© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
     
| 1999 | 2000 | 2001 | 2002 | 2003 | 2004 | 2005 | 2006 | 2007 | 2008 | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
5.12.2014 | 15:50 | Kristinn | KKÍ, Verðlaun
Körfuknattleiksfólk ársins 2014


Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir hafa verið valin körfuknattleiksmaður og körfuknattleikskona ársins 2014 af KKÍ. 

Þetta er í 11. sinn sem Jón Arnór er valinn en Helena hefur nú alls 10. sinnum verð valin og það 10. sinnum í röð. Helena er 26 ára gömul og Jón Arnór 32 ára. Körfuknattleikskona og maður ársins 2014 voru valin af stjórn, starfsmönnum, afreksnefnd KKÍ og landsliðþjálfurum (yngri landsliða og A-landsliða).

Körfuknattleikskona ársins 2014
1.sæti · Helena Sverrisdóttir
2.sæti · Hildur Björg Kjartansdóttir
3.sæti · Hildur Sigurðardóttir
 
Aðar sem fengu atkvæði í starfrófsröð:
Bryndís Guðmundsdóttir
Sara Rún Hinriksdóttir
Sigrún Ámundadóttir

Helena Sverrisdóttir · CCC Polkowice, Póllandi
Helena Sverrisdóttir er körfuknattleikskona árins 2014. Þetta er í 10. sinn sem Helena er kjörin körfuknattleikskona ársins en hún hefur haldið þessu titli núna í 10 ár samfellt. Helena lék á fyrri hluta ársins með Miskolc frá Ungverjalandi.
Miskolc endaði sem deildarmeistari í Ungverjalandi en datt út í undanúrslitum og endaði að lokum í fjórða sæti deildarinnar eftir lokaslag um bronsið. Helena var fyrirliði íslenska landsliðsins sem lék í evrópukeppni smáþjóða s.l. sumar þar sem Ísland lenti í öðru sæti. Töpuðu þær úrslitaleiknum gegn heimastúlkum í Austurríki. Þrátt fyrir tapið var Helena valin besti leikmaður mótsins. Eftir sumarið samdi hún við pólska liðið CCC Polkowice og hefur hún leikið þar við góðan orðstír núna í vetur.
 
Hildur Björg Kjartansdóttir  · UTPA háskólinn, USA?
Hildur Björg er ein efnilegasta körfuknattleikskona landsins og átti hún frábært tímabil með Snæfelli síðasta vetur. Hún endaði veturinn sem Íslandsmeistari og var svo valin í úrvalslið Domino's deildarinnar á lokahófi KKÍ: Hún var lykilmaður hjá íslenska landsliðinu síðasta sumar og byrjaði alla leiki Íslands á evrópukeppni smáþjóða í Austurríki. Eftir sumarið gekk hún til liðs við 1. deildar skólann UTPA háskólann í Texas og er hún þar byrjunarliðsleikmaður hjá liðinu.
 
Hildur Sigurðardóttir  · Snæfell?
Hildur var valin besti leikmaður Domino's deildarinnar á síðasta tímabili er hún leiddi lið sitt Snæfell til sigurs. Var hún valin besti leikmaður úrslitarimmunnar gegn Haukum. Síðasta sumar var hún byrjunarliðsleikmaður íslenska landsliðsins í Austurríki. Snæfell hefur haldið uppteknum hætti núna í haust og er á toppi Domino's deildarinnar og er Hildur þar lykilleikmaður.

Körfuknattleikskarl ársins 2014
1. sæti · Jón Arnór Stefánsson
2. sæti · Hlynur Bæringsson
3. sæti · Hörður Axel Vilhjálmsson 
 
Aðrir sem fengu atkvæði í stafrófsröð:
Haukur Helgi Pálsson
Jakob Örn Sigurðarson
Martin Hermannsson
Pavel Ermolinskij

Jón Arnór Stefánsson · Unicaja Malaga, Spáni
Jón Arnór Stefánsson er körfuknattleiksmaður ársins 2014. Jón hefur þá hlotið nafnbótina alls 11 sinnum frá því að hann hlaut hana fyrst árið 2002. Jón Arnór skipti yfir frá CAI Zaragoza til Unicaja Malaga í spænsku úrvalsdeildinni, sem óhætt er að segja að sé besta deild Evrópu, og hefur lið Malaga verið eitt af stóru liðunum í deildinni undanfarin ár.

Fyrrum lið Jóns Arnórs, CAI Zaragoza, lék í úrslitakeppninni í lok tímabilsins. Eftir tímabilið tóku við æfingar með landsliðinu en þar sem samningsmál Jóns voru ekki frágengin var útlit fyrir að hann myndi ekki leika með lansliðinu af þeim sökum. Þegar á hólmin var komið sýndi Jón Arnór hvar íslenska hjartað slær og tók þátt í seinni tveim leikjum liðsins. Óhætt er að segja að öðrum ólöstuðum að frammistaða hans fór langt með að senda íslenska landsliðið á lokamót Evrópukeppninnar í fyrsta sinn en gríðarlega mikilvægur sigur vannst á útivelli gegn Bretlandi þar sem hann var stigahæsti maður leiksins með 23 stig og gegn Bosníu hér heima í Laugardalshöll átti hann magnaða spretti, meðal annars skoraði hann fyrstu 12 stig Íslands, og með frammistöðu íslenska liðsins í heild náði það tilsettum markmiðum og komst áfram á lokamótið næsta haust.

Hlynur Bæringsson · Sundsvall Dragons, Svíþjóð
Hlynur var lykilmaður með liði sínu í Svíþjóð á síðastliðnu keppnistímabili þar sem hann hefur leikið síðan 2010. Sundsvall Dragons fór í úrslitakeppnina líkt og undanfarin ár en féll út í undanúrslitunum. Þá var Hlynur valinn varnarmaður ársins annað árið í röð í deildinni sem er mikið afrek. Með landsliðinu sannað Hlynur enn og aftur mikilvægi sitt fyrir liðið en með seiglu, baráttu og áræðni endaði hann í 5. sæti yfir frákæstahæstu menn undankeppninnar sem verður að teljast frábær árangur í jafn sterkri keppni og var framlag hans gríðarlega mikilvægt í árangri liðsins. Auk þess að skora 5.3 stig að meðaltali í leik þá var hann með 8.5 fráköst.

Hörður Axel Vilhjálmsson · MBC, Þýskalandi
Hörður lék fyrir á síðasta ári með Valencia í spænsku úrvalsdeildinni. Eftir tímabilið samdi hann strax  við sitt fyrra félag í Þýskalandi, Mitteldeutscher BC sem leikur í efstu deild. Þar er Hörður mikilvægur leikmaður liðsins og er byrjunarliðsmaður. Hann hefur skorað 7.5 stig, tekið 1.4 fráköst og gefið 2.1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Með landsliðinu í sumar var Hörður frábær í vörn og ekki síður sókn þar sem hann blómstraði í leikskipulagi liðsins. Hörður var með 12.3 stig, 2.3 fráköst og 3 stoðsendingar að meðaltali í leik með landsliðinu í undankeppni EM í sumar.

Körfuboltafólk ársins frá árinu 1998: 
1998: Helgi Jónas Guðfinnsson og Anna María Sveinsdóttir
1999: Herbert Arnarson og Guðbjörg Norðfjörð
2000: Ólafur Jón Ormsson og Erla Þorsteinsdóttir
2001: Logi Gunnarsson og Kristín Björk Jónsdóttir
2002: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2003: Jón Arnór Stefánsson og Signý Hermannsdóttir
2004: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2005: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2006: Brenton Birmingham og Helena Sverrisdóttir
2007: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2008: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2009: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2010: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2011: Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir
2012: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2013: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2014: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir

Oftast valin Körfuboltamaður ársins:*
11 Jón Arnór Stefánsson (2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2012, 2013, 2014)
10 Helena Sverrisdóttir (2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014)
4 Jón Kr. Gíslason (1987, 1989, 1992, 1993)
3 Kristinn Jörundsson (1973, 1975, 1977)
2 Jón Sigurðsson (1976, 1978)
2 Valur Ingimundarson (1984, 1988)
2 Guðmundur Bragason (1991, 1996)
2 Anna María Sveinsdóttir (1994, 1998)
2 Birna Valgarðsdóttir (2002, 2004)
1 Jakob Örn Sigurðarson (2011)

* Valið hefur verið tvískipt síðan 1998 en frá 1973 til og með 1997 var aðeins valin einn aðili, karl eða kona, en síðan þá hafa verið valin Körfuknattleiksmaður og Körfuknattleikskona ársins.
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Rúnar Gíslason, dómari, bíður þess að boltinn komi niður eftir vítaskot frá Guðmundi Ásgeirssyni leikmanni Grindavíkur.  Myndin er tekin í leik Grindavíkur og Þórs Ak, 16. desember 2001.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið