© 2000-2023 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
25.3.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Áhorfendur
Einn er sá þáttur í starfsemi íþróttahreyfingar sem ekki er beint innan hennar vébanda, en er þó afar mikilvægur og ríkur þáttur í starfseminni. Þetta eru áhorfendur. Áhorfendur geta ýmist mætt á kappleiki eða horft á keppnir í sjónvarpi. Í báðum tilvikum eru áhorfendur neytendur sem skapa íþróttahreyfingunni tekjur – beint eða óbeint. Áhorfendur eru því einn af hornsteinum starfsemi okkar, og njóta e.t.v. ekki ávallt sannmælis sem slíkir.

Fyrst er e.t.v. gaman að velta fyrir sér eðli áhorfenda íþrótta. Draga má upp einkennandi mynd af hávaðasömum áhorfanda klæddum og máluðum í litum síns félags, sitjandi á flötum áhorfendabekkjum íslenskra íþróttahúsa. Hann er tilfinninganæmur og hefur síður en svo hlutlausa skoðun á því sem er að gerast á vellinum – og í sumum tilvikum liggur hann ekki á þeirri skoðun sinni. Hann hrópar á sessunaut sinn um skoðanir á dómgæslu og mistökum jafnóðum og þau gerast, til að yfirgnæfa umtalsverðan hávaða og bergmál í húsinu. Lúðrar, trommur, hróp og köll eru nefnilega hluti af “stemmingunni” – að hvetja sitt lið er hans heilaga hlutverk. Hans eina ánægja að leikslokum er sigur liðsins.

Til samanburðar geta menn séð fyrir sér áhorfanda á frumsýningu í Þjóðleikhúsinu. Hann situr prúður í samkvæmisklæðnaði í þægilega bólstruðu sætinu, og neytir ef til vill nokkurra konfektmola úr skrjáflausum plastpoka í upphafi sýningar og fyrirframpantaðs hvítvínsglass í hléi. Lúðrar og trommur eru í þar til gerðri gryfju, og reyndar skipulegri hluti sýningarinnar en á íþróttakappleik. Þátttaka áhorfandans snýst ekki um hávaða, heldur er hreinlega fólgin í því að skapa allt að því æpandi þögn, þó e.t.v. með gáfulegu hvísli til sessunautarins um dýpt túlkunar verksins, og jafnvel því að kalla hátt og snjallt “bravo-bravissimo” í lok sýningar ef frammistaðan var honum þóknanleg. Ánægja hans í lok sýningar er fólgin í djúpum skilningi hans á inntaki og boðskap verksins og stundum tilþrifamikil frammistaða einstakra leikara. Það er engin hlutlæg niðurstaða eða úrslit sem grundvalla líðan hans “eftir leik”.

Hafa menn annars velt fyrir sér með hversu keimlíkum hætti “leikararnir” – hvort heldur um er að ræða listamenn eða íþróttamenn – þakka áhorfendum fyrir í lok leiks eða sýningar? Ekki er óalgengt að hópurinn myndi breiðfylkingu og klappi áhorfendum lof í lófa fyrir framlag þeirra, og þiggi hyllingu þeirra um leið. Ef til vill er þessu þó frábrugðið að því leyti að gjarnan tekur einungis annað kapplið íþróttanna þátt í þeirri athöfn.

Sem fyrr er hér dregin upp öfgafull mynd beggja megin, og meira gert til gamans. Engu að síður er í báðum tilvikum um að ræða hinn s.k. “almenning”. Getur það verið að það séu sömu einstaklingarnir sem falla undir báðar framangreindar skilgreiningar? Getur það verið að umhverfið móti áhorfandann með þeim hætti? Getur það verið að leikhússáhorfandinn hafi snarað af sér þverslaufunni og brugðið sér í gallabuxur og íþróttabol áður en hann fór á kappleik? Svari nú hver fyrir sig.

Meginatriði er að gera sér grein fyrir mikilvægi áhorfenda sem neytenda á vettvangi íþróttahreyfingarinnar. Án áhorfenda líða afreksíþróttir fljótt undir lok, og þar með sá grundvöllur íþróttastarfsemi sem felst í þeim fyrirmyndum sem ungir iðkendur eiga að markmiðum að verða hluti af í framtíðinni. Athygli áhorfenda er sannarlega hvati til ástundunar og afreka.

Skipta má forsendum fyrir áhuga áhorfenda í þrennt. Í fyrsta lagi verður ávallt gæði vörunnar sem boðið er upp á, þ.e. íþróttaleg gæði. Þetta byggir á langtímamarkmiðum og vöruþróun í formi þjálfunar einstaklinga frá unga aldri. Í öðru lagi er um að ræða umgjörðina, en undir það myndu t.d. falla reglur og keppnisfyrirkomulag, og auk þess ýmisskonar skemmtanir og umgjörð í kringum einstaka kappleiki. Í þriðja lagi er um að ræða umfjöllun fjölmiðla. Hún er nauðsynleg til þess að áhorfendur hafi þekkingu á íþróttum, viti af kappleikjum, og fylgist með fréttum af afdrifum leikja o.s.frv. Áhorfendur eru nefnilega líka neytendur gagnvart fjölmiðlum.

Það er skynsamlegt af íþróttahreyfingunni að bera virðingu fyrir “áhorfendum”. Það væri jafnframt skynsamlegt af íþróttahreyfingunni almennt að kanna reglulega þarfir og vilja áhorfenda íþrótta í nútíma samfélagi. Við þurfum á því að halda að áhorfendur haldi áfram að mæta á kappleiki og íþróttaviðburði. Þetta ætti reyndar að vera sameiginlegt markmið allra íþrótta án tillits til innbyrðis samkeppni.

Hvernig væri að segja “Áfram áhorfendur!”

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.


Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Axel Kárason tekur hér eitt af sínum fyrstu körfuboltaskotum á ævinni á heimatilbúna körfu í Sólheimum í Blönduhlíð þar sem hann bjó.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið