© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
1.4.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Gagnrýnendur
Í síðasta pistli var fjallað um áhorfendur, og hin mikilvægu tengsl þeirra við afreksíþróttir. Annar er sá hópur einstaklinga sem gjarnan fær ekki nægilega verðskuldaða athygli, en það eru þeir aðilar sem hafa það að atvinnu að fjalla um íþróttviðburði í fjölmiðlum. Innan menningargeirans eru slíkir aðilar yfirleitt nefndir gagnrýnendur, en innan íþrótta einfaldlega íþróttafréttamenn. Hvorugt hugtakið lýsir þó nægilega vel inntaki þeirra starfa að mínu mati, því í raun eru þessir aðilar fremur “umsagnaraðilar” um viðburði.

Sá hluti slíkrar umfjöllunar sem felur í sér frétt lýtur fyrst og fremst að úrslitum, hlutlægri lýsingu á framgangi leiksins og e.t.v. tölfræðilegum upplýsingum (eins og við höfum t.a.m. séð svo frábærlega gert hjá DV í vetur). Sá hluti sem lýtur að gagnrýni felur í sér huglægt mat umsagnaraðilans á frammistöðu einstakra leikmanna, þjálfara eða jafnvel dómara. Þetta er ríkur þáttur í því sem neytendur ætlast til af t.a.m. íþróttafréttamönnum, en hafa ber í huga að gagnrýni/umsögn að þessu leyti getur verið í senn jákvæð og neikvæð. Frásagnirnar eru svo í senn gjarnan myndskreyttar og framsettar í innskotsdálkum sem gera þær tvímælalaust aðgengilegri og meira markaðslega aðlaðandi.

Mismunandi er á hvað fjölmiðlar leggja áherslu við umfjöllun um íþróttaviðburði. Áður hefur verið minnst á tölfræðilegar framsetningar DV sem eru til fyrirmyndar. En á síðari árum hefur orðið talsverð þróun í þessum efnum í þágu neytenda, og má þar sem dæmi nefna litljósmyndir í prentmiðlum og fjölbreytt sjónarhorn tökuvéla og/eða hljóðnema í sjónvarpsmiðlum, svo ekki sé minnst á beinar útsendingar sem slíkar. Netið er svo aftur nýr miðill sem býður upp á enn fleiri nýjungar, og er í örri þróun. Er það skemmst að minnast tilrauna KKÍ til að koma hinu s.k. leikvarpi á, en hefur ekki að fullu tekist vegna tæknilegra vandamála. Mín skoðun er sú að beinar útsendingar muni í náinni framtíð í senn taka til mynda, hljóðs og allra tölfræðilegra upplýsinga.

Að mínu mati eru íslenskir íþróttafréttamenn – okkar “gagnrýnendur” – jafnan vel starfi sínu vaxnir. Þeir búa við afar erfið starfsskilyrði í samanburði við stærri þjóðir með risavaxna fjölmiðla þar sem sérhæfing er mikil. Íslenskir íþróttafréttamenn þurfa að fjalla um nánast allar íþróttagreinar, og ég leyfi mér auk þess að fullyrða að íslenskir neytendur eru meðal þeirra kröfuhörðustu í heimi að þessu leyti. Vandamál við sérhæfingu hefur einnig verið leyst á prýðilegan hátt að því er varðar t.d. beinar útsendingar, með því að kalla til sérfræðinga á því sviði. Körfuknattleikur hefur t.a.m. yfir að ráða einstaklega hæfum aðilum á því sviði, sannkölluðum viskubrunnum sem aukinheldur eru bráðskemmtilegir.

Málfar íþróttafréttamanna hefur stundum verið til umræðu. Ég tel það virðingarvert ef reynt er að auka fjölbreytni málfarsins, auka orðaforðann og jafnvel draga fram sterkar myndlíkingar eða beita myndrænum á orðtökum. Í langflestum tilvikum eru störf íþróttafréttamanna unnin undir mikilli tímapressu, eða jafnvel á rauntíma í beinum útsendingum. Þegar við þetta bætist spenna kappleiksins sjálf er ég ekki svo viss um að margir myndu standa sig jafn vel og okkar ágætu íþróttafréttamenn í reynd gera. Því verður þó vart neitað að af þessum sökum hafa margar spaugilegar setningar komið fram, og geri ég fastlega ráð fyrir því að fáir hendi jafn mikið gaman að slíku og íþróttafréttamennirnir sjálfir.

Íþróttafréttamenn nota orðaforða almennings í landinu og slíkt hefur í mínum bókum sjaldan talist vera neikvætt. Þeir sem í landi þessu aðhyllast stéttskiptingu “lágmenningar” og “hámenningar” eru að mínu mati ekki í takt við samfélagsviðhorf nútímans. Ég hef í pistlum þessum stundum vísað til samanburðar hinna tveggja póla íslenskrar menningar – íþrótta og lista – og langar að gera það enn einu sinni hér til samanburðar á viðfangsefninu. Eftirfarandi er nokkurra daga gömul grein um listviðburð, valin af handahófi, nánar tiltekið umsögn um tónleika tiltekins harmónikkuleikara. Lýsingin er tekin orðrétt upp úr greininni að öðru leyti en því að breytt er hinum skáletraða texta til að færa umsögnina í búning ímyndaðrar íþróttafréttar:

“Teitur er körfuboltasnillingur. Vald hans á knetti sínum er algert og túlkunin hans alltaf næm og þannig unnin að við engu ætti að hrófla. Það er ekki auðvelt að lýsa snilld og verður ekki reynt hér, samt er rétt að nefna eitthvað af því sem gerir leik hans svo ómótstæðilegan. Styrkleikabreytingarnar eru í leik hans eins og birtubrigði eru í málverki bestu málara. Hann getur t.d. leikið svo örveikt og fínlega en þó svo hratt og örugglega að annað eins hefur varla sést. Hann hefur líka slíkt vald á hryn og hrynbreytingum að unun er að. Sveiflan er grípandi í öllum sendingum og sóknirnar hlaðnar þessari spennu sem fylgir einstakri hrynskynjun. Uppskrúfaðar lýsingar geta aldrei gefið nema óljósa tilfinningu fyrir því sem svona snillingar gefa gestum sínum. Klappið sem dundi á Teiti í lokin var tilraun til þakkar frá þeim sem fengu að njóta.”

Þetta er auðvitað gert til gamans, en ég bið lesendur sjálfa að leggja mat á það hversu viðeigandi slík lýsing ætti við um íþróttaviðburð, og hvort neytendur myndu fagna slíku orðskrúði daginn eftir spennandi kappleik í íþróttum. Það er auðvelt að tapa hinni raunverulegu frásögn í svo “hástemmdri” framsetningu, og jafnvel bærast í brjósti tilfinningar þess efnis að frásögninni sé fremur ætlað að upphefja “gagnrýnandann” heldur en viðfangsefnið. Ennfremur vaknar hér spurningin úr síðasta pistli varðandi það hvort svo kunni að vera að þeir neytendur sem lesa hinar ólíku lýsingar íþrótta- og listagagnrýnenda kunni að vilja lesa um þau ólíku svið með mismunandi orðalagi. Er þetta ekki sama fólkið – sami almenningurinn í landinu – sem les um þessa viðburði?

Eins og lesendur pistla þessara hafa orðið varir við þá hefur undirritaður nokkurt dálæti á að draga fram andstæðar öfgar til þess að varpa ljósi á inntak pistlanna. Í því samhengi vil ég benda á greinar hinna prýðilega skemmtilegu “ruslakarla” á heimasíðu körfuknattleiksdeildar ÍR. Þeir eru fulltrúar tiltekinnar menningar á þessu sviði, og þrátt fyrir mikla ást á móðurmálinu þá telst ég í hópi hinna fjölmörgu duldu aðdáenda þeirra, hvort sem menn telji að þeir “sletti” ótæpilega eður ei. Enginn skyldi setja sig á háan hest gagnvart slíkri menningu, en athyglisvert væri til samanburðar að fá þeirra útgáfu af framangreindri lýsingu á tónleikum harmónikkluleikarans.

Eitt vil ég hér minnast á eitt svið sem íþróttafréttamenn hafa sinnt í auknum mæli, en það eru pistlaskrif um einstök málefni íþróttahreyfingarinnar, hvort sem slíkt er um landslið, keppnisfyrirkomulag, skipulagsmál eða eitthvað annað. Þetta er afar fróðlegt og yfirleitt gagnlegt fyrir þá sem starfa innan vébanda íþróttahreyfingarinnar, því íþróttafréttamenn hafa sannarlega víðtæka þekkingu og mikilvægt sjónarhorn. Þessir pistlar eru þó oft mismunandi, og virðast í stöku tilvikum skrifaðir af lítilli ígrundun, stundum allt að því reiði varðandi tiltekið atriði – jafnvel skyndihugdettu. Kann slíkt að helgast af fyrrgreindu starfsumhverfi íþróttafréttamanna sem felst í hinni sífelldu tímapressu. Ég vil þó leggja áherslu á að þetta eru undantekningartilvikin.

Gaman væri hinsvegar að sjá meira af ítarlegum fréttaskýringum á sviði íþrótta, þar sem m.a. væri kafað undir yfirborð einstakra málefna og sjónarmið ólíkra aðila dregin fram. Slíkt þarf síður en svo að gerast eingöngu þegar eitthvað neikvætt á sér stað. Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir íþróttafréttamenn séu afar hæfir til ritunar slíkra fréttaskýringa, en hef jafnframt á tilfinningunni að starfsumhverfi þeirra og ritstjórn gefi vart tækifæri til slíkrar vinnu. Mín skilaboð til yfirmanna þeirra eru hinsvegar þau að gefa þeim – a.m.k. til reynslu – aukið svigrúm til slíkra “vísindalegra” rannsókna. Myndi það án efa lyfta verulega upp faglegri ásýnd íþróttafrétta, og vera viðkomandi fjölmiðli til framdráttar.

Að lokum vil ég nefna einn þátt sem sannarlega skilur íþróttafréttamenn hérlendis frá erlendum kollegum sínum, en það er aðbúnaður þeirra á íþróttaviðburðum. Þetta þekki ég af eigin raun eftir margar slíkar ferðir erlendis. Mér finnst eins og erlendis sé mun meiri skilningur á markaðslegu mikilvægi umfjöllunar um íþróttir, og því að íþróttafréttamönnum sé sköpuð viðunandi aðstaða á viðburðum og um þá hugsað sem mikilvæga gesti íþróttahreyfingarinnar. Fullnægjandi gögn um viðburðinn, smávægileg drykkjar- og matarföng, auk góðrar vinnuaðstöðu með yfirsýn yfir vettvanginn, eiga að vera svo sjálfsögð atriði að vart þarf að minnast á. Annað er skammsýni að mínu mati, en hver getur svarað fyrir sig hvernig hann stendur að móttöku og þjónustu við íþróttafréttamenn. Hér þurfum við að standa okkur betur.

Af tillitsemi við íþróttafréttamenn ætla ég hinsvegar ekki hér að fjalla nánar um frammistöðu þeirra á hinu árlega fjölmiðlaseminari KKÍ…

Ólafur Rafnsson,
formaður KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frá keppni drengjalandsliðs Íslands í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.  Morgunteygjuæfingar á hótelinu í Istanbul undir stjórn Brynjars Bergmanns
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið