© 2000-2024 Körfuknattleikssamband Íslands, Íþróttamiðstöðinni Laugardal, 104 Reykjavík, Sími 514-4100, Fax 514-4101, kki@kki.is
Viðburðadagatal
S M Þ M F F L
 
 
1
2
3
4
5
6
7
8
9
10
11
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
25
26
27
28
29
30
31
   
14.11.2012 | Hannes S. Jónsson
Afreksíþróttir við þolmörk
Íþróttahreyfingin er ein stærsta fjöldahreyfing landsins og þúsundir sjálfboðaliða leggja sig fram í hverri viku til að halda úti öflugu starfi hreyfingarinnar.

Íþróttir eru taldar ein mesta forvörn sem til er, um það efast fæstir. Flestir ef ekki allir þingmenn okkar eru sammála því en því miður þá virðist stór hluti þeirra samt sem áður hafa takmarkaðan skilning á starfsemi íþróttahreyfingarinnar og þá sérstaklega afreksstarfinu.

Ráðherrar, alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn eru duglegir að mæta á viðburði þegar afreksfólkið okkar nær góðum árangri – það er flott að láta taka myndir af sér með íþróttamönnum og vinsælt er að koma með örlítil peningaverðlaun líka svo þeir geti nú sagst hafa stutt íþróttafólkið til góðra verka. Þetta virkar þó hjákátlegt gagnvart öllum þeim sem koma að afreksstarfi í íþróttum.

Til þess að halda úti öflugu afreksstarfi þarf fjármagn og til þess að ná árangri þarf fjármagn!

Innan ÍSÍ eru 28 sérsambönd og halda þau öll úti afreksstarfi. Hvað gerir ríkisvaldið til þess að styðja við bakið á þessum 28 sérsamböndum? Jú, það greiðir 34,7 milljónir í Afrekssjóð ÍSÍ á þessu ári eða um ríflega 1,2 milljón fyrir hvert sérsamband ef við gefum okkur þá reikniformúlu. Það sjá allir að þetta er heldur dapurt.

Á fjárlögum fyrir árið 2013 er ekki gert ráð fyrir hækkun í Afrekssjóð ÍSÍ. Það eru mikil vonbrigði og því spyr ég þeirrar einföldu spurningar: „Er það vilji alþingismanna okkar að leggja niður afreksíþróttir á Íslandi?"

Körfuknattleikssambandið, KKÍ, er eitt af stærri sérsamböndum innan ÍSÍ. Körfuknattleikur er ein stærsta og vinsælasta íþróttagrein í heimi og mjög erfitt getur verið fyrir Ísland að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi í jafn stórri íþróttagrein. Innan raða KKÍ er mikill metnaður og vilji til að halda úti öflugu afreksstarfi – starfi sem getur leitt til þess að við náum viðunandi og góðum árangri á alþjóðlega vísu. Þá kemur að kjarna málsins – það kostar pening að ná árangri!

Ísland hefur átt nokkra Norðurlandameistara í yngri landsliðum körfuknattleiks á undanförnum árum, ásamt því að hafa komist í úrslitamót í Evrópukeppni yngri landsliða. Fjölskyldur þessara landsliðsmanna hafa þurft að greiða stóran hluta þessa kostnaðar því annars hefði KKÍ ekki getað sent þessi landslið til keppni. Finnst alþingismönnum að við eigum að velja í landslið eftir efnahag foreldranna?

Það er himinn og haf á milli Íslands og annarra landa í Evrópu þegar kemur að fjárveitingum til íþróttamála. Engin ríkisstjórn þeirra landa í Evrópu sem við Íslendingar viljum helst bera okkur saman við styður eins lítið við íþróttahreyfinguna og ríkisstjórn Íslands. Þetta er miður.

Það vill því miður oft gleymast hversu góð landkynning okkar góða íþróttafólk er, einnig vill oft gleymast að íþróttirnar er góð tekjulind fyrir þjóðarbúið. Langstærsti kostnaðarliður afreksstarfsins er ferða- og uppihaldskostnaður og hverjir eru það sem njóta þess? Það eru ríkissjóður og fyrirtækin í ferða- og veitingahúsastarfsemi. Afreksíþróttir skapa tekjur og laða að fólk til landsins!

Vegna þess að afreksfólkið fær lítinn fjárstuðning frá ríkisvaldinu og fyrirtækin í landinu hafa þurft að minnka stuðning sinn við afreksfólkið okkar, þá stöndum við frammi fyrir því að efnilegir og góðir íþróttamenn sjá ekki fram á að fá tækifæri til að keppa með sínum landsliðum. Þrátt fyrir lítinn skilning ríkisvaldsins þá erum við hér á Íslandi svo heppin að mörg fyrirtæki í landinu sjá sér fært að styðja með ýmsum hætti við bakið á afreksstarfinu og fyrir það ber að þakka og geri ég það af heilum hug.

Við sem förum fyrir íþróttahreyfingunni vitum og gerum okkur grein fyrir að ríkissjóður þarf að forgangsraða í sínum fjármálum eins og staðan er á Íslandi í dag. Það eru hins vegar forvarnir til framtíðar að ríkissjóður styðji myndarlega við afrekssjóð íþróttahreyfingarinnar.

Það er staðreynd að afreksíþróttir á Íslandi eru komnar að fjárhagslegum þolmörkum. Metnaðurinn, getan, viljinn og þrótturinn hjá íslenskri íþróttahreyfingu er svo sannarlega til staðar til að halda áfram á sigurbraut íslenskra íþrótta. Um það skal enginn efast.

Ég bið alþingismenn að hoppa um borð með okkur núna áður en það verður um seinan, tíminn er naumur.

Að lokum langar mig að þakka þingkonunum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þingsályktunartillögu sem þær lögðu nýverið fram á Alþingi um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.


Hannes S. Jónsson
Formaður KKÍ
Mótayfirlit
Mótayfirlit allra flokka
Páll Axel Vilbergsson að skjóta yfir Panagiotis Trisokkas, leikmann Kýpur, á Smáþjóðaleikunum 2009. Ísland tapaði leiknum 54-87. Með sigrinum tryggði Kýpur sér nánast gullið þó þetta væri aðeins annar leikdagur leikanna. Kýpur vann gullið að lokum og Ísland fékk bronsið.
DómarahorniðLeiðararTölfræðiSaganViðtalið