S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
||
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
31 |
18.7.2011 | 21:34 | FÍR | Landslið, Yngri landslið
Frábær þriðji leikhluti skóp sigurinn
Bæði lið voru staðráðin í að gefa allt sitt í að ná fyrsta sigrinum og mátti það merkja á andlitum leikmanna. Hvíta Rússland er með nokkuð gott lið, skipað jöfnum leikmönnum sem eru býsna fjölhæfir og geta leikið nokkrar stöður. Því miður mættum við ekki með fullskipað lið þar sem Haukur Óskarsson meiddist á hálsi í gær og má hann ekki spila meira á mótinu. Fyrsti leikhluti var jafn en staðan að honum loknum var jöfn 25:25. Varnarleikur okkar var ekki nógu góður en ekki hægt að kvarta yfir því að skora sjálfir 25 stig. Baráttan hélt áfram fram að hálfleik þar sem liðin skiptust á að hafa forystu en staðan í hálfleik var 46:47 Hvít Rússum í hag. Það var gríðarlega einbeitt íslenskt lið sem steig inn á völlinn í upphafi þriðja leikhluta, varnarleikurinn var til fyrirmyndar þar sem vinnsla leikmanna var virkilega góð og menn að hjálpa hver öðrum. Við náðum fljótlega yfirhöndinni og unnum leikhlutann 32:17. Í lokaleikhlutanum átti eftir að hitna í kolunum þar sem pústrar voru farnir að taka toll og leikmenn beggja liða létu andstæðinginn finna fyrir því. Ægir Þór þurfti að yfirgefa leikvöllinn eftir að hafa fengið nokkuð harkalegt högg á barkann en hann var fljótlega kominn aftur á fjalirnar enda einbeittur að stýra sínu liði til sigurs. Eftir að Hvít Rússar náðu að minnka muninn í eitt stig náðum við að snúa þessu okkur í hag og átti Martin Hermannsson nokkrar mikilvægar körfur sem töldu þegar upp var staðið. Lokatölur voru 97:84 og fyrsti sigurinn í höfn. Félagarnir Ægir Þór og Haukur Helgi fóru hamförum í leiknum. Ægir Þór var með 25 stig, 4 stoðsendingar og 8 fráköst. Haukur Helgi var með 33 stig, 9 fráköst, 5 stolna bolta og 3 stoðsendingar og þar af var ein aftur fyrir bak sem gaf opið sniðskot. Tómas Heiðar var með 18 stig og þar af voru þrír stórir þristar. Trausti Eiríksson var ekki að skora mikið í dag en kappinn sá er baráttuhundur eins og þeir gerast duglegastir. Nauðsynlegt að hafa svona leikmenn í öllum liðum. Emil Barja lék í tæpar 20 mínútur og skilaði fínu verki. Daði Berg kom af bekknum og leysti leikstjórnandahlutverkið og setti mikilvæga körfu þegar á þurfti að halda á tímapunkti í leiknum þar sem hik var á leik liðsins. Martin Hermannsson heldur áfram að koma af bekknum og gera góða hluti. Martin setti 6 stig og þar af var ein þriggja stiga karfa gegn svæðisvörn Hvít Rússana þegar smá kuldi var í liðinu. Auk stiganna var Martin með 2 fráköst og 3 stoðsendingar. Aðrir leikmenn sem léku minna létu sitt ekki eftir liggja hvort sem þeir voru innan eða utan vallar og hvöttu samherja sína óspart. Næsti leikur liðsins verður á miðvikudag en frídagur er á morgun hjá öllum keppendum. Við lendum í milliriðli með Ísrael, Finnlandi og Stóra Bretlandi sem koma úr C-riðli. Finnar og Ísrael taka með sér 2 stig en Finnar unnu Breta og Ísrael vann okkur. Við leikum gegn Finnum á miðvikudag og Stóra Bretlandi á fimmtudag. Þessar fjórar þjóðir ásamt Póllandi og Rúmenum úr A-riðli og svo Slóvökum og Hollendingum úr B-riðlinum eru að berjast um sæti 9 - 16. |