© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
       
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
17.2.2007 | 19:04 | OOJ
ÍR-ingar bikarmeistarar í annað sinn
Eiríkur Önundarson og félagar í ÍR fagna hér bikarsigrinum.
ÍR-ingar urðu bikarmeistarar í annað skipti eftir 83-81 sigur á Hamri/Selfoss í úrslitaleik Lýsingarbikar karla í Laugardalshöllinni í kvöld. Leikurinn var jafn og æsispennandi en góð sóknarnýting Breiðhyltinga vóg upp að þeir töpuðu fráköstunum og réðu illa við George Byrd sem var með 23 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar. Nate Brown var hetja ÍR-liðsins í lokaleikhlutanum en hann skoraði þá 12 af 17 stigum sínum auk þess að stela þremur boltum af HS-mönnum.

Sveinbjörn Claessen skoraði eina af mikilvægustu körfum leiksins, þegar hann tók af skarið, keyrði upp að körfu og kom ÍR í 80-75 þegar 23 sekúndur voru eftir. Friðrik Hreinsson skoraði þriggja stiga körfu fyrir Hamar/Selfoss þegar 18 sekúndur voru eftir en Nate Brown nýtt bæði vítin sín og kom ÍR í 82-78 þegar tæpar 12 sekúndur voru til leiksloka. ÍR-ingar sendu Marvin Valdimarsson á vítalínuna þegar 9 sekúndur voru eftir en hann nýtti aðeins annað vítið og HS-menn höfðu þar með klikkað á 12 vítum í leiknum. Staðan var því 82-79 þegar Ólafur Jónas Sigurðsson fór á vítalínuna fyrir ÍR þegar átta sekúndur voru eftir á klukkunni. Ólafur nýtti annað vítið og um leið þurftu Hamars/Selfoss menn tvær sóknir til þess að jafna leikinn. Lárus Jónsson minnkaði muninn í 83-31 þegar 2 sekúndur voru eftir en leiktíminn rann síðan út áður en HS-mönnum tókst að brjóta og ÍR-ingar fögnuðu sigri.

Taktík ÍR-inga að brjóta á Georga Byrd og senda hann á vítalínuna gekk upp því miðherjinn sterki klikkaði á 8 af 13 vítum sínum í leiknum og skoraði ekki körfu síðustu fimm mínúturnar í leiknum. Byrd var með 15 stig í þriðja leikhlutanum en skorti þol í lokaleikhlutann þar sem hann skoraði aðeins 4 stig. Byrd fiskaði alls 12 villur í leiknum en þær dreifðust á sjö menn og Breiðhyltingar hjálpuðust því við að halda aftur af hinum stóra og sterka Bandaríkjamanni.

Fjórir leikmenn ÍR-liðsins voru einnig með fyrir sex árum þegar félagið varð bikarmeistari í fyrsta sinn þá einnig eftir að hafa unnið Hamar í úrslitaleik. Þetta voru þeir Eiríkur Önundarson, Hreggviður Magnússon, Ólafur Jónas Sigurðsson og Steinar Arason. Eiríkur sem skoraði 13 stig í kvöld, var með 18 stig og 11 stoðsendingar í úrslitaleiknum fyrir sex árum. HS-mennirnir Lárus Jónsson og Svavar Páll Pálsson þurftu hinsvegar öðru sinni að sætta sig við bikarsilfur eftir tap fyrir ÍR.

Hreggviður Magnússon spilaði aftur með ÍR-ingum eftir meiðslin sem hann hlaut í undanúrslitaleiknum gegn Grindavík og var með 9 stig á þeim 19 mínútum sem hann spilaði. ÍR-liðið vann þessar 19 mínútur með tólf stigum, 49-37, en tapaði hinsvegar með 10 stigum, 34-44, þegar Hreggviður sat á bekknum. Mestu munaði um þær 7 mínútur sem hann spilaði í fyrri hálfleik en þær unnu ÍR-ingar 17-6.

Nate Brown var allt í öllu í fjórða leikhlutanum en hann kom þá að fimm af sjö körfum ÍR-liðins. Brown skoraði 12 af 17 stigum sínum í leiknum í lokaleikhlutanum, nýtti þá öll þrjú skotin sín, stal 3 boltum og gaf 2 stoðsendingar. Vítin sem hann setti niður komu ÍR fjórum stigum yfir þegar tæpar 12 sekúndur voru eftir og fóru því langleiðina með því að tryggja sigurinn. Nate Brown hafði aðeins nýtt 1 af 6 fyrstu skotum sínum í leiknum en gerði sitt þegar mest á reyndi á æsispennandi lokasekúndum.

Hamar/Selfoss tókst ekki að enda bið Landsbyggðarfélaga eftir bikarnum en engu liði fyrir utan höfuðborgarsvæðið og suðurnesin hefur tekist að vinna bikarúrslitaleik í Höllinni. Átta stiga tap Hamars fyrir ÍR fyrir sex árum var besti árangur landsbyggðarliðs fyrir daginn í dag en töp Snæfells (1993 og 2003), ÍA (1996) og KFÍ (1998) eru öll meðal fimm stærstu tapa liða í bikarúrslitunum frá upphafi. ÍR-ingar eru aftur á móti eina Reykjavíkurliðið sem hefur unnið karlabikarinn síðustu sextán ár.

Atkvæðamestir í leiknum:
- ÍR -
Nate Brown, 17 stig, 6 stoðsendingar, 3 stolnir
Keih Vassell 14 stig, 6 fráköst, hitti út 6 af 8 skotum
Eiríkur Önundarson 13 stig
Ómar Sævarsson 10 stig á 17 mínútum, hitti úr 5 af 6 skotum
Hreggviður Magnússon 9 stig
Fannar Freyr Helgason 9 stig, 5 fráköst á 17 mínútum
Sveinbjörn Claessen 8 stig, 7 stoðsendingar
- Hamar/Selfoss -
George Byrd 24 stig, 15 fráköst, 8 stoðsendingar
Friðrik Hreinsson 15 stig
Bojan Bojovic 15 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar
Lárus Jónsson 9 stig, 5 stoðsendingar
Marvin Valdimarsson 9 stig, 7 fráköst
Svavar Páll Pálsson 9 stig, 5 fráköst

Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Þóra Melsted, formaður unglinganefndar KKÍ, og Anna María Ævarsdóttir, leikmaður U18 kvenna, á Norðurlandamótinu í Svíþjóð árið 2004.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið