© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
11.3.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Íþróttir, viðskiptalífið og samkeppni
Áður hefur í pistlum þessum verið minnst á samsvörun ýmissa þátta íþrótta við samfélagið, og raunar bent á með hvaða hætti hið almenna samfélag okkar getur tekið framkvæmd íþróttahreyfingarinnar til fyrirmyndar á ýmsum sviðum. Á þetta ekki síst við um viðskiptalífið – sem íþróttahreyfingin hefur þó jafnan átt svo gagnlegt og ánægjulegt samstarf við.

Eitt þessara atriði er samkeppni. Ég ætla að vísu yfirvöldum ekki það að hafa sniðið hinar tiltölulega ungu samkeppnisreglur íslensks viðskiptalífs eftir fyrirmyndum úr íþróttahreyfingunni, en engu að síður er sláandi hvað lögmálin eru í mörgum tilvikum sambærileg.

Íþróttir fela á ýmsan hátt í sér eins hreina samkeppni og hugsast getur. Einn eða fleiri þátttakendur vinna skipulega að því með æfingum og keppni að ná tilteknum árangri umfram aðra keppendur á sama “markaði”. Líkt og í viðskiptalífinu er afraksturinn fólginn í peningum – að vísu verðlaunapeningum.

En samkeppnin sjálf er ekki hið athyglisverðasta í þessum samanburði. Það er reglukerfið og framkvæmd þess. Þar hefur íþróttahreyfingin – meðvitað eða ómeðvitað – skapað afar ítarlegt kerfi reglna og dómgæslu sem tryggja á heiðarlega keppni, jafnræði keppenda og ferli sem dregur jafnan með skýrum hætti fram sigurvegarann hverju sinni. Hér hefur körfuknattleikur reyndar nokkra sérstöðu ásamt nokkrum öðrum greinum með því að viðurkenna ekki jafntefli.

Einstakir keppendur, lið eða þjálfarar innan íþróttahreyfingarinnar þróa sínar aðferðir við að ná árangri, hvort heldur um er að ræða skipulag æfinga, leikkerfi o.s.frv., með sama hætti og vöruþróun, markaðsþróun o.s.frv. er ástunduð innan viðskiptalífsins. Í báðum tilvikum eiga menn sín “viðskiptaleyndarmál” sem ekki eru ljóstruð upp til andstæðinga. Málið er að vera fyrstur. Málið er að vera bestur. Citius, Altius, Fortius á við um viðskiptalífið jafnt sem Ólympíuleika.

Í íþróttum jafnt sem viðskiptalífinu er það lykilatriði að hafa á að skipa bestu og hæfustu “leikmönnunum” og geta aðilar gengið nokkuð langt í að tryggja sér bestu leikmennina. Finna má ígildi s.k. “hausaveiðara” á báðum mörkuðum, og ennfremur ýmis form vinnumiðlunar. Munurinn er ef til vill sá að þátttaka í íþróttum, a.m.k. hér á landi, byggist á áhugamennsku, og samanburður við viðskiptalífið erfiður þegar kemur að kjörum, starfslokasamningum og öðru sambærilegu. En bestu “leikmennirnir” eru eftir sem áður grundvöllur árangurs.

“Hlutgengi” þátttakenda í íþróttum ræðst af kyni, aldri, ríkisborgararétti o.s.frv. á sama tíma og hlutgengi fyrirtækja getur ráðist af starfsleyfum, fagréttindum, nú eða t.d. hlutgengi á verðbréfamarkaði sem ræðst af skilyrðum Kauphallar. Munur á hlutgengi er hinsvegar fólginn í því að í íþróttum er keppendum skipað í flokka eða deildir, vissulega með möguleika á að vinna sig upp, en innan viðskiptalífsins er það markaðurinn sjálfur – neytendur – sem ákvarða “hlutgengi” einstakra fyrirtækja.

Þegar kemur að keppninni sjálfri þurfa keppendur íþrótta að lúta ákvörðunum dómara, lyfjaeftirlits og jafnvel mótshaldara sem tryggja á jafnræði keppenda, með sama hætti og fyrirtæki á markaði þurfa að lúta reglum t.d. samkeppnisyfirvalda, fjármálaeftirlits, lögreglu og skattayfirvalda. Ágreiningur sem upp kemur kann að sæta málskoti til sérhæfðra úrskurðaraðila innan íþróttahreyfingarinnar, á borð við aganefnda, mótanefnda og félagaskiptanefnda – að nokkru leyti sambærilegum við úrskurðarnefndir viðskiptalífsins, t.d. samkeppnisráð, yfirskattanefnd o.s.frv.

Bæði félög og einingar innan íþróttahreyfingarinnar annarsvegar og fyrirtæki og faghópar innan viðskiptalífsins eiga sér sameiginleg hagsmunafélög sem kjósa sér stjórnir með lýðræðislegum hætti. Á þessu er enginn munur í íþróttum og viðskiptum – þ.e. menn vinna saman utan vallar en keppa innan vallar.

Að ýmsu leyti má vel hugsa sér að lögmál samkeppnislaga litu meira til fyrirkomulags innan íþrótta, t.d. með því að koma í veg fyrir fákeppni og markaðsráðandi stöðu. Þetta má segja að NBA deildin bandaríska geri með nýliðavali (“draftið”) sínu ár hvert þar sem lökustu liðin fá fyrst að velja nýliðana árið eftir, og jafnframt eru í gildi reglur um launaþak sem ætlað er að tryggja markaðslegt jafnræði meðal liðanna.

Og svo er það viðskiptasiðferðið. Út í samanburð á siðferði innan íþrótta eða viðskipta ætla ég ekki að hætta mér að sinni.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Kristinn Óskarsson tekur við viðurkenningu frá Hannesi Jónssyni formanni KKÍ í tilefni af 1000. leiknum sem Kristinn dæmdi á mótum á vegum KKÍ. Kristinn er aðeins þriðji dómarinn til að ná þessum merka áfanga en kollegar hans Jón Otti Ólafsson og Rögnvaldur Hreiðarsson hafa einnig náð að kljúfa 1.000 leikja múrinn.
Leikur nr. 1.000 var viðureign Vals og Reynis frá Sandgerði í 1. deild karla 4. janúar 2008.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið