonefndu spjallheiti þar sem menn fara í “karakter” og halda uppi málefnalegum umræðum á netinu í öðru nafni en sínu eigin – e.t.v. til þess að fjarlægja sig persónulega þeim hagsmunum sem þar er rætt um – en ljóst sé engu að síður hver er að baki því spjallheiti. Slíkt getur verið besta mál.

Vandamálið er fólgið í þeim sem nafnlaust vaða fram á síður spjallrása með órökstuddum fullyrðingum og skaðlegum árásum sem í senn særa og skaða einstaklinga, félög og málefni. Við höfum þurft að búa við það að einstakir aðilar hafa fengið afar óverðskuldaða meðferð að þessu leyti, og er skemmst að minnast umfjöllunar í vetur um t.d. Pétur Guðmundsson og Guðjón Þorsteinsson – tvo aðila sem hafa ekki gert neitt annað en að vilja körfuknattleiksíþróttinni allt hið besta, og verið duglegir við að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Og ekki má gleyma því að þessir mætu menn hafa komið fram heiðarlega undir nafni í sínum svörum, og nafnlausar persónuárásir úr launsátri á þá því enn ógeðfelldari fyrir vikið.

Persónulega vil ég kalla þessa árásaraðila – sem ég tel reyndar að séu afar fáir einstaklingar – spjalldólga. Stundum hefur maður á tilfinningunni að þetta séu síður en svo aðilar innan okkar vébanda heldur fremur óþroskaðir og bitrir einstaklingar sem hafa lítið annað fyrir stafni í lífinu en að flakka á milli spjallsíða víða í samfélaginu til þess eins að skapa usla, og virðast skemmta sér afar vel yfir varnarviðbrögðum fórnarlamba sinna. Aðferðarfræði þeirra virðist stundum fólgin í því að senda skeyti, og svara svo strax sjálfur undir öðru nafni. Hversu sjúkt er slíkt annars?

Helstu röksemdir þeirra sem stunda nafnlaust niðurrif er að þeir eigi sinn rétt á að koma skoðunum sínum á framfæri. Þetta er að vissu leyti rétt, en ég vek þó athygli á því að tjáningarfrelsi stjórnarskrárinnar getur ekkert um leyndina. Það er þvert á móti sá réttur að geta staðið upp og lýst sinni skoðun án þess að þurfa að sæta viðurlögum sem við viljum vernda. En tjáningarfrelsinu eru líka takmörk sett. Ærumeiðingar eru refsiverðar, og það ættu spjalldólgar að hafa í huga. Það eru nefnilega fjölmargir saklausir sem kunna að skaðast vegna ummæla þeirra.

Hér erum við raunar einnig komin nokkuð að kjarna málsins, en það eru þær röksemdir sem heyrst hafa meðal spjalldólga að ef þeir afhjúpi leynd sína þá muni þeir verða fyrir aðkasti eða öðrum viðurlögum. Er mótsögnin í þessum ummælum ekki augljós? Þeir vilja m.ö.o. vera friðhelgir af því sem þeir sjálfir eru að stunda gagnvart öðrum “í skjóli nætur”. Er þetta ekki nærri skilgreiningu á orðinu heigulshætti? Þetta hefur að mínu mati a.m.k. ekkert með tjáningarfrelsi að gera.

Ég vil hvetja hinn yfirgnæfandi hluta málefnalegra spjallverja til þess að halda áfram að halda úti líflegri umræðu um málefni körfuknattleiks og annarra íþrótta, hvort sem menn nota þar sérstök spjallnöfn eður ei. Ég skora hinsvegar á þá sem þurfa að koma á framfæri gagnrýni eða athugasemdum sem geta reynst skaðlegar eða særandi, að ef þeir geta ekki haldið aftur af sér þá geri þeir það a.m.k. undir nafni. Persónulega tek ég alltaf meira mark á slíkum aðilum – þótt sannarlega þurfi ég ekki að vera sammála þeim.

Ritstjórn spjallsíðna er vandaverk, og enn eitt dæmið um vanþakklát hlutverk innan hreyfingarinnar. Er það án efa orsök þess að spjalldólgum hefur tekist að fá einstökum spjallsvæðum lokað. Um leið og ég hvet ritstjóra spjallsíðna til dáða þá vil ég þakka sérstaklega þeim Mikka vef og Lilla tölvumús (vel að merkja spjallheiti sem allir þekkja einstaklingana að baki) fyrir frábæra ritstjórn á vef KKDÍ, þar sem hafa má í heiðri markmið samlíkinga þessara sögupersóna um að “öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir”.

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Andrew Piazza, leikmaður KR, skar netið úr körfunni eftir sigur KR í úrslitaleik gegn Njarðvík 28. mars 1978.  Forráðamönnum Laugardalshallarinnar var ekki skemmt.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið