© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
 
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
           
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
10.5.2012 | 13:30 | FÍR | Euroleague
Úrslit í Euroleague um helgina: Kynning á liðunum


Meistaradeild Evrópu – Final Four 11. – 13. maí.
Það er ekki ofsögum sagt að Final Four í Meistaradeild Evrópu árið 2012 líti afar vel út. Öll félögin hafa verið mjög sigursæl í keppnum heima fyrir sem og í mismunandi Evrópukeppnum síðustu áratuga og Meistaradeildarinnar undanfarið. Allir þjálfararnir hafa unnið þennan titil og einnig hafa fjölmargir leikmenn sem eru að spila um helgina unnið hann einu sinni eða oftar . Reynsla og þekking á aðstæðum er því mjög mikil sem gerir þennan viðburð enn stærri og meira spennandi.

Leikirnir fara fram í Tyrklandi og þar er mikill áhugi fyrir körfubolta og aðal stuðningsaðili Meistaradeildarinnar er Turkish Airlines, þanig að keppnin fer fram á heimavelli flugfélagsins sem skemmir ekki fyrir.

Undanúrslitaleikirnir fara fram föstudaginn 11. maí.

Fyrri undanúrslitaleikur dagsins er viðureign CSKA Moscow og Panathinaikos. Þessi lið hafa verið sigursæl í þessari keppni undanfarin ár, hafa bæði unnið hana og nokkrum sinnum hist í úrslitaleik.

Panathinaikos:
Þjálfari Panathinaikos er Serbinn Zeljiko Obradovic, sigursælasti þjálfari Evrópu. Hann hefur t.d. unnið meistaradeildina átta sinnum með fjórum mismunandi félögum, Panathinaikos (5), Partizan Belgrade (1), Joventud Badalona (1) og Real Madrid (1) og að auki hefur hann unnið Evrópukeppnina og Heimsmeistarakeppnina með júgóslavneska landsliðinu. Obradovic hefu svo unnið fjölmarga titila með ýmsum félögum í mismunandi löndum.

Helstu stjörnur eru:

Dimitris Diamantidis, örvhentur alhliða bakvörður. Hann hefur m.a. verið valinn nokkrum sinnum verðmætasti leikmaður keppninnar, síðast í fyrra. Hann er klókur og finnur gjarnan réttu leiðirnar og jafnframt er hann góður varnarmaður.


Dimitris Diamantidis

Mike Batiste, sterkur og fjölhæfur framvörður með mikla reynslu úr þessarri keppni en hann hefur unnið Meistaradeildina þrisvar með Panathinaikos. Batiste er oftast með stigahæstu mönnum liðsins en hann skorar bæði fyrir innan og utan. Hann er Bandaríkjamaður

Sarunas Jasikevicius, landsliðsmaður Litháen hefur mikla þekkingu við þessar aðstæður en hann hefur leikið með nokkrum af bestu liðum Evrópu á ferlinum og landsliðinu.

Romain Sato er mikill íþróttamaður sem kemur frá Afríku. Sato lék lengi með Siena á Ítalíu og varð ítalskur meistari nokkrum sinnum. Hann kom til Panathinaikos fyrir tímabilið 2010-2011 og var með liðinu þegar það vann Meistaradeildina á síðustu leiktíð.



CSKA Moscow:
Þjálfari CSKA er Litháinn Jonas Kazlauskas en hann þjálfaði áður m.a. landslið Litháen og Kína en hann stýrði einmitt kínverska landsliðinu þegar það mætti Íslandi 2005. Jonas vann Meistaradeildina 1999 með Zalgiris Kaunas og einnig hefur hann unnið fjölmarga titla með ýmsum félögum í mismunandi löndum.

Helstu stjörnur eru:

Andrei Kirilenko sem flestir þekkja sem leikmann Utah Jazz og rússneska landsliðsins. Kirilenko er alhliða framvörður sem er góður nánast í öllum þáttum leiksins. Leikskilningur hans er afburðagóður sem nýtist honum vel í varnarleiknum sem og sókninni en hann er einkar lúnkinn við að vera á réttum stöðum. Kirilenko leiddi Rússland til sigurs á Spánverjum í úrslitaleik Evrópumóts landsliða í Madrid 2007.

Nenad Krstic er serbneskur landsliðsmaður sem hefur m.a. leikið í nokkur ár í NBA deildinni. Nenad er sterkur inn í teignum og getur verið erfiður viðureignar. Hann á eftir að reyndst liði sínu vel í átökunum framundan.

Milos Teodosic frá Serbíu kom til liðsins fyrir þetta tímabil en hann var áður hjá Olympiacos. Milos er frábær leikstjórnandi sem þó hefur nef fyrir því að skora og taka af skarið ef á þarf að halda. Fræg er karfan hans á Heimsmeistaramótinu í Tyrklandi sem hann skoraði á lokakafla leiksins gegn Spánverjum sem varð til þess að ríkjandi Evrópumeistarar voru úr leik.


Milos Teodosic

Ramunas Siskauskas er einn af leikreyndustu leikmönnum Meistaradeildarinnar þar sem hann hefur m.a. verið valinn verðmætasti leikmaður keppninnar. Siskauskas er landsliðsmaður Litháen og hefur lengi verið nánast óstöðvandi með landsliðinu og CSKA. Hann er leikmaður sem gerir allt rétt. Það hefur reyndar aðeins hægst á honum en reynsla hans mun nýtast rússneska liðinu.


Seinni undanúrslitaleikur dagsins er viðureign Olympiacos og Barcelona og þar eins og í fyrri leik dagsins fara lið sem hafa verið sigursæl í öllum mótum í marga áratugi.


Olympiacos:
Þjálfari Olympiacos er Dusan Ivkovic sem er margreyndur í bransanum. Það voru ekki margir sem áttu von á því að Olympiacos færi svona langt í kepninni í ár en annað kom á daginn. Hann vann Meistaradeildina 1997 með Olympiacos, gerði Júgoslavíu að Evrópumeisturum 1989, 1991 og 1995 og Heimsmeisturum 2000 svo eitthvað sé nefnt. Dusan er elsti þjálfarinn í Final Four.


Dusan Ivkovic

Helstu stjörnur eru:

Vassilis Spanoulis er leikstjórnandi. Hann er grískur landsliðsmaður með mikla reynslu. Vassilis kann leikinn vel sem finnur samherja sína vel eða tekur af skarið og skorar ef þess þarf. Það mun mikið mæða á Herra Spanoulis í rimmu sinni við Navarro.

Kyle Hines er framvörður sem vann nánast allt sem hægt er að vinna í Þýskalandi á síðustu leiktíð en hann lék með Brose Baskets Bamberg. Hines sem er Bandaríkjamaður er fjölhæfur leikmaður og ávallt með stigahæstu mönnum liðsins.

Pero Antic landsliðsmaður og fyrirliði Makedóníu sem stóð sig frábærlega á Evrópumótinu í Litháen þar sem liðið náði 4. sætinu. Antic er mikill baráttuhundur sem bindur vörnina saman. Sóknarlega er hann fylginn sér en hann býr jafnframt yfir þeim hæfileikum þrátt fyrir leikstöðu og hæð að vera góð 3-stiga skytta.

Georgios Printezis hefur leikið vel fyrir Olympiacos á þessu ári og er einn af þeim leikmönnum sem hafa verið að stíga upp og skila stærra hlutverki til liðsins.


Barcelona:
Þjálfari Barcelona er Xavi Pascual sem hefur náð mjög góðum árangri eftir að hann vann sig upp í stöðu aðalþjálfara. Xavi var einungis 37 ára þegar hann stýrði Barcelona til sigurs í Meistaradeildinni, sá yngsti sem hefur ná því. Hann er talinn einn af færustu þjálfurum Evrópu.

Helstu stjörnur eru:

Juan Carlos Navarro er Kóngurinn í Katalóníu og Spáni þegar það á við. Navarro er fjölhæfur leikstjórnandi sem getur auðveldlega leikið í stöðu skotbakvarðar ef því er að skipta þar sem hann hefur hæfileika til að skora. Hann var kosin verðmætasti leikmaður síðustu úrslita í Evrópukeppni landsliða þegar Spánn bar sigurorð á Frökkum í úrslitaleik í september 2011.

Erazem Lorbek, slóvenskur landsliðsmaður er fjölhæfur miðherji. Hann er ekki sá sterkasti líkamlega en hann kann að koma sér í stöður til að ógna og skora. Hann er með mikla tækni og er vel skólaður. Lorbek kemur úr sterkum '84 árgangi Slóvena.

Pete Mickeal er afar fjölhæfur framvörður sem getur skorað inn í og fyrir utan. Pete hefur leikið síðustu 3 ár með Barcelona og vann Meistaradeildina með liðinu 2010 svo hann þekkir þessa keppni vel. Hans framlag gæti skilið á milli þegar upp er staðið.


Nokkrir molar til fróðleiks og skemmtunar:

Kostas Tsartsaris leikmaður Panathinaikos og gríska landsliðsins lék með Grindavík 1997-1998

Dusan Ivkovic þjálfari Olympiacos þálfar einnig landslið Serbíu sem kemur til Íslands í ágúst. Ísland leikur gegn Serbum í Laugardalshöll 14. ágúst nk.

Zeljiko Obradovic, þjálfari Panathinaikos var aðstoðarþjálfari Dusan Ivkovic hjá Júgóslavíu 1995 þegar liðið varð Evrópumeistari.

Nenad Krstic og Milos Teodosic leikmenn CSKA koma til Íslands í sumar með landsliði Serbíu.

Chuck Eidson leikmaður Barcelona lék með Loga Gunnarssyni hjá Giessen í Þýskalandi.

Erazem Lorbek frá Slóveníu lék með Jóni Arnóri Stefánssyni hjá Roma á Ítalíu þar sem þeir félagar léku m.a. saman í Meistaradeildinni.

Joe Ingles leikmaður Barcelona lék með Jóni Arnóri Stefánssyni hjá Granada á Spáni í tæp tvö tímabil, Barcelona keypti hann á miðju tímabíli.

Judson Wallace leikmaður Barcelona lék með Jóni Arnóri Stefánssyni hjá Benetton Treviso á Ítalíu 2009. Jón fór til Ítalíu eftir að hafa unnið titilinn með KR í apríl.

Jasikevicius leikmaður CSKA og Navarro leikmaður Barcelona voru saman með Barcelona þegar liðið vann sinn fyrsta Meistaradeildartitil 2003.

Dejan Bodiroga fyrrum samherji Jóns Arnórs hjá Roma var valinn verðmætasti leikmaður úrslitaleikisins 2003. Bodiroga er varaforseti serbneska sambandsins og er væntanlegur með liðinu til Íslands í sumar.

Þeir leikmenn sem hafa verið valdir MVP síðustu fjögur árin eru allir að spila í Final Four 2012. Siskauskas (2008), Navarro (2009), Teodosic (2010) og Diamantidis (2011).

Turkish Airlines býður farþegum sínum sem eru í loftinu á meðan á leikjunum stendur á að horfa á þá í beinni útsendingu.


Það eru margir frábærir leikmenn sem ég hef ekki talið sérstaklega upp sem vert er að fylgjast með í þessum komandi leikjum. Jafnframt er þetta alls ekki tæmandi umfjöllun um liðin eða leikina framundan heldur eingöngu að draga upp nokkra áhugaverða þætti ef það má vera til þess að auka áhuga einhvers á að fylgjast með þessu.

Þetta er sá körfubolti sem við á Íslandi eigum að tileinka okkur og miða okkur við. Ég hvet alla sem hafa áhuga á góðum körfubolta að láta þessa leiki ekki framhjá sér fara.

Úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 13. maí.



BEINT Á SPORTTV.is • Dagskráin
Sporttv.is mun sýna beint frá leikjum helgarinnar frá „Final-Four" í Euroleague í opinni dagskrá. Smelltu hérna til að fara á vef Sporttv.is.

Föstudagur kl.15.00 • CSKA MOSCOW - PANATHINAIKOS
Föstudagur kl.18.00 • OLYMPIACOS - FC BARCELONA

Sunnudagur kl.15.00 • leikur um 3 sætið
Sunnudagur kl.18.00 • Úrslitaleikurinn
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Einar Bollason fylgist ábúðarfullur með sínum mönnum í KR í oddleik liðsins gegn Snæfelli vorið 2006.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið