S | M | Þ | M | F | F | L |
1 |
2 |
|||||
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
11 |
12 |
13 |
14 |
15 |
16 |
17 |
18 |
19 |
20 |
21 |
22 |
23 |
24 |
25 |
26 |
27 |
28 |
29 |
30 |
Almenn ákvæði
|
||
1.
|
Gildissvið
Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. grein laga Körfuknattleikssambands Íslands. Hún gildir um öll aga- og úrskurðarmál innan vébanda KKÍ nema mál séu sérstaklega falið öðrum úrskurðaraðilum samkvæmt lögum og reglugerðum KKÍ. |
|
2.
|
Markmið
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja skýrar og afmarkaðar reglur um aga- og úrskurðarmál KKÍ. Markmið hennar er einnig að sameina öll þau mál er upp koma innan KKÍ er varða agamál, sem aganefnd KKÍ fjallaði um áður, sem félagaskiptanefnd KKÍ fjallaði um og kærur sem dómstóll KKÍ fjallaði um sem fyrsta dómstig, undir einn og sama úrskurðaraðilann, aga- og úrskurðarnefnd KKÍ. |
|
3.
|
Lögsaga og hlutverk
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ skal hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum, sem koma upp innan vébanda Körfuknattleikssambands Íslands og varða lög og reglur þess eftir því sem við á. Nefndin skal byggja niðurstöður sínar á lögum og reglugerðum KKÍ. Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ úrskurðar í öllum agamálum KKÍ og er jafnframt fyrsta dómstig í kærumálum, sem upp koma innan körfuknattleikshreyfingarinnar. Meginhlutverk nefndarinnar er þannig tvíþætt, annars vegar agamál og hins vegar úrskurðaraðili á fyrsta dómstigi og ráðast málsmeðferðarreglur nokkuð eftir þessari skiptingu. Nefndin getur tekið ákvörðun um viðurlög samkvæmt lögum KKÍ, reglugerð þessarri og öðrum reglugerðum KKÍ gagnvart aðildarfélögum, forráðamönnum, leikmönnum, þjálfurum, starfsmönnum og öðrum þeim, sem eru innan vébanda aðildarfélaga Körfuknattleikssambands Íslands vegna brota þeirra á lögum KKÍ, reglugerðum KKÍ og öðrum reglum. Nefndin hefur aðsetur á skrifstofu Körfuknattleikssambands Íslands, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, 104 Reykjavík og skal KKÍ tilkynna án tafar allar breytingar sem verða á skipan nefndarinnar eða aðsetri. |
|
4.
|
Skipan og hæfi
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ skal skipuð formanni og tveimur varaformönnum, sem skulu allir löglærðir, og auk þeirra þrem mönnum. Skulu þeir kosnir á Körfuknattleiksþingi til tveggja ára í senn. Nefndin starfar samkvæmt reglugerð þessari og skulu a.m.k. þrír nefndarmenn taka þátt í ákvörðun nefndarinnar og skal a.m.k. einn þeirra vera formaður eða varaformaður. Formaður ákveður nánar verklag. Nefndarmaður er vanhæfur að fara með mál ef: a) Hann er aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila. b) Hann hefur gætt hagsmuna aðila varðandi efni málsins eða veitt aðila leiðbeiningar um það, umfram skyldu. c) Hann hefur borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um efni málsins. d) Hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. e) Hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda með þeim hætti er segir í lið d. f) Hann tengist eða hefur tengst vitni í málinu með sama hætti og segir í lið d. g) Fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, m.a. ef hann eða náinn skyldmenni eru félagsbundin aðila máls eða hann vanhæfur af öðrum ástæðum. Stjórn KKÍ skal skipa nefndarmann í aga- og úrskurðarnefnd til meðferðar einstaks máls ef tilskilinn fjöldi næst ekki úr kjörnum nefndarmönnum vegna vanhæfis þeirra. |
|
5.
|
ALMENNAR MÁLSMEÐFERÐARREGLUR
Málsmeðferðarreglur samkvæmt reglugerð þessari skiptast í tvennt eftir því hvort um agamál er að ræða eða kærumál vegna meintra brota á lögum og reglugerðum KKÍ. Ef brýn nauðsyn krefur getur nefndin haldið fundi til úrslausnar einstakra mála. Einnig er heimilt að kalla nefndina saman, ef ætla má að mati dómsformanns, að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður vegna villandi eða rangra upplýsinga í skýrslu dómara. Nefndinni er heimilt að halda fundi nefndarinnar með fjarskiptatækjum t.d síma eða tölvupóstum. Nefndin getur ávallt í öllum málum óskað eftir skriflegum athugasemdum frá stjórn KKÍ eða öðrum þeim er málið getur varðað. Aðila máls fyrir aga- og úrskurðarnefnd er heimilt að fela umboðsmanni að gæta hagsmuna sinna fyrir nefndinni. Telji nefndin að hætta sé á að málsstaður einhvers málsaðila verði fyrir tjóni vegna þess að hann er ekki fær um að koma sínum sjónarmiðum að í málinu, getur formaður hennar tilkynnt slíkt til stjórnar KKÍ sem getur þá skipað slíkum aðila talsmann í viðkomandi máli. |
|
6.
|
SÉRSTAKAR MÁLSMEÐFERÐARREGLUR VEGNA AGAMÁLA
Aga- og úrskurðarnefnd úrskurðar um þau atriði, sem fram koma í atvikaskýrslum dómara KKÍ í leikjum í mótum á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppni, fyrirtækjabikar, meistarakeppni og landsleikir) enda fjalli hvorki FIBA World né FIBA Europe um málið. Dómaranefnd KKÍ hefur kæru – og ábendingarrétt til aga- og úrskurðarnefndar. Jafnframt hefur aga- og úrskurðarnefnd heimild til að úrskurða um öll önnur mál sem nefndin telur ástæðu til að hafa afskipti af vegna körfuknattleiksleikja sem fram fara á Íslandi enda fjalli ekki aðrir um þau. Aðrir aðilar en að framan greinir hafa ekki kærurétt til aga- og úrskurðarnefndar. Þó er þeim aðilum er hafa bein tengsl við leiki í mótum á vegum KKÍ (Íslandsmót, bikarkeppni, fyrirtækjabikar, meistarakeppni og landsleikir) heimilt að leggja fram hvers kyns gögn eða skriflegar athugasemdir til aga- og úrskurðarnefndar sem ábendingu um agabrot. Skal aga- og úrskurðarnefnd meta það sjálfstætt hvort slík ábending gefi tilefni til málsmeðferðar í samræmi við heimildir nefndarinnar skv. 7. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar. Ef ábending gefur ekki tilefni til málsmeðferðar að mati nefndarinnar er ekki þörf á formlegri eða rökstuddri ákvörðun þess efnis frá nefndinni. Aga og úrskurðarnefnd skal bundin af ákvörðun dómara leiks, t.d varðandi brottvísun eða tæknivillu. Leikmaður, þjálfari eða forráðamaður liðs hefur heimild til að gera skriflega athugasemd til aga- og úrskurðarnefndar innan tveggja sólarhringa frá því að leik lýkur vegna kæranlegs atviks í leiknum. Viðkomandi skal fá afrit gagna frá skrifstofu Körfuknattleikssambands Íslands. Skal viðkomandi koma með sínar athugasemdir innan frestsins. Ef athugasemdir koma fram eftir frestinn er nefndinni ekki skylt að líta til þeirra við ákvörðun sína. Í úrslitakeppni er andmælaréttur þessi einungis einn sólarhringur frá kæranlegu atviki. Í úrslitakeppni og bikarkeppnum allra flokka skal nefndin kvödd saman um leið og kæra berst. Skal nefndin kveða upp úrskurð í málinu svo fljótt sem auðið er. Ef um er ræða síðasta leik í deildarkeppni skulu sömu reglur gilda. Aga og úrskurðarnefnd er heimilt að taka til meðferðar kæru eða ábendingu á agabroti sem framið var án vitundar dómara leiksins eða dómari ekki vísað viðkomandi af leikvelli eða keppnisstað, ef gögn sýna á óyggjandi hátt að brot hafi verið framið. Er nefndinni þar meðal annars heimilt að byggja á myndbandsupptöku af leiknum. |
|
7.
|
SÉRSTAKAR MÁLSMEÐFERÐARREGLUR VEGNA KÆRUMÁLA
Einstaklingur og/eða félag, sem misgert er við og hefur hagsmuni af meintu broti hefur rétt til að leggja fram kæru til aga- og úrskurðarnefndar KKÍ. Aðila sem hefur kærurétt er heimilt að beina þeirri kröfu til nefndarinnar að hann verði aðili máls og skal slík krafa koma fram eigi síðar en við aðalflutning málsins. Verði KKÍ ljóst að leikmaður og/eða félag hafi brotið reglur sambandsins skal stjórn kæra viðkomandi leikmann og/eða félag beint félag sem brotið er á þarf ekki að kæra sjálft. Kæra til nefndarinnar skal vera skrifleg, undirrituð af aðila máls eða umboðsmanni hans, berast nefndinni ásamt fylgigögnum í 4 eintökum og fullnægja eftirfarandi skilyrðum: a) Nafn kæranda, kennitala, heimilisfang, símanúmer, faxnúmer og netfang. b) Nafn kærða, kennitala, heimilisfang, símanúmer, faxnúmer og netfang. c) Nafn fyrirsvarsmanns kæranda og kærða ásamt ofangreindum upplýsingum. d) Skýr kröfugerð. e) Lýsing helstu málavaxta. f) Tilvísun til þeirra laga og reglugerða, sem byggt er á í málinu. g) Lýsing á helstu röksemdum. h) Lýsing á helstu gögnum er fylgja kæru. i) Upptalning á vitnum, sem kærandi óskar að kalla til skýrslutöku. Mál telst höfðað þegar kæra berst skrifstofu KKÍ og á kærandi rétt á staðfestingu á móttöku. Áður en málið er lagt fyrir næsta fund skal formaður nefndarinnar taka afstöðu hvort einhverjir formgallar séu á kæru sem varði frávísun með úrskurði. Verði málinu ekki vísað frá vegna formgalla skal það lagt fyrir á næsta fundi aga- og úrskurðarnefndar KKÍ til efnislegrar meðferðar. Skrifstofa KKÍ skal senda kærða (varnaraðila) án tafar og með sannanlegum hætti kæru og fylgigögn ásamt áskorun um að halda uppi vörnum í málinu. Kærði hefur þriggja (3) sólarhringa frest til að skila greinargerð í málinu. Skal greinargerðin fullnægja sömu kröfum og gerðar eru til kæru, eftir því sem við getur átt. Nefndinni er heimilt að lengja þennan frest ef rökstudd beiðni kærða (varnaraðila) berst þar um. Þegar öll gögn málsins hafa borist nefndinni skal nefndin taka ákvörðun um hvort mál skuli í reynd flutt, þá munnlega eða skriflega, hvort taka skuli vitna- eða aðilaskýrslur fyrir nefndinni eða annað það sem taka þarf ákvörðun um varðandi málsmeðferð málsins eftir móttöku þess. Telji dómsformaður augljóst við skoðun á kæru, að brotið hafi verið gegn lögum og reglugerðum KKÍ, getur hann ákvarðað flýtimeðferð máls. Þeirri kröfu er beint til varnaraðila að hann upplýsi innan sólarhrings hvort hann hyggst hafa varnir uppi í málinu og hverjar þær séu. Komi engar varnir fram eða þær bersýnilega tilgangslausar er heimilt að kveða upp úrskurð án tafar. Heimilt er að dæma kærðum ómaksþóknun úr hendi kæranda enda sé kæran tilhæfulaus. |
|
8.
|
FRESTIR
Kærumál Kærur vegna kærumála skulu berast aga- og úrskurðarnefnd KKÍ innan þriggja (3) sólarhringa frá kæranlegu atviki. Berist kæran eftir að tímamörk eru liðin skal nefndin vísa kærunni frá. Kærur vegna kærumála í bikarkeppnum og úrslitakeppnum skulu berast aga- og úrskurðarnefnd KKÍ innan eins sólarhrings frá kæranlegu atviki. Berist kæran eftir að tímamörk eru liðin skal nefndin vísa kærunni frá. Sé kærumáli vísað frá vegna formgalla, sbr. stafliði a. - i. í ákvæði 7. gr. reglna þessara, hefur kærandi eins sólarhrings frest til að leggja fram nýja og bætta kæru til nefndarinnar. Frestur telst byrja að líða þegar frávísun berst kæranda. Agamál Kæra dómara skal berast aga- og úrskurðarnefnd innan tveggja sólarhringa frá kæranlegu atviki. Ef kæra berst eftir þann frest er nefndinni heimilt að vísa viðkomandi kæru frá. Kæra eða ábending frá stjórn KKÍ vegna agamála skal berast innan tveggja sólarhringa frá kæranlegu atviki. Ef kæra eða ábending berst eftir þann frest er nefndinni heimilt að vísa viðkomandi kæru frá. Ábendingar frá öðrum aðilum til aga- og úrskurðarnefndar, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar, skulu berast innan tveggja sólarhringa frá kæranlegu atviki. |
|
9.
|
ÚRSKURÐIR AGA- OG ÚRSKURÐARNEFNDAR
Uppkvaðning úrskurða í kærumálum og gildistaka Úrskurði nefndarinnar skulu kveðnir upp svo fljótt sem verða má eftir að gagnaöflun telst lokið og málið tekið til úrskurðar. Leitast skal við að kveða upp úrskurð innan viku frá því að málið var tekið til úrskurðar. Úrskurðir aga- og úrskurðarnefndar skulu almennt taka gildi við uppkvaðningu þeirra eða eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Uppkvaðning úrskurða í agamálum og gildistaka Aga- og úrskurðarnefnd skal kveða upp úrskurði á miðvikudögum. Almennt skulu öll mál sem borist hafa til skrifstofu KKÍ með sannarlegum hætti fyrir klukkan 13:00 þriðjudaginn á undan tekin fyrir. Úrskurðir nefndarinnar varðandi agamál taka almennt gildi klukkan 12:00 á hádegi næsta fimmtudag frá birtingu þeirra. Óheimilt er að taka út viðurlög í agamálum áður en úrskurðir taka gildi. Í úrslitakeppni allra flokka taka úrskurðir í agamálum gildi um leið og þeir hafa verið birtir. Það sama gildir um atvik sem gerast í síðasta leik í deildarkeppni. Ef augljóst er, að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður varðandi agamál vegna villandi eða rangra upplýsinga í skýrslu dómara eða rangrar/ófullnægjandi skráningar eða ef rangar upplýsingar hafa borist skrifstofu KKÍ, þá skal aga- og úrskurðarnefndin halda aukafund og leiðrétta úrskurð eða kveða upp nýjan. Sá úrskurður skal taka gildi um leið og hann hefur verið birtur. |
|
10.
|
ÚRSKURÐIR
Formaður aga- og úrskurðarnefndar skal halda utan um úrskurði nefndarinnar og almenn nefndarstörf. Jafnframt skal skrifstofa KKÍ halda utan um úrskurði nefndarinnar og birta þá jafnóðum á heimasíðu KKÍ. Stjórn KKÍ er heimilt að krefjast endurrita af samskiptum nefndarmanna ef tilefni þykir til. Slík endurrit er með öllu óheimilt að birta almenningi. Úrskurðir í kærumálum skulu vera skriflegir og rökstuddir og skal eftirfarandi koma fram að lágmarki: a) Hverjir séu aðilar máls. b) Kröfugerð og málavaxtalýsing. c) Helstu málsástæður og röksemdir málsaðila. d) Rökstuðningur og niðurstaða nefndarinnar. e) Sératkvæði minnihluta, ef um slíkt er að ræða. f) Greint frá heimild aðila til áfrýjunar og áfrýjunarfresti. Afl atkvæða innan nefndarinna ræður úrslitum máls. Ef nefndin er ósammála um niðurstöðuna skal þess getið sérstaklega. Í úrskurði skal koma fram hverjir standa að baki honum. Úrskurðir í agamálum Í úrskurðarorðum skal vísa til þeirra(r) greina(r) sem úrskurður byggir á. Nefndinni er heimilt í meiriháttar agamálum að rökstyðja úrskurð sinn. |
|
11.
|
Birting úrskurða
Skrifstofa KKÍ sendir málsaðilum úrskurði jafnskjótt og þeir hafa verið kveðnir upp með tölvupósti eða símbréfi til formanns körfuknattleiksdeildar þess aðila, sem félagið hefur tilkynnt KKÍ um eða kæranda og kærða sem getið er í kæru og greinargerð. Áhætta af mistökum við afhendingu tölvpósts eða símbréfs hvílir alfarið á móttakanda. Úrskurður nefndarinnar skal einnig birtur á heimasíðu KKÍ strax eftir uppkvaðningu hans. |
|
12.
|
VIÐURLÖG
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ getur í úrskurðarorði auk efnisniðurstöðu m.a. kveðið á um eftirfarandi réttindi og skyldur aðila málsins: a) Úrskurðað leik ógildann, látið endurtaka hann eða dæmt um úrslit hans. b) Svipt aðila rétti til að gegna trúnaðarstörfum innan körfuknattleikshreyfingarinnar (hefur ekki í för með sér missi almennra félagsréttinda eða keppnisréttar). c) Óhlutgengisúrskurður, sem veldur útilokun frá þátttöku í keppni innan körfuknattleikshreyfingarinnar, um stundarsakir eða ævilangt. d) Úrskurðað aðila til að greiða aðila kostnað vegna málsins telji nefndin málsgrundvöllinn tilefnislausan. Nefndin getur beitt eftirfarandi viðurlögum: a) Áminningu eða ávítum. b) Banni við hvers konar störfum eða aðkomu að kappleikjum. c) Ákvarðað dagsektir gagnvart aðildarfélögum KKÍ, sem renna til KKÍ. d) Ákveðið sektir á aðildarfélög KKÍ. e) Aðrar þær refsingar er lög og reglugerðir KKÍ tiltaka og heimila. |
|
13.
|
VIÐURLÖG VIÐ AGABROTUM
Viðurlög við agabrotum ákvarðast sem hér segir: a) Sé leikmanni vísað af leikvelli vegna tveggja óíþróttamannslegra villna, tveggja tæknivillna eða hafi honum verið vísað af velli fyrir að hafa yfirgefið svæði varamanna við slagsmál, eða aðstæður sem leitt gætu til slagsmála, sem hann að öðru leyti tók ekki þátt í, skal viðkomandi almennt áminntur af aga- og úrskurðarnefnd. Ef leikmanni er vísað aftur af leikvelli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils skal hann sæta eins leiks banni. Ef leikmanni er oftar vísað af leikvelli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. b) Sé þjálfara vísað af velli vegna tveggja tæknivillna skal hann almennt sæta eins leiks banni. Sé þjálfara eða leikmanni aftur vísað af velli vegna tveggja tæknivillna innan sama leiktímabils skal hann sæta tveggja leikja banni. Ef þjálfara eða liðstjóra er oftar vísað af leikvelli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. c) Hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað fyrir alvarlega grófan leik eða ósæmilega framkomu skal aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í eins eða tveggja leikja bann. Við slíka ákvörðun skal nefndin líta til ásetnings, afleiðinga og hver sé brotaþoli. Sé sama einstaklingi aftur vísað af velli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils skal hann sæta tveggja eða þriggja leikja banni. Við slíka ákvörðun skal nefndin líta til ásetnings, afleiðinga og hver sé brotaþoli. Ef einstaklingi er oftar vísað af leikvelli vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. d) d) Hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks þá skal aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í þriggja leikja bann nema atlagan hafi haft alvarlegar afleiðingar en þá er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. Sé sama einstaklingi aftur vísað af velli eða keppnisstað vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils skal hann sæta sex leikja banni nema atlagan hafi haft alvarlegar afleiðingar en þá er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. Ef einstaklingi er oftar vísað af leikvelli eða keppnisstað vegna sömu ástæðna og að framan greinir innan sama leiktímabils er nefndinni heimilt að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. e) Ef einstaklingur gerist sekur um viljandi líkamsmeiðingar eða tilraun til slíks,eða aðra hættulega framkomu eða meiriháttar ósæmilega hegðun gagnvart dómurum eða starfsmönnum leiks þá, skal aga og úrskurðarnefnd dæma viðkomandi í fimm leikja bann. Ef atlagan hefur haft alvarlegar afleiðingar þá hefur aga- og úrskurðarnefnd heimild til að úrskurða viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. Ef einstaklingur gerist oftar sekur um viljandi líkamsmeiðingar, aðra hættulega framkomu eða meiriháttar ósæmilega hegðun gagnvart dómurum eða starfsmönnum leiks innan sama leiktímabils þá skal aga- og úrskurðarnefnd dæma viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum sem skal að lágmarki vera út það tímabil. f) Brot sem varða refsingu skv. framangreindum a. til d. liða geta hafa ítrekunaráhrif gagnvart hverjum öðrum. Skal aga- og úrskurðarnefnd meta í hverju og einu tilviki hvort ítrekunaráhrifa gæta og haga viðurlögum í samræmi við það. g) Brot í hverjum aldursflokki skal farið með sérstaklega. Þó skal aga- og úrskurðarnefnd heimilt að úrskurða aðila í bann í öllum aldursflokkum, ef um alvarlegt eða ítrekað brot er að ræða. h) Ef áhorfendur gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum eða starfsmönnum eða öðrum áhorfendum leiks, er aga og úrskurðarnefnd heimilt að svipta viðkomandi heimalið heimaleikjum og/eða úrskurða það til greiðslu sektar til KKÍ að mati aga-og úrskurðarnefndar. Ef atvik þykja ekki það alvarleg að svipting leikja verði úrskurðuð, er aga og úrskurðarnefnd heimilt að áminna viðkomandi félag og/eða gera ábendingar er lúta að tryggara öryggi aðila og dómara. Verði um ítrekuð brot að ræða innan keppnistímabils þrátt fyrir áminningu, og ekki hefur verið orðið við ábendingum aga- og úrskurðarnefndar, skal svipta viðkomandi lið að lágmarki tveimur heimaleikjum. Aga- og úrskurðarnefnd skal meta heimaliði til málsbóta ef sannað þykir að áhorfendur útiliðs áttu upptök að, eða stærstan þátt í, hinni kærðu framkomu. Aga- og úrskurðarnefnd skal meta heimaliði það til málsbóta, ef öryggisgæsla telst hafa verið nægjanleg. i) Gerist dómari sekur um óprúðmannlega framkomu gagnvart leikmanni, forsvarsmanni liðs, þjálfara, liðsstjóra eða starfsmanni leiks eða öðrum viðstöddum er aga- og úrskurðarnefnd heimilt að veita viðkomandi dómara áminningu, eða úrskurða hann til greiðslu sektar ef brot er ítrekað eða alvarlegt. Allur vafi skal metinn kærða í hag. j) Sé aðili kærður til aga- og úrskurðarefndar sem ekki hefur verið vísað af leikvelli eða leikstað hefur aga- og úrskurðarnefnd heimild til að dæma viðkomandi í tímabundið leikbann í öllum flokkum. k) Aðildarfélag sem yfirgefur leikvöll í mótmælaskini eða neitar að halda áfram leik má refsa með brottrekstri úr keppni, stigatapi, leikbanni á öllum leikmönnum og/eða sekta um allt að 100.000 kr. l) Brot samkvæmt ákvæðum 13. gr. geta varðað sektum allt að fjárhæð kr. 50.000 í meistaraflokki og kr. 20.000 í öðrum aldursflokkum. Sama gildir ef þessir aðilar verða uppvísir að óprúðmannlegri framkomu. m) Ef forystumaður aðildarfélags, sem ekki er á leikskýrslu eða áhorfandi gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum, þjálfurum eða öðrum er heimilt að sekta viðkomandi aðildarfélag um allt að kr. 50.000. Ef brot telst alvarlegt eða um ítrekun er að ræða er auk þess heimilt að setja viðkomandi lið í heimaleikjabann, þar til öryggi leikmanna, þjálfara og annarra telst tryggt. n) Brot skv. tilkynningu stjórnar KKÍ sbr. 14. gr. hefur í för með sér refsingu eftir eðli brotsins þ.á.m. áminningu, ávítur, sektir að fjárhæð kr. 50.000 og leikbann. o) Aganefnd er heimilt að beita öðrum viðurlögum sem lög og reglugerðir KKÍ tiltaka og heimila. Viðurlög aga- og úrskurðarnefndar í agamálum skal afplána í leikjum í Íslandsmóti, bikarkeppni, fyrirtækjabikar og meistarakeppni KKÍ nema annað sé tekið fram. Agabrot framið á einu keppnistímabili hefur almennt ekki ítrekunaráhrif á því næsta. Ef leikmaður á eftir að taka út agaviðurlög þegar keppnistímabili lýkur, skal það gert í byrjun næsta keppnistímabils viðkomandi leikmanns. Flytjist leikmaður á milli aldursflokka um áramót, skal hann taka út viðurlögin í nýjum aldursflokki. Þegar leikmaður hefur heimild til að leika með tveimur eða fleiri aldursflokkum á sama keppnistímabili, skal hann taka út viðurlög í þeim aldursflokki, þar sem hann hefur unnið til þeirra, þ.e. brot í hverjum einstökum aldursflokki skulu meðhöndlast sérstaklega. Þegar félag sendir fleiri en eitt lið til keppni í sama mótið skal leikmaður taka út refsingu sína með öllum liðum félagsins í mótum í sama aldursflokki sbr. þó fyrri málsgrein. Þjálfari, leikmaður, eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með tuttugu mínútum fyrir leik og þar til leik lýkur. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt. Ef leikmaður, sem jafnframt er þjálfari annars liðs, er úrskurðaður í leikbann, er honum heimilt að stjórna liði sínu á því tímabili, sem hann tekur út leikbann sem leikmaður. Ef leikmaður, sem jafnframt er þjálfari liðsins, er úrskurðaður í leikbann, er honum óheimilt að stjórna liðinu í þeim leikjum sem hann tekur út leikbann í. Frestist leikur, sem aflána skal refsingu í, skal afplánun frestast uns leikurinn fer fram. Breytingar á leikjaplani hafa ekki áhrif á tímabundið leikbann. Úrskurðir um sektir á hendur dómurum taka þegar gildi, og er KKÍ heimilt að halda eftir greiðslum til viðkomandi dómara uns sektin er greidd. |
|
14.
|
ÓSÆMILEGA FRAMKOMA
Stjórn og framkvæmdastjóra KKÍ skal vísa til aga- og úrskurðarnefndar atvikum sem skaðað geta ímynd körfuknattleiks eða þeirra sem þátt taka í leiknum. Slík atvik hafa þá ekki komið fram í atvikaskýrslum dómara á leiknum en geta verið hvers kyns ósæmileg framkoma á leikstað eða á annan hátt opinberlega. Þegar talað er um opinberlega er átt við alla tegundir fjölmiðla; sjónvarpsmiðla, útvarpsmiðla, prentmiðla, netmiðla, heimasíður aðildarfélaga KKÍ og samfélagsmiðla. Stjórn og framkvæmdastjóri KKÍ skal skila greinargerð til nefndarinnar ásamt gögnum máli sínu til stuðnings og skal fara með slík mál eins og um kærumál sé að ræða, eins og við getur átt. |
|
15.
|
ÁFRÝJUN TIL ÁFRÝJUNARDÓMSTÓLS KKÍ
Heimilt er að áfrýja til áfrýjunardómstóls KKÍ öllum úrskurðum aga- og úrskurðarnefndar í kærumálum. Almennt verður úrskurðum nefndarinnar í agamálum ekki skotið til áfrýjunardómstóls KKÍ nema í eftirfarandi undantekningartilfellum: a) Úrskurði nefndarinnar um fjögurra leikja bann eða þyngri refsingu. b) Úrskurði nefndarinnar um eins mánaðar bann eða þyngri refsingu. c) Úrskurði nefndarinnar um viðurlög og refsingar sem nema hærri fjárhæð en 25.000,-. d) Úrskurði nefndarinnar á grundvelli l, m og n lið 13. greinar. Frestur til að áfrýja máli til áfrýjunardómstóls KKÍ skal vera 5 dagar frá því að úrskurður aga- og úrskurðarnefndar er kveðinn upp og skulu almennir frídagar ekki taldir með. Um meðferð áfrýjunarmála fyrir áfrýjunardómstól KKÍ fer að öðru leyti eftir lögum KKÍ og reglugerð KKÍ um áfrýjunardómstól KKÍ. |
|
16.
|
ÁFRÝJUN TIL ÁFRYJUNARDÓMSTÓLS ÍSÍ
Heimilt er að áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ þeim málum áfrýjunardómstóls KKÍ, sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild sbr. nánar reglugerð KKÍ um áfrýjunardómstól KKÍ. |
|
17.
|
ENDANLEG NIÐURSTAÐA
Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KKÍ um ágreiningsefni sem ekki verður skotið til áfrýjunardómstóls KKÍ er endanlegur og bindandi fyrir málsaðila. Verður þeim úrskurðum ekki skotið til áfrýjunardómstóls KKÍ eða annarra dómstóla innan íþróttahreyfingarinnar. Jafnframt skuldbinda aðilar sig til að skjóta ágreiningi, sem úrskurðað hefur verið um af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ, ekki til almennra dómstóla. |
|
18.
|
LYFJAEFTIRLIT
Mál vegna meintrar lyfjamisnotkunar íþróttamanna skal farið með samkvæmt gildandi lögum og reglum ÍSÍ um lyfjaeftirlit. |
|
19.
|
NIÐURFELLING REFSINGAR
Körfuknattleiksþing er heimilt með minnst 2/3 greiddra atkvæða að fella niður refsingu eða veita úrskurðuðum aðila full réttindi að nýju innan körfuknattleikshreyfingarinnar. Þetta gildir ekki varðandi refsingar vegna lyfjamisnotkunnar. |
|
20.
|
GILDISTAKA
Reglugerð þessi er sett með stoð í 15. grein laga KKÍ og öðlast þegar gildi samkvæmt sömu grein. |
|
21.
|
Önnur ákvæði
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ setur sér nánari starfsreglur sem samþykktar skulu af stjórn KKÍ. |
|