© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
25.2.2003 | Ólafur Rafnsson
Leiðari vikunnar - Hlutgengi
Orðið hlutgengi er nokkuð sem ég hef orðið var við að margir eiga erfitt með að skilja. Í daglegu tali er fremur vísað til þess hvort leikmaður “sé löglegur” heldur en að leikmaðurinn sé hlutgengur eða óhlutgengur. Hugtakið hlutgengi á sér samsvörun í almenna samfélaginu, en þar er t.d. talað um kjörgengi svo dæmi sé nefnt.

Leikmaður sem er hlutgengur er “löglegur” leikmaður innan þess reglukerfis sem íþróttahreyfingin hefur sett sér. Reglur um hlutgengi geta ráðist af ýmsum þáttum, svo sem aldri, kyni og jafnvel þjóðerni. Hlutgengi felur í sér félagsaðild í tiltekinni einingu innan íþróttahreyfingarinnar og afmarkar þann hóp leikmanna sem mega taka þátt í tiltekinni keppni skv. reglum viðkomandi einingar, og þar með að eiga möguleika á að verða sigurvegarar í keppninni.

Algengasta orsök ágreinings varðandi hlutgengi varðar félagaskipti leikmanns, hvort rétt hefur verið að þeim staðið eða hvort tiltekinn tími þurfi að líða frá tilkynningu um félagaskipti þar til þau taka gildi gagnvart reglunum.

Leikmaður getur jafnan einungis verið hlutgengur með einu félagi hverju sinni, a.m.k. innan sömu íþróttagreinar – með svipuðum hætti og einstaklingar í samfélaginu geta einungis verið skráðir þegnar eins tiltekins sveitarfélags í senn, og greitt þar sína skatta og skyldur og haft þar sinn kosningarétt.

Munur á hlutgengi innan íþróttahreyfingarinnar annarsvegar og t.d. sveitarfélagi hinsvegar er að á meðan borgaraleg réttindi byggja á stjórnarskrárvernduðum persónuréttindum þá grundvallast hlutgengi íþróttahreyfingarinnar fremur á samningsréttarlegum sjónarmiðum.

Einstaklingur sem flytur milli sveitarfélaga þarfnast ekki sérstaks samþykkis sveitarfélagsins. Hann er einfaldlega skráður þar með lögheimili og öðlast réttindi og skyldur á grundvelli þess. Aðili sem óskar að skipta um félag í íþróttum þarf hinsvegar að gera slíkt með formlegum hætti.

Sem dæmi um samningsbundnar heimildir íþróttahreyfingarinnar að þessu leyti má nefna hina s.k. “venslasamninga” þar sem leikmaður getur verið hlutgengur með tveimur félögum að uppfylltum tilteknum skilyrðum, s.s. þeim að félögin leiki ekki í sömu deild.

Þá getur sami leikmaður jafnframt verið hlutgengur í mismunandi þrepum sinnar félagseiningar, og eru þar ýmsar misflóknar reglur. Þannig getur leikmaður t.d. í senn verið hlutgengur með sínu félagsliði í íslandsmóti á sama tíma og hann tekur þátt í móti þar sem heildarsamtök með fleiri en eitt lið innan sinna vébanda sendir sameiginlegt lið til keppni, t.d. héraðssamband. Hið sama á vitaskuld við um þátttöku í landsliði á vegum sérsambanda.

Enn má nefna dæmi um leikmann í tilteknum aldursflokki sem telst hlutgengur í eldri aldurshópum – leikur “upp fyrir sig” eins og það er nefnt í daglegu tali. Af augljósum ástæðum er almennt ekki hægt að snúa þeirri reglu við, þ.e. að eldri leikmaður leiki með yngri aldurshópi. Þó eru til dæmi um slíkt og má nefna ungmennalandslið og fyrirkomulag í 2. deild á íslandsmótinu í körfuknattleik.

Þótt ekki sé hefð fyrir því að takmarka aðgang að íþróttafélögum varðandi félagsskipti þá er ekkert sem í reynd kemur í veg fyrir að aðildarfélag synji nýjum félagsmanni um félagsaðild.

Á hinn bóginn geta félagsskipti takmarkast við viðskilnað leikmanns við það félag sem hann er að ganga úr. Ef til vill þyrfti að skilgreina betur hvaða atriði geta takmarkað félagsskipti undir slíkum kringumstæðum, en fjárhagsleg skuld leikmanns við félagið hefur verið talið dæmigert slíkt atriði. Synjun félagsins á undirritun undir félagaskipti getur takmarkað eða tafið framkvæmd félagaskipta leikmannsins.

Á vegum KKÍ hefur verið starfrækt s.k. “félagaskiptanefnd” í u.þ.b. 10 ár, en nefndinni er ætlað að leysa úr ágreiningi sem upp kemur varðandi félagaskipti og vera KKÍ til ráðgjafar um þennan málaflokk. Nokkuð mæddi á nefndinni fyrir nokkrum árum þegar gefið var svigrúm til huglægs mats á undanþágum frá reglum um takmörkun á tímabili félagaskipta.

Takmarkanir á félagaskiptum er eitt af stjórntækjum hreyfingarinnar, m.a. varðandi verndun á uppeldi ungra leikmanna. Alþjóða körfuknattleikssambandið, FIBA, samþykkti m.a. á nýafstöðnu heimsþingi að takmarka alþjóðleg félagaskipti leikmanna undir 18 ára aldri.

Ein ástæða þess að undirritaður ritar pistil um hlutgengi leikmanna er sú að í næsta pistli er ætlunin að fjalla um stórt og viðkvæmt mál innan íþróttahreyfingarinnar sem varðar verulega hlutgengi, en það er Bosman-dómurinn svonefndi.

Ólafur Rafnsson,
Formaður KKÍ.






Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Drengjalandslið Íslands sem tók þátt í úrslitakeppni Evrópukeppninnar í Tyrklandi árið 1993.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið