© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
4.7.2013 | 10:33 | Stefán | KKÍ
Kveðja frá Körfuknattleikssambandi Íslands
Fallinn er frá kær vinur, traustur félagi, góður ráðgjafi, duglegur, hreinskilinn, hjartahlýr, ósérhlífinn og umfram allt óumdeildur leiðtogi og svona gæti ég haldið áfram upptalningunni á Ólafi Eðvarði Rafnssyni fyrrverandi formanni KKÍ eða Óla Rafns eins og hann var nefndur í daglegu tali.

Síðustu dagar hafa verið erfiðir og þungir innan körfuknattleiksfjölskyldunnar og að Óli sé fallinn frá er okkur öllum ansi óraunverulegt. Það er alltaf óréttlát þegar einstaklingur á besta aldri er tekinn svona fyrirvaralaust í burtu frá okkur.

Ekki fleiri hittingar, faðmlög, símtöl, tölvupóstar,sms – mikið getur þetta líf stundum verið ósanngjarnt og grimmt. Við vinirnir áttum eftir að ræða margt og koma ýmsu í verk fyrir okkar ástkæru íþrótt.

Óli var keppnismaður mikill og vann af miklum heilindum og ástríðu fyrir körfuboltann og íþróttahreyfinguna alla bæði hér á Íslandi sem og í Evrópu.

Það var ólýsanleg stund að verða vitni að því þegar tilkynnt var að Óli hefði verið kjörinn forseti FIBA Europe, eitt stærsta álfusamband í heiminum.

Enginn Íslendingur hefur gengt stöðu sem þessari innan íþróttahreyfingarinnar sem sýnir vel hversu mikill leiðtogi Óli var.

Síðustu daga hefur verið ómetanlegt að finna þá samheldni og vináttu sem ríkir í í körfuknattleiks- og íþróttahreyfingunni. Þrátt fyrir samkeppni innan sem utan vallar íþróttanna þá er það einmitt hin fjölbreytta og góða vinátta sem einkennir íþróttahreyfinguna og allt hennar starf. Óli á svo sannarlega stað í hjörtum fjölmargra einstaklinga hér á landi sem og erlendis.

Körfuknattleikshreyfingin hefur misst svo mikið með fráfalli Óla og þá ekki bara á Íslandi eða í Evrópu heldur í heiminum öllum. Það sýna fjölmargar samúðarkveðjur sem borist hafa á undanförnum dögum frá forráðamönnum körfuknattleikssambanda víðsvegar um heiminn. Minning um sterkan leiðtoga og kæran félaga lifir hjá körfuboltahreyfingunni um allan heim.

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að starfa náið og mikið með Óla síðustu 15 árin og kveð því ekki bara góðan félaga heldur einstakan, hlýjan og traustan vin með mikilli sorg í hjarta og það eru ófá tárin sem hafa fallið síðustu daga.

Eins og vinir gera þá spjölluðum við einnig mikið um fjölskyldur okkar og hvað væri að frétta af okkar fólki, ég veit því eins og fleiri að án stuðnings Gerðar, konu Óla, og barna þeirra hefði hann ekki getað gert allt það sem hann gerði fyrir körfuknattleiks- og íþróttahreyfinguna.

Stærstur og sárastur er missirinn að sjálfsögðu hjá Gerði, börnum þeirra Auði, Sigurði og Sigrúnu, foreldrum Óla, tengdamóður og systkinum. Hugur okkar og bænir eru með ykkur og sendi ég ykkur kæru vinir innilegustu samúðarkveðjur körfuknattleiksfjölskyldunnar og þakkir fyrir allt það starf sem Óli vann.

Guð blessi og varðveiti minningu Ólafs E. Rafnssonar

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ
Hannes S.Jónsson formaður
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Frægur leikur í gömlu Skemmunni á Akureyri á milli Hauka og Þórs árið 1983, þar sem þeir Einar Bollason þjálfari Hauka og Hörður Tuliníus dómari leiksins kærðu hvorn annan.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið