© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
6.5.2011 | 17:30 | Stefán | KKÍ
Setningarræða Körfuknattleiksþingsins í dag
Setningarræða Hannesar S. Jónssonar á þinginu 2011
Setningarræða Hannesar S. Jónssonar, formanns KKÍ, í dag á Körfuknattleiksþinginu sem fram fer á Sauðárkróki.

Þingforseti , ágætu félagar

Þar sem ársskýrslan var send í upphafi vikunnar til ykkar og hún er aðgengileg á heimasíðu okkar þá mun ég ekki fara yfir hana hér lið fyrir lið en hvet ég ykkur að lesa það sem þar kemur fram ef þið hafið ekki gert það nú þegar.

Eins og rædd var á þingi okkar 2009 var ljóst að fara þyrfti alvarlega yfir fjármál sambandsins og þá sérstaklega útgjöldin til þess að koma fjármálunum í betri farveg.
Ljóst var vegna efnahagsástandins að erfitt yrði að ná í aukningu á tekjuhliðinni.

Einn af kostnaðarsömustu útgjaldaliðum sambandsins er þátttaka í Evrópukeppnum, það eru ferðalögin sem keppnunum fylgja sem og að taka á móti mótherjum okkar hér heima. Þessi kostnaður hefur tvöfaldast frá 2008 án þess að styrkir hafi hækkað - þeir hafa frekar lækkað.

Stjórn KKÍ leit á það sem ábyrgðaleysi eins og staðan var þá að skuldbinda sambandið í enn frekari fjárhagsskuldbindingar með því að senda A-lið karla og kvenna í Evrópukeppni sem spannar tvö ár það eru haustin 2010 og 2011.

Þessi ákvörðun stjórnarinnar var langt frá því að vera auðveld og er ég stoltur af félögum mínum í stjórninni að hafa haft þor til að taka svona ákvörðun. Ég tel að reikningar sambandsins sem fylgja ársskýrslunni núna hafi sýnt að rétt ákvörðun var tekin.

Starfsemi KKÍ hefur farið ört vaxandi á síðustu 10 til 15 árum og var orðið nauðsynlegt að fara vel yfir alla starfsemi sambandsins og körfuknattleikshreyfingarinnar.

KKÍ í dag er eitt af stærri sérsamböndum ÍSÍ, heldur úti eina stærsta móthaldi sem fram hér á landi, stendur fyrir öflugu og umfangsmiklu afreksstarfi ásamt mörgum öðrum verkefnum.

Stjórn og starfsmenn hafa haldið nokkra starfsdaga þar sem farið er vítt og breitt yfir starfsemina. Sú stjórn sem mun taka við hér á þessu þingi þarf að halda áfram þessari vinnu. Búið er að setja fram markmið til 2016 og fylgja þau markmið með hér í ársskýrslunni.

Til þess að halda úti öflugu afreksstarfi þarf fjármagn. Það er öllum ljóst sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar að ríkisvaldið styður ekki við afreksstarf íþróttahreyfingaringarinnar nema að örlitlu leyti.

Innan ÍSÍ eru 27 sérsambönd og fyrir þessi sérsambönd greiðir ríkisvaldið 24,7 milljónir í afrekssjóð ÍSÍ á þessu ári – það sjá allir að þetta er ansi lélegt – ég hef orðað það þannig að þetta sé dónaskapur af hálfu ríkisins í garð afreksstarfins okkar.

Ég kalla eftir því að núverandi ríkisstjórn og ráðherra íþróttamála hækki framlag í afrekssjóð ÍSÍ um hið minnsta 100 milljónir á næstu fjárlögum og að stefnt verði að því að árið 2014 verði framlag ríkisvaldsins til afrekssjóðs ÍSÍ ekki undir 200 milljónum miðað við núgildandi verðlag.

KKÍ hefur haldið úti öflugu og myndarlegu afreksstarfi undanfarin ár og mun gera svo áfram. Farið hefur verið vel yfir afreksstarfið frá ýmsum hliðum og til dæmis liggur tillaga hér fyrir þinginu að setja allt afreksstarfið í eina nefnd sem hefur yfirumsjón með öllu afreksstarfinu. Það verður töluverð vinna á næstu mánuðum að halda áfram stefnumótun í afreksstarfinu.

Við þurfum að huga vel að rekstri sambandsins á næstunni og passa uppá að sambandið verði ekki aftur jafn skuldsett og það var orðið fyrir nokkrum árum.

Við þurfum að fá að fleiri samstarfsaðila að starfi sambandsins til að geta haldið áfram uppbygginu á afreksstarfinu og kynningarmálum okkar og mun verða lögð mikil áhersla á það á næstu mánuðum að fá fleiri samstarfsaðila til liðs við okkur.

Haustið 2009 var tilkynnt um framboð Ólafs Rafnssonar til forseta FIBA-Europe.
Ólafur var kosinn forseti FIBA Europe um miðjan maí á síðasta ári
Enginn Íslendingur hefur gegnt forystuhlutverki í eins stórri alþjóðlegri hreyfingu sem FIBA Europe er.

Stjórn ákvað að skipa afmælisnefnd vegna 50 ára afmælis KKÍ og hélt nefndin sinn fyrsta fund föstudaginn 29. janúar 2010 á 49 ára afmæli sambandsins. Afmælisnefndin er skipuð þeim Kolbeini Pálssyni sem er formaður nefndarinnar, Ríkharði Hrafnkelssyni og Gunnari Þorvarðarsyni.

Afmælisárið hófst formlega á sjálfan afmælisdaginn með fjölskyldu- og körfuboltadegi í Smáralind. Dagurinn í Smáralind tókst mjög vel þar sem nokkur þúsund manns komu. Sérstaklega var gaman að sjá hversu margir „eldri“ körfuboltamenn litu við.
Í tilefni af afmælinu var ákveðið að hafa happdrætti tengt afmælinu þar sem félögin myndu selja miðana í gegnum sitt net. Miðaverð var 1000 krónur og fengu félögin 400 kr fyrir hvern seldan miða.
Því miður þá nýttu félögin sér þetta illa þannig að hvorki KKÍ né félögin fá mikinn pening út úr happdrættinu – en búið er að prufa þetta og nú vitum við að fjáröflun sem þessi er ekki góð fyrir hreyfinguna.

Í tilefni af 50 ára afmæli KKÍ heimsótti forseti FIBA World Yvan Mainini Ísland um síðustu helgi. Mainini fundaði með stjórn og starfsmönnum KKÍ, heimsótti æfingabúðir hávaxinna leikmanna og var viðstaddur afmælis- og lokahófið.

Það er mikill heiður fyrir íslenskan körfubolta að hafa fengið æðsta mann körfuboltamála í heiminum hingað í heimsókn.

Mainini lýsti yfir mikilli ánægju sinni og FIBA með það starf sem fram fer í körfuboltanum hér Íslandi og hversu mikið Ísland hefði tekið þátt í starfsemi alþjóðakörfuboltans.

Körfuboltinn hefur vaxið jafnt og þétt á þessum 50 árum sem hafa liðið frá stofnun KKÍ og unnið hefur verið gott starf hringinn í kringum landið til að breiða út áhuga á körfuboltanum.

Nú er svo komið að körfboltinn er önnur útbreiddasta íþróttagrein landsins samkvæmt tölum frá ÍSÍ en körfuboltinn stundaður í 24 af 25 íþróttahéruðum á Íslandi.

Við þurfum að huga vel að fræðslustarfinu okkar á næstunni og mun ég leggja á það áherslu fljótlega eftir að ný stjórn hefur tekið við - verði þá farið í mun skipulagðari og betri vinnu i fræðslumálum okkar.

Framundan er starfsamt þing þar sem margar tillögur liggja fyrir þinginu að þessu sinni - margar af þeim tillögum sem hér liggja fyrir varða málefni sem mikið hefur verið rætt um á undanförnum árum. Þingið er rétti vettvangurinn til ræða þessi mál og taka ákvörðun með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Að lokum langar mig að þakka stjórnarmönnum, starfsmönnum og nefndarmönnum KKÍ fyrir þeirra góðu störf og þann mikla tíma sem þau inna af hendi til að halda úti því mikla starfi sem fram fer á vegum KKÍ

Jafnframt langar mig kæru þingfulltrúar að þakka ykkur og öllum sem starfa við köruboltann hringinn í kringum landið fyrir ykkar miklu störf í ykkar félögum sem unninn eru í sjálfboðavinnu dag eftir dag fyrir oft litlar eða engar þakkir – ég er stoltur og glaður með ykkar frábæru störf.

Höldum áfram að gera veg körfuboltans sem mestan og bestan!

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Úr leik í 2. deild karla seint á 20. öldinni. Á myndinni sjást dómararnir Pétur Hólmsteinsson og Rúnar Birgir Gíslason ásamt Sigurgeiri Sigurpálssyni, leikmanni Fylkis.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið