© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
8.4.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Að tala tæpitungulaust
Allir þeir sem að starfsemi íþróttahreyfingarinnar koma þurfa að sæta því að opinber og óopinber umræða eigi sér stað um þeirra störf. Leikmenn, þjálfarar og dómarar fá undantekningarlítið faglega og gagnrýna umfjöllun fjölmiðla eftir keppni, og forsvarsmenn einstakra eininga innan íþróttahreyfingarinnar þurfa í auknum mæli að sæta opinberri umfjöllun um störf sín. Með nýjasta miðlinum hefur öll þessi umfjöllun og gagnrýni jafnframt flust yfir á opnari og stjórnlausari vettvang sem er netið.

Í mörgum tilvikum – þótt slíkt sé óneitanlega sjaldgæfara – eiga menn það til að tjá sig um viðburði og einstaklinga með jákvæðum hætti – að hrósa og hvetja. Slíkt er besta mál. Neikvæð gagnrýni er þó óneitanlega algengari, þótt vissulega verði þar jafnframt að gera skýran greinarmun á nauðsynlegri og málefnalegri gagnrýni annarsvegar og persónugerðu niðurrifi hinsvegar.

Ætlunin hér er að fjalla um það hugtak sem felst í því að “tala tæpitungulaust”. Þykir sumum slíkt vera allt að því “fínt” í okkar samfélagi. Gjarnan er þar vísað til hinnar íslensku sjómannastéttar, sem óumdeilanlega á virðingu allrar þjóðarinnar fyrir dugnað og heiðarleika – sem oft kemur fram í að segja hlutina eins og þeir eru. Þessa mætu stétt hafa ýmsir “landkrabbar” hinsvegar nýtt sér til að réttlæta það þegar þeim hafa orðið á mistök. Þannig höfum við heyrt af þekktum einstaklingum í samfélaginu réttlæta hnefahögg með því að verið sé að “heilsa að sjómannasið” og með sama hætti heyrum við pólitíkusa tala um að ósæmileg ummæli þeirra séu n.k. “sjómannamál”. Persónulega finnast mér slíkar samlíkingar í sumum tilvikum vera móðgandi við heiðarleika íslenskrar sjómannastéttar.

Ég er þeirrar skoðunar að einstaklingar sem ráðast á aðra nafngreinda einstaklinga með ósæmilegu orðbragði undir því skjóli að þeir séu einungis að “tala tæpitungulaust” séu fremur að afhjúpa eigin skort á rökum eða málefnalegum sjónarmiðum. Jafnvel má halda því fram að þeir sem byggja málflutning sinn að mestu leyti á gífuryrðum og persónulegum árásum afhjúpi takmarkaða greind sína – í besta falli vanþroska. Þegar slíkar árásir eiga sér stað í skjóli nafnleyndar verða þær reyndar öllu viðurstyggilegri, en ætlun er að fjalla um það í næsta pistli.

Einhver orðaði það svo vel að segja að það sé auðveldara að myrða með penna en að skrifa með rýtingi. Það er mikil viska fólgin í þeirri setningu. Þeir sem “tala tæpitungulaust” verða að vera meðvitaðir um að þegar þeir ráðast með særandi gífuryrðum gegn einstaklingum þá geta fleiri en sá einstaki aðili skaðast. Viðkomandi á e.t.v. aðstandendur og vini, auk þess að erfitt er að gera sér grein fyrir réttlætingu þess yfirleitt að særa þann sem um er rætt.

Ég vil reyndar taka skýrt fram að ég er síður en svo að leggja til að menn liggi á sínum skoðunum eða taki ekki þátt í umfjöllun um einstök mál. Það sem þetta snýst um er með hvaða hætti þeir koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það ætti að vera regla að ganga aldrei lengra en nauðsynlegt er að því er gífuryrði varðar þegar orðin beinast sem árás að einstökum persónum, samtökum eða öðrum nafngreinum aðilum. Þeir sem koma gagnrýni sinni á framfæri af háttvísi og málefnaleika eru meiri menn fyrir vikið, og auk þess er það mín skoðun að meira mark sé á slíkum málflutningi tekið.

Í íþróttum endurspeglast þessi sjónarmið í keppni. Leikmaður sem dæmt er gegn getur orðið reiður og mótmælt ákvörðun dómara. Í flestum tilvikum hafa dómarar (reyndar stundum aðdáunarverða) þolinmæði og yfirvegun til þess að leyfa leikmanninum að ergja sig yfir ákvörðuninni, en ef mótmælin leiða til gífuryrða eða persónulegrar árásar á dómara eða ákvörðun hans þá eru dæmd viðeigandi viðurlög. Það er ekkert sem skyldar leikmanninn til að vera sammála dómaranum, en það skiptir sannarlega máli hvernig hann kemur þeim mótmælum á framfæri.

Í starfi mínu sem lögmaður fæ ég stundum til yfirlestrar reiðibréf til eða á milli aðila eða skjólstæðinga, þar sem hagsmunir geta verið miklir og ólíkir. Í þeim tilvikum ráðlegg ég mínum skjólstæðingum yfirleitt ekki gegn því að skrifa slík bréf þegar þeir eru reiðir – menn komast oft vel “á flug” undir slíkum kringumstæðum. Hinsvegar hvet ég þá til að bíða í 2-3 daga með að senda bréfið.

Ef þeir eru ennþá sammála gífuryrðum sínum þegar þeim er runnin reiðin þá er e.t.v. ekki mikið við því að gera, en slíkt eru þó undantekningartilvik – hausinn fer ekki ávallt sömu leið og hjartað. Slík bréf grafa gjarnan undan mögulegum sáttaleiðum og trúverðugleika viðkomandi, og ég hef ekki séð slík bréf gagnast skjólstæðingum – nema e.t.v. til að öðlast einhverja sálarró. Þá sálarró ætti að vera unnt að nálgast jafnvel með því að skrifa bréfið, en án þess að senda það.

Mín skilaboð eru þau að við skulum fyrir alla muni taka þátt í málefnalegri umræðu um íþróttir, en gætum þess að stíga varlega til jarðar þegar að gífuryrðum kemur gagnvart einstaklingum eða nafngreindum aðilum.

En að lokum. Takk fyrir fjölmargar hlýjar afmæliskveðjur. Þessi pistill á ekkert skylt við tilefni þess áfanga.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Friðrik Stefánsson reynir alley-oop troðslu í leik gegn heimamönnum, Tyrkjum.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið